Deila

20 milljarða skattaafsláttur til fjármagnseigenda

Íslendingar innheimta óvenju lágan fjármagnstekjuskatt, miklum mun lægri en næstu nágrannalönd. Miðað við meðaltal Norðurlandanna innheimtir íslenska ríkið nær því 20 milljörðum króna minna í fjármagnstekjuskatt en hin Norðurlöndin. Það má því segja að Landspítalinn hafi ekki fengið þá aukningu framlaga sem forráðamenn hans báðu um vegna þess að ríkisstjórnin var búin að ráðstafa framlaginu til fjármagnseigenda.

screen-shot-2017-01-05-at-20-47-23

Í ársbyrjun 2009 hækkaði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fjármagnstekjuskattinn úr 10 prósentum í 20 prósent undir hefðbundnum ásökunum Sjálfstæðismanna um skattahækkanir. Ef þessi hækkun hefði ekki gengið fram væru tekjur ríkissjóðs á næsta ári af þessum skatti aðeins um 16 milljarðar króna í stað þeirra 31,6 milljarða króna sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Ef ekki hefði komið til skattahækkana vinstri stjórnarinnar væri 15 milljarða króna hola á ríkissjóði sem stjórnvöld þyrftu að fylla með niðurskurði.

Ísland gott fyrir fjármagn

Auglýsing

Þrátt fyrir þessa róttæku hækkun, tvöföldun skattprósentunnar, eru fjármagnstekjuskattar lágir á Íslandi. Skatturinn er 28,8 prósent í Noregi og svipaður í Finnlandi, 30 prósent í Svíþjóð og 42 prósent í Danmörku, jafn hár skatti á launatekjur.

Ef við miðum við Norðurlöndin þá gefur íslenska ríkið fjármagnseigendum 14 milljarða króna afslátt miðað við Noreg og Finnland, 16 milljarða króna miðað við Svíþjóð og 35 milljarða króna miðað við Danmörku. Sé stuðst við meðaltal Norðurlandanna nemur afslátturinn næstum 20 milljörðum króna.

Þetta má orða sem svo að íslensk stjórnvöld kjósi að verja 20 milljörðum króna til fjármagnseigenda sem aðrar Norðurlandaþjóðir nota til uppbyggingar sinna velferðarkerfa.

fjarmagnstekjuskattur
Ekkert nágrannaland okkar innheimtir lægri fjármagnstekjuskatt. Þau lönd sem innheimta lægri skatt af fjármagnstekjum eru fyrst og fremst Austur-Evrópulönd sem sluppu undan Sovétinu á blómatíma nýfrjálshyggjunnar. Norðurlöndin innheimta öll hærri skatt af fjármagnstekjum en Íslendingar. Skatturinn er hæstur í Danmörku, 42 prósent. Ef Íslendingar innheimtu jafn háan skatt af fjármagnstekjum mætti reikna með 66,4 milljarða króna tekjum af fjármagnstekjum á næsta ári, í stað 31,6 milljarða króna, samkvæmt nýsam- þykktu fjárlagafrumvarpi. (Byggt á upplýsingum frá OECD.)

Svikið undan lágum skatti

Frá Hruni hefur tilhneigingin verið sú í heiminum að fjármagnstekjuskattur hefur farið hækkandi. Það er þó ekki einhlítt. Sum lönd Austur-Evrópu og lönd sem eru undir þrýstingi lánardrottnahafa lækkað þennan skatt, það er ein af kröfum fjármagnseigenda fyrir frekari aðstoð. En meginreglan er sú að þessi skattur fer hækkandi, eins og tekjuskattur fyrirtækja.

Fá lönd gengu eins langt og Íslendingar fyrir Hrun í að lækka fjármagnstekjuskatt. Það er eitt dæmi þess hversu mikil áhrif kenningar nýfrjálshyggjunnar um lækkun skatta á fyrirtæki og hina efnameiri hafði á mótun efnahagsstefnunnar á Íslandi.

En þrátt fyrir að fjármagnstekjuskattar væru hér lægri en víðast hvar annars staðar rann gríðarlegt fé frá Íslandi í leit að enn lægri sköttum. Erfitt er að meta hversu háar upphæðir var um að ræða. Árin fyrir Hrun jókst fjármunaeign Íslendinga í útlöndum um 2200 milljarða króna.

Sé miðað við áætluð skattsvik á þessum árum og mat sérfræðinga á hversu stóran hluta þeirra megi rekja til aflandseyja má gera ráð fyrir að íslenskir fjármagnseigendur hafi flutt um 400 til 600 milljarðar króna til slíkra svæða á flótta undan hinum lága íslenska skatti.

Óvenju lágir skattar á fyrirtæki

Skattar á fyrirtæki eru með því allra lægsta sem þekkist í okkar heimshluta. Þau lönd sem innheimta lægri skatta þurfa nú að verjast því að verða skilgreind sem aflandssvæði. Fyrir Hrun hafði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks samþykkt að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 15 prósent, með því allra lægsta sem þekktist utan aflandseyja. Af þessari lækkun varð ekki. Þess í stað hækkaði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þennan skatt úr 18 prósentum í 20 prósent.

screen-shot-2017-01-05-at-20-47-30

Eftir sem áður eru skattar á íslensk fyrirtæki lágir. Sé miðað við meðaltal OECD má meta þessa stefnu íslenskra stjórnvalda á 7 milljarða króna eftirgjöf skatta, í það minnsta. Þetta er sú upphæð sem Íslendingar kjósa að skilja eftir hjá eigendum fyrirtækja á meðan aðrar þjóðir innheimta hana í skatt og byggja upp grunnkerfi samfélagsins.

tekjuskattur-fyrirtaekja
Tekjuskattur á fyrirtæki er með allra lægsta sem þekkist meðal þróaðra ríkja. Af nágrannalöndum okkar er Írland eina landið sem innheimtir lægri skatta af fyrirtækjum, enda þurfa stjórnvöld þar nú að verjast kærum frá alþjóðlegum stofnunum vegna undirboða á sköttum til fyrirtækja. Ef Írar hækka ekki skatta gætu þeir lent í því að Írland yrði skilgreint sem aflandssvæði. Á Íslandi er tekjuskattur 20 prósent, hann er 24,7 prósent að meðaltali í ríkjum OECD og 22,2 prósent að meðaltali á Norðurlöndunum. (Byggt á upplýsingum frá OECD.)

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.