Þingheimur logaði vegna mála Dómsmálaráðherra á Alþingi í morgun

VG og sjálfstæðisflokkur hafa lýst því yfir að þeir standi með ráðherranum en stjórnarandstaðan gagnrýnir embættisfærslur ráðherrans harðlega.

,,Hún á að sjá lágmarkssóma sinn í að segja af sér, að sjálfsögðu, ráðherrastól.“ 

Segir Helgi Hrafn Gunnarsson sem lýsti yfir vantrausti á Sigríði Andersen og skoraði á hana sem Dómsmálaráðherra að segja strax af sér.

,,Það er hægt að læra mikið með því að hlusta á ræður hv. þm. Birgis Ármannssonar um fundarstjórn vegna þess að hann er mjög góður í að lýsa einhverjum svona lagatæknilegum ferlum um hvernig hlutirnir virki. Við vitum alveg að Alþingi greiddi atkvæði um tillöguna. Við vitum alveg hvað gerðist. Það liggur fyrir.

Það er enginn staðreyndaágreiningur, nema af og til frá hæstv. dómsmálaráðherra sem virðist ekki alveg enn þá hafa lært að hún hafi raunverulega brotið lög. En hún ætlar ekki að deila við dómarann, bara vera ósammála honum, og ekki sýna neina iðrun í því sambandi.

Þegar upp koma einhver hneykslismál í pólitíkinni koma menn hingað stundum og segja: Hvaða lög voru brotin? Eins og það sé endilega aðalatriðið. Sem það er ekkert endilega.
Ég get sagt hvaða lög voru brotin: 10. gr. stjórnsýslulaga. Þannig er það. Ókei.

Svo höldum við áfram yfir í pólitísku ábyrgðina. Það er ekki bara að einhver lög hafi verið brotin. Strangt til tekið brjótum við lög þegar við mætum ekki á þingfund hér. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið hérna er afleiðingar lögbrotsins, fyrirsjáanlegu afleiðingarnar, skýringarnar við því og viðbrögðin við því. Og ekkert af þessu er viðunandi á neinn hátt. Ráðherrann sýnir enga iðrun. Enga. Ekki neina viðleitni til að breyta einhvern veginn öðruvísi í framtíðinni. Og þá getum við ekki treyst þessum ráðherra.

Hún á að sjá lágmarkssóma sinn í að segja af sér, að sjálfsögðu, ráðherrastól.

Ég velti fyrir mér einni spurningu. Hvernig gæti hæstv. ráðherra axlað minni ábyrgð? Hvað gæti hún gert minna en hún gerir?“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson á Alþingi í dag.

Enginn þingmaður eða ráðherra VG tók til máls til þess að verja embættisfærslunar né til þess að taka undir að þær væru í lagi.

Hér má sjá beina útsendingu frá Alþingi:

Athugasemdir

Athugasemdir