05.02.18  Kl.22.15

Við munum á næstunni ræða ofbeldismál og taka viðtöl við þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis í þjóðfélaginu og birta fréttir af gömlum og nýjum málum sem að verið er að vinna úr er varða nauðganir, andlega og fjárhagslega kúgun og fleira í þeim málaflokki hér á landi. Stafli af skjölum og skýrslum í vinnslu

Hér að neðan eru fréttir af starfi Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hóf starfsemi sína 2. mars 2017. Bjarkarhlíð veitir fullorðnum þolendum ofbeldis þjónustu burtséð frá kyni. Veitt er samhæfð aðstoð við afleiðingum ofbeldis á einum stað. Bjarkarhlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni níu aðila sem allir hafa langa reynslu og góða þekkingu á málaflokknum. Þeir aðilar eru Reykjavíkurborg, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, velferðarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.

Bjarkarhlíð veitir þolendum ofbeldis viðtöl hjá samstarfsaðilum þeim að kostnaðarlausu, á þeirra forsendum. Í Bjarkarhlíð starfa tveir félagsráðgjafar ásamt rannsóknarlögreglukonu sem veita þolendum ráðgjöf og upplýsingar. Að auki veitir Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands fría lögfræðiráðgjöf fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Helstu tölur úr fyrsta viðtali við þjónustuþega í Bjarkarhlíð. Tímabil: frá opnun til loka árs 2017*

Kyn, þjóðerni, aldur
• Við lok árs höfðu alls 316 þjónustuþegar leitað til Bjarkarhlíðar, 91% voru konur og 9% voru karlar.
• Íslendingar voru í meirihluta þeirra sem komu í Bjarkarhlíð, eða 281 einstaklingur (89%). Af þeim sem voru erlendir komu 20 (6%) frá löndum innan Evrópu og 15 einstaklingar ( 5%) frá löndum utan Evrópu.
• Stærstur hluti þjónustuþega var á aldrinum 18-29 ára eða 39% en 30% þeirra var á aldursbilinu 30-39 ára. Samtals tæp 70% á aldrinum 18-39 ára.

Hjúskaparstaða, búseta, menntun, atvinnustaða
• Af þjónustuþegunum voru 59% ekki í sambandi en 29% í sambandi og 11% voru að skilja þegar þeir komu til Bjarkarhlíðar.
• 66% voru búsettir í Reykjavík, en frá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu komu 21% þjónustuþega. 12% eru búsettir í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.
• 27% þjónustuþega hafði lokið háskólanámi, 25% framhaldsskólanámi og 41% grunnskólanámi.
• Af þjónustuþegum voru 10% án atvinnu, 25% voru öryrkjar, 16% nemar en 37% voru í hlutastarfi eða fullu starfi.

Nánar um þjónustuþega
• Um 22% þjónustuleganna býr við andlegan sjúkdóm og 13% býr við líkamlegan sjúkdóm. 3% býr við þroskaskerðingu og sama hlutfall við heyrnarskerðingu.
• Af þeim sem komu í Bjarkarhlíð höfðu 65% áður fengið þjónustu hjá einhverjum af samstarfsaðilunum. 21% höfðu fengið aðstoð hjá heilbrigðiskerfinu vegna ofbeldisins, svo sem hjá Bráðamóttöku LSH, Geðdeild, á öðrum deildum spítalans eða hjá heilsugæslu.
• Rúmur helmingur þjónustuþega (53%) hefur glímt við sjálfsvígshugsanir í tengslum við ofbeldi.
• Mjög stór hluti þjónustuþega er með sögu um fyrri áföll eða 79%. Athugið að hér er einstaklingur spurður um það áfall sem tengist ofbeldi og/eða áfall sem hefur haft veruleg áhrif á líf viðkomandi.

Annað
• Flestir þjónustuþegar höfðu samband símleiðis (83%) en 10% hafði samband gegnum tölvupóst eða facebook.
• Flestir þjónustuþegar höfðu heyrt um úrræðið í gegnum vin/kunningja eða fjölskyldumeðlim (21%) en þar á eftir kom Velferðarsvið (18%) og svo samstarfsaðilar Bjarkarhlíðar (16%).

Eðli ofbeldisins
• Flest málin sem komu á borð Bjarkarhlíðar voru heimilisofbeldismál eða 74%. Ef sú tala er brotin niður sést að 14% gerenda var núverandi maki, 46% var fyrrverandi maki, 1% var barn og í 13% tilvika var gerandi ættingi viðkomandi.
• Í tæpum helmingi málanna (48%) voru börn á heimili þjónustuþega en í 54% voru einhver afskipti barnaverndar.
• Þegar spurt er um síðasta atvik kemur í ljós að vopn var notað í 18% tilfella og munir eyðilagðir í 38% tilfella.

Gerendur
• Meiri hluti hafði rætt ofbeldið við gerenda (73%). Viðbrögð gerenda voru oftast á þá leið að kenna þolanda um ofbeldið (36%), að hafna ofbeldinu (35%) en 18% viðurkenndi ofbeldið.
• Gerendur voru í 88% karlar en 11% konur (1% skilgreindi kyn geranda á annan hátt).
• Aldur gerenda var í flestum tilvikum á bilinu 30-39 ára (30%).

Flæðið innan Bjarkarhlíðar
• Flestum þjónustuþegum var vísað í sitt annað viðtal til starfskvenna Kvennaathvarsins (26%), en lögreglan fékk 23% málanna á sitt borð og Stígamót um 12%.

Lögreglumál
• Af þeim 316 sem til Bjarkarhlíðar leituðu ræddu 184 við lögregluna** eða 58%.
• Af þeim leituðu 49% til lögreglu vegna heimilisofbeldis og 38% vegna kynferðisofbeldis, 13% vegna annara mála.
• Kærur voru lagðar fram í 62 málum (34% af 184 málum). 31% kæranna varðaði heimilisofbeldi, 64% kæranna varðaði kynferðisofbeldi.

*Athugið að hér er stiklað á stóru og einungis dregnar fram helstu upplýsingar um starfsemina. Í einhverjum tilfellum er því ekki gert ráð fyrir að hlutfall (%) sem gefið er upp við dreifingu ákveðinna breyta sé samanlagt 100%. Athugið jafnframt að í einhverjum tilfellum er ekki unnt að leggja saman % þar sem þjónustuþegi gæti hafa merkt við fleiri en einn möguleika, t.d. getur einstaklingur verið bæði með andlegan og líkamlegan sjúkdóm.
**Eftir fyrsta viðtal fékk lögreglan 23% mála beint til sín, gegnum þjónustuferlið í Bjarkarhlíð enduðu 58% málanna hjá lögreglu. Það skýrir muninn á 23% og 58% sem hér er greint frá.

 

Athugasemdir

Athugasemdir