Karlmaður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í dag

„fyrir fjárdrátt með því að hafa á tímabilinu frá 23. apríl 2010 til 04. mars 2011, sem stjórnarmaður og prókúruhafi reikninga Þroskahjálpar á Suðurnesjum, dregið sér fé af reikningum Þroskahjálpar en samtals ráðstafaði ákærði í 58 færslum, þar af í 48 færslum árið 2010 og í 10 færslum árið 2011 til útborgunar í eigin þágu og fyrirtækis síns.

Ákærði millifærði fjármunina í gegnum heimabanka, lét millifæra í banka eða tók út í reiðufé og lagði eða lét leggja millifærslurnar inn á eigin reikning eða inn á reikning þáverandi einkahlutafélags síns, samtals fjárhæð kr. 4.110.000.

Telst brot ákærða varða við 247. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19,1940.
Þess var krafist að ákærði yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærða var þess aðallega krafist að ákvörðun refsingar yrði frestað skilorðsbundið, en til vara var krafist vægustu refsingar, sem bundin yrði skilyrðum. Þá var krafist málsvarnarlauna.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Fær játning hans stoð stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Sannað er því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er 61 árs og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar var m.a. horft til þess að kæra í máli þessu var lögð fram 4. október 2011, ákærði endurgreiddi skömmu síðar alla þá fjármuni sem hann hafði dregið sér og lýst er í ákæru og viðurkenndi skýlaust brot sitt við yfirheyrslu hjá lögreglu, bæði 15. desember 2011 og 29. janúar 2015. Kvaðst hann einnig iðrast mjög gjörða sinna. Í síðari yfirheyrslunni veitti hann lögreglunni enn fremur skýringar á einstökum færslum og upplýsingar um afdrif allra þeirra fjármuna sem tilgreindir eru í ákæru.

Samkvæmt ofanrituðu liðu rúm 6 ár frá því kæra var lögð fram uns ákæra var gefin út, án þess að séð verði af gögnum málsins að frekari rannsóknargagna hafi verið aflað á þeim tíma. Af hálfu ákæruvaldsins hefur engin skýring verið gefin á þessum óhóflega drætti. Að þessu virtu þótti rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærða og binda hana skilyrðum svo sem nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða þóknun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 527.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnaði hans að fjárhæð 24.200 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákvörðun refsingar ákærða, var frestað og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, 527.000 krónur, auk ferðakostnaðar hans, 24.200 krónur.

 

Athugasemdir

Athugasemdir