Deila

10,5 milljónir söfnuðust

Á stofnfundi Frjálsrar fjölmiðlunar og aðdraganda hans skráðu um 800 manns sig sem stofnfélaga og fyrir um 10,5 milljón króna framlagi á þessu ári til styrktar frjálsri og óháðri fjölmiðlun.

Frjáls fjölmiðlun mun verða sjálfseignarstofnun og gengið verður frá stofnun hennar á næstu dögum. Markmið félagsins er að styrkja frjálsa og óháða fjölmiðlun á Íslandi og efla fjölmiðla sem starfa í almannaþágu. Til að byrja með verður lögð áhersla á að efla ritstjórn Fréttatímans en ef vel tekst til eru uppi ráðagerðir um að styrkja aukna umfjöllun um einstaka málaflokka.

Á fundinum og í aðdraganda hans söfnuðust um 10,5 milljónir króna frá um 800 manns. „Þetta er framar vonum enda eru aðeins fáeinar vikur síðan við kynntum þetta verkefni,“ segir Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans.

Auglýsing

Að hans sögn getur fólk enn skráð sig sem félaga og fyrir framlögum. „Hugmyndin er að safna fyrir um þremur stöðugildum blaðamanna fyrir almenna ritstjórn Fréttatímans svo reka megi öfluga og sjálfstæða ritstjórn. Þegar því marki verður náð munum við kynna næstu skref, meðal annars aukna umfjöllun um tiltekna málaflokka bæði í blaðinu sjálfu en einnig á vefnum,“ segir Gunnar Smári.

Á næstu vikum mun stjórn og fulltrúaráð Frjálsrar fjölmiðlunar móta starfsemina frekar og efla umræðu um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar í samfélaginu.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.