Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn, aðeins 48 ára að aldri. Hann fannst látinn á heimili sínu í Berlín í gær. Þetta staðfestir umboðsmaður hans, Tim Husom. Jóhann var meðal virtustu kvikmyndatónskálda samtímans.

Í yfirlýsingu frá Redbird Music, útgáfufyrirtæki Jóhanns, segir að dánarorsök sé ókunn. Þar er haft eftir umboðsmanninum Tim Husom að hann sé mjög sorgmæddur. „Í dag missti ég vin minn sem var einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður og greindasti maður sem ég þekkti. Við fylgdumst lengi að.“

Jóhann hlaut Golden Globe-verðlaun árið 2014 fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything og var tilnefndur til Óskars-, BAFTA- og Grammy-verðlauna fyrir þá mynd.

Hann var aftur tilnefndur til Óskars- og BAFTA-verðlauna fyrir Sicario árið eftir og til Golden Globe og BAFTA-verðlauna 2016 fyrir Arrival og Grammy-verðlauna ársins 2017 fyrir sömu mynd. Jóhann starfaði einnig að myndinni Mother! eftir Darren Aronofsky og nú í byrjun febrúar kom út hjá Deutsche Grammofon tónlist Jóhanns við kvikmyndina The Mercy, með Colin Firth í aðalhlutverki. Undanfarið hafði Jóhann unnið að tónlist við  kvikmynd um Maríu Magdalenu með Rooney Mara og Joaquin Phoenix í aðalhlutverkum. Jóhann var ókvæntur en lætur eftir sig eina uppkomna dóttur.

Athugasemdir

Athugasemdir