Jarðvarmastöðin á Þeistareykjum er nýjasta aflstöð Íslendinga. Stöðin var gangsett þann 17.nóvember 2017 og nú efnir Landsvirkjun til hugmyndasamkeppni um verk sem staðsett verður í víðáttumikilli náttúru Þeistareykja

Hverju er leitað að?

Í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands er óskað eftir tillögum að hönnuðu verki eða listaverki sem sett verður upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar.

Hugmyndasemkeppnin verður í tveimur hlutum.

Í fyrri hluta samkeppninnar velur dómnefnd úr innsendum tillögum, þrjár til fimm tillögur, inn í seinni hluta samkeppninnar. Ekki er greitt fyrir þátttöku í fyrri hluta samkeppninnar. Sjá nánari upplýsingar í samkeppnislýsingu.

Verkefnið felst í því að gera tillögu að verki sem sett verður upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Verkið þarf að falla vel að umhverfinu og má tengjast náttúru og sögu staðarins. Kostur er að verkið undirstriki sérstöðu svæðisins, auki á upplifun og hvetji til þátttöku þeirra sem þar eiga leið um. Skilyrði er að hægt sé að útfæra tillöguna í fullri stærð og að hún taki tillit til endingar og viðhalds.

Staðsetning verksins er frjáls að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa. Efnisval og frágangur verka þarf að taka mið af umhverfi sínu og því hvetjum við þátttakendur til að kynna sér vel veður- og náttúrufar staðarins.

Tillögum í fyrri hluta keppninnar skal skila fyrir kl. 16 þann 1. júní 2018.
Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum

Virkt eldfjallasvæði hefur mótað sérstæða náttúru Þeistareykja. Þar er að finna fjölbreyttar jarðmyndanir og útfellingar ásamt gufu- og leirhverum. Þeistareykir eru taldir með merkari minjasvæðum á landinu og eiga sér langa sögu um búsetu og nytjar.

Á yfirlitsuppdrætti hér til hliðar eru merktar tvær ákjósanlegar staðsetningar með tilliti til ásýndar og aðstæðna. Aðrar staðsetningar eru háðar samþykki sveitarfélagsins í samræmi við skipulagsskilmála á viðkomandi svæði. Vegna öryggis og náttúruverndar koma skyggð svæði á yfirlitsuppdrætti ekki til greina.

Viðhengi:

Athugasemdir

Athugasemdir