Við fórum á stúfana og kíktum á bensínstöð Cosco í Garðabæ. Þann 9. janúar er verðið á bensíni hjá Costco 186.90 krónur líterinn en kostaði 167.90 í ágúst s.l.                           En Costco býður félagsmönnum sínum ekki upp á afsláttarkort eins og hinar bensínstöðvarnar gera. Viðskiptavinir verða að greiða fyrir viðskiptakort hjá Costco, 4.800 krónur til þess að mega versla bensín á bensíndælum sem standa á lóð verslunar Costco.

Hinar bensínstöðvarnar hafa verið að hækka verð um liðlega 5% en Costco helmingi meira.

Óánægður viðskiptavinur kvartaði á einni af Facebook síðum aðdáenda Costco um að verðið væri orðið allt of hátt og að Costco hefði hækkað verðið mest á bensíni af bensínstöðvum landsins.

,,Nú er ég hættur að verzla í Costco. Fæ bensín á sama verði og þar með afsláttarkorti hjá öðrum. Ath. ég keypti kort á um 5.000 kr. hjá Costco en þurfti ekkert að borga fyrir afsláttarkort hjá minni bensínstöð. Ævintýrið er búið. Costco er komið í bensínsamráðshópinn.’’ sagði hinn óánægði viðskiptavinur. Í samtali við viðskiptavininn kom fram að hann kaupir talsvert magn af bensíni og fær því góðan afslátt með afsláttarkorti og að því borgi það sig ekki lengur að keyra í Garðabæ eftir bensíninu eftir hækkanirnar þar. Bíða svo í langri röð sem getur verið tímafrekt en það gerði hann áður en þeir fóru að hækka verðið.

Neðangreind tafla var gerð af Fréttablaðinu en ekki FÍB sem var misskilningur og leiðréttist það hér með. Uppfært 12.01.2018.

FÍB hefur tekið saman verðþróun eldsneytis frá því í ágúst 2017 og skv. þeirri skýrslu hefur Costco hækkað verð á bensíni lang mest eða um 19 krónur líterinn og um er að ræða 11.4% hækkun á fjórum mánuðum ásamt Dælunni sem hefur hækkað um 11.7% á sama tímabili. Þeir sem hafa fylgst með eldsneytisverði undanfarin ár, vita að hæsta verð í heimi hefur oftast verið á Íslandi og hefur verið undantekningalaust í 1-3 sæti með hæstu verð, bæði á diesel og bensíni. Verðin voru mjög svipuð hjá öllum bensínstöðvum á Íslandi þar til að Costco opnaði með verð sem var mun lægra . Við munum fylgjast mjög vel með þróun þessara mála og upplýsa eftir þörfum.

Það er greinilegt í dag að neytendur verða að vera vakandi yfir snöggum breytingum á markaði og jafnvel leita afsláttar og tilboða hjá þeim bensínstöðvum sem að veita slíkt.

Athugasemdir

Athugasemdir