Deila

Stjórnendur Borgunar létu eyða gögnum

Atli Þór Fanndal skrifar.

Stjórnendur Borgunar létu í mars síðastliðnum eyða sérstakri stjórnendagátt, það er stafrænu gagnaherbergi sem hýsti gögn úr söluferli þriðjungshlutar Landsbankans í fyrirtækinu. Með eyðingunni var sjálfvirkri aðgangskráningu og tímastimplum allra gagna eytt. Landsbankinn og Borgun deila um hvort samkomulag Borgunar við Visa Inc. hafi verið meðal aðgengilegra gagna.

Samningurinn er ríflega sex milljarða virði. Í gögnunum sem var eytt hefði mátt taka fyrir allan vafa um málið. Meðal kaupenda hlutarins eru stjórnarmenn Borgunar og aðilar tengdir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra fjölskylduböndum. Salan á hlut bankans fór fram í lok árs 2014 og var fyrirtækið þá metið á um sjö milljarða. Í ágúst 2015, tæpu ári eftir kaupin, seldu stjórnendur Borgunar 2.8% hlut á um 300 milljónir en miðað var við að heildarverðmæti Borgunar væri 11 milljarðar króna. Það er fjórum milljörðum meira en fyrirtækið var metið á rétt rúmu hálfu áru áður. Í dag, rúmlega ári eftir sölu á hlut Landsbankans, er Borgun metin á milli 19-26 milljarða króna, samkvæmt verðmati sem KPMG vann fyrir stjórn Borgunar og Morgunblaðið fjallaði um í byrjun febrúar.

Auglýsing

Borgun fær milljarða

Tilkynnt var um kaup Visa Inc. á Visa Europe í byrjun nóvember 2015, rétt tæpu ári eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn. Í svarbréfi Borgunar til bankans frá 9. febrúar kemur fram að væntanleg hlutdeild Borgunar í söluvirði Visa Europe hafi ekki verið ljóst fyrr en 21. desember síðastliðinn. Í svarbréfinu kemur fram að Borgun gerir ráð fyrir að fá €33.9 milljónir í peningum þegar Visa inc. greiðir fyrir kaupin á Visa Europe. Þá væntir Borgun €11.6 milljóna í formi forgangshlutabréfs í Visa inc. Borgun gerir því ráð fyrir að fá um 6.5 milljarða króna vegna samningsins á næstu árum. Til viðbótar mun Visa greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum. Hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð ræðst af viðskiptaumsvifum Borgunar.

Íslandsbanki vildi ekki hlut Landsbankans

Í mars 2014 gerði hópur fjárfesta tilboð í hlut Íslandsbanka og Landsbanka í fyrirtækinu Borgun. Nokkrum mánuðum síðar, eða í júní 2014, kemst Íslandsbanki að þeirri niðurstöðu að bankinn hyggist ekki selja sinn hlut í fyrirtækinu né kaupa Landsbankann út. Í júlí sama ár gerði fjárfestingahópurinn, sem tengist stjórnendum Borgunar, kauptilboð í hlut Landsbankans og síðar í sama mánuði, það er 23. júlí 2014, undirrituðu Landsbankinn og fjárfestingahópurinn viljayfirlýsingu um samningaviðræður. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði við Kastljós í vikunni að Landsbankinn kannaði nú réttarstöðu sína vegna sölu á hlut bankans til stjórnenda Borgunar og hóps fjárfesta.

Upplýsingum eytt án afritunar

Í ágúst 2014, nokkrum dögum eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar, var sérstök stjórnendagátt opnuð hjá fyrirtækinu Azazo. Gagnaherbergi er hugbúnaður sem fyrirtæki nýta til að deila viðkvæmum gögnum til að mynda vegna söluferlis. Hugbúnaðurinn skráir ítarlega aðgang að gögnum, hvort og þá hvenær þau eru skoðuð sem og hvenær gögnin voru færð í kerfið til kynningar. Í mars árið 2015 var gagnaherberginu eytt án afritunar þrátt fyrir að rekstraraðilum gagnaherbergja sé sérstaklega boðið að eiga afrit af aðgangssögu kerfisins. Landsbankinn og Borgun deila meðal annars um það hvort samkomulag Borgunar við Visa Europe hafi verið aðgengilegt fulltrúum Landsbankans í söluferlinu.

Landsbankinn reyndi að afla gagnanna beint

Fréttatíminn hefur heimildir fyrir því að Landsbankinn hafi fyrir nokkrum vikum krafist aðgengis að aðgangsskráningum hugbúnaðarins. Starfsfólk bankans hafi fyrir það fyrsta gert kröfu á Borgun um að sækja afrit hjá fyrirtækinu. Því hafi Borgun ekki getað orðið við enda fyrirskipaði fyrirtækið eyðingu allra gagna og skráninga án afritunar. Þá hafi starfsmaður bankans gert tilraun til að fá aðgengi að gögnunum frá Azazo milliliðalaust en ekki fengið. Upplýsingarnar eru hins vegar ekki til að fyrirskipan Borgunar. „Ég þekki ekki samskiptin um þetta en ég veit ekki til annars en að gagnaherbergjum sé bara alltaf lokað,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, í samtali við Fréttatímann. – Í ljósi þess að salan var enn til umfjöllunar fjölmiðla í mars 2015, og til athugunar eftirlitsstofnana, hefði þá ekki verið eðlilegast að halda gagnagáttinni opinni? „Ég veit ekki betur en að það sé algjörlega staðlaður framgangsmáti að loka gagnaherbergjum. Það er að eyða þeim. En gögnin eru öll til staðar og listar um það sem þangað fór inn og hverjir fengu aðgang að.“ – Þessi tímasetta og sjálfvirka aðgangsskráning er farin og þið eigið ekki afrit af henni eða hvað? „Nei“

Íhuga að rifta sölunni

Bankastjóri Landsbankans sagði í Kastljósi í upphafi vikunnar að til skoðunar væri að rifta sölunni á Borgun og leggja fram kæru vegna málsins. Ekki liggi þó fyrir hvað gert verði. Aðspurður hvort forsvarsmenn bankans líti svo á að þeir hafi verið blekktir, sagði Steinþór: „Það er sterkt orð. Okkur hefði þótt eðlilegt að það hefði verið gerð grein fyrir þessu á þessum tíma. Það var ekki gert.“ Aðspurður hvers vegna Landsbankinn leitaði ekki til sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara, ef grunur væri á blekkingum, sagði Steinþór að slíkt væri til skoðunar. Salan á Borgun er nú til athugunar hjá fjórum eftirlitsaðilum: Bankasýslu ríkisins, Fjármálaeftirlitinu og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, auk Ríkisendurskoðunar. Það er í því ljósi sem lokun hins rafræna gagnaherbergis hefur vakið athygli meðal viðmælenda Fréttatímans. Lögfræðingar á vegum KPMG sáu um uppsetningu og rekstur gagnaherbergisins fyrir stjórnendur Borgunar. KPMG hefur, fyrir hönd Borgunar, afhent Fjármálaeftirlitinu lista yfir öll þau gögn sem aðgengileg voru í gagnaherberginu. Á listanum er, samkvæmt heimildum Fréttatímans innan úr Borgun, tilgreindur valréttarsamningur Borgunar vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa inc. á Visa Europe. Það er í andstöðu við yfirlýsingar Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 11. febrúar síðastliðnum en þar kemur fram að „í kynningunum var í engu vikið að því að Borgun ætti hlutafé í Visa Europe eða tilkall til endurgjalds, kæmi til þess að valréttur Vísa Europe og Vísa Inc. yrði nýttur.“
Samkeppniseftirlitið ósammála Landsbankanum

Ítrekað hefur Landsbankinn lýst yfir að sala bankans á hlut sínum í Borgun sé afleiðing af kröfu Samkeppniseftirlitsins um að „eignarhaldi kortafyrirtækjanna yrði breytt þannig að aðeins einn banki væri í eigendahópi hvers fyrirtækis.“ Þessu hefur Samkeppniseftirlitið mótmælt og bent á að eftirlitið gerði ekki kröfu á Landsbankann um að selja hlut sinn. „Í tilviki eignarhalds bankanna á Borgun skal það tekið fram að það var ekki skilyrði Samkeppniseftirlitsins að Landsbankinn fremur en Íslandsbanki seldi sig út úr félaginu,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá janúarlokum. Þá er bent á að Borgun hafi verið seld úr bankanum áður en Samkeppniseftirlitið lauk sátt við Landsbankann. „Ekki kom því til þess að Samkeppniseftirlitið setti bankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta. Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans.“

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.