Jón Þór Ólason býður sig fram til formanns í SVFR

Jón Þór Ólafson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur á næsta aðalfundi félagsins.

Árni Friðleifsson sem gengt hefur formennsku í félaginu sl. fjögur ár ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.

,,Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Stangaveiðifélags Reykjavíkur á komandi aðalfundi félagsins þann 24. febrúar næstkomandi.

Ég hef verið í félaginu til fjölda ára og tekið virkan þátt í félagsstarfinu. Þá starfaði ég ennfremur í mörg ár við leiðsögn á ársvæðum félagsins auk annarra ársvæða. Ég er forfallinn áhugamaður um veiði og hef mikinn áhuga á að vinna enn frekar að hagsmunum félagsins og þá um leið félagsmanna. Ég er lögfræðimenntaður og starfa sem lögmaður á Jónatansson & Co lögfræðistofu auk þess sem ég er lektor við lagadeild Háskóla Íslands.

Í störfum mínum sem lögmaður hef ég komið að rekstri bæði stærri og smærri félaga. Lögmannsstarfið býður uppá mikinn fjölbreytileika sem veitir mikla innsýn inn í þau fjölmörgu viðfangsefni er varðar daglegan rekstur og afkomu fyrirtækja.
Ég hef ennfremur komið að samningagerð fyrir landeigendur og veiðiréttarhafa og tel að sú reynsla myndi nýtast mér vel í starfi sem formaður okkar ágæta félags, hljóti ég brautargengi.

Ég er giftur Elínu Björgu Harðardóttur sjúkraþjálfara og saman eigum við tvö börn, sem eru 8 og 14 ára. Fjölskyldan er öll smituð af veiðibakteríunni og í gegnum árin höfum við átt yndislegar samverustundir við árbakkann.

Mér er sérstaklega umhugað að gæta sérstaklega að markmiðum SVFR sem aldrei má missa sjónar á, m.a. að efla hróður stangaveiði og styrkja stöðu hennar sem almennings- og fjölskylduíþróttar sem og að vinna að samstöðu stangaveiðimanna og standa vörð um rétt þeirra og hagsmuni. Mér finnst sem félagslífið í SVFR hafi farið hnignandi hin síðari ár. Það hef ég mikinn áhuga á að bæta og færa félagið aftur nær félagsmönnum, enda er það mín reynsla að veiðimönnum finnst fátt skemmtilegra heldur en að koma saman og ræða um hamingjustundir við veiðar og segja frá þeim stóra sem lak af í löndun.

SVFR er félag sem er einstakt á heimsvísu og stendur á tímamótum á næsta ári þegar félagið verður 80 ára. Nú er tækifærið að blása til enn frekari sóknar enda er félagið á uppleið eftir erfiða tíma. En það eru líka átök framundan sem SVFR má ekki skirrast við að taka þátt í af fullum þunga og vera þar leiðandi afl. Þar á ég við baráttuna gegn laxeldi í sjó sem dæmin sanna að geta haft óafturkræf áhrif á lífríkið og þ.m.t. laxa- og silungsstofna. Slíkt tjón yrði aldrei bætt.

Því óska ég góðfúslega eftir stuðningi ykkar á komandi aðalfundi.“

Athugasemdir

Athugasemdir