Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar hélt stefnuræðu sína í dag á landsþingi Viðreisnar sem haldið er í Hljómahöllinni, Reykjanesbæ um helgina

Fjölmennt er á fundinum en yfirskrift fundarins er „ruggum bátnum“ og vísar í áherslu Viðreisnar á að hætta meðvirkni og standa fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum, jafnrétti og alþjóðasamvinnu. Í ræðu sinni lagði Þorgerður áherslu á Evrópusamvinnu og sagði meðal annars að hún leggði til að þingið myndi sammælast um það að beita sér fyrir því á Alþingi að forsætisráðherra skipi þverpólitíska nefnd til þess að leggja mat á nýjar og breyttar aðstæður í alþjóðamálum, nýjar áskoranir fyrir Ísland og nýja möguleika til þess að bæta hag fólksins í landinu með því að taka nýtt skref í Evrópusamvinnunni.

,,Einhverjir kunna að segja að borin von sé að ná samstöðu um þessi efni. En það réttlætir ekki að pottlok sé sett á umræðuna. Það sem mestu máli skiptir er að viðurkenna að við stöndum andspænis nýjum áskorunum og það skiptir máli að kortlegga álitaefnin og draga fram röksemdir með og á móti. Það er nauðsynlegur grundvöllur heilbrigðrar umræðu og ákvarðana.“ Sagði Þorgerður.

Hún fjallaði um að áður hafi stjórnvöld skipað slíkar nefndir. Í aðdraganda þess að aðild Íslands að EFTA var sett á dagskrá skipaði Viðreisnarstjórnin slíka nefnd með fulltrúum allra þingflokka undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar. Fyrir meir en áratug setti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar slíka nefnd á fót undir forystu Björns Bjarnasonar jafnvel þó að þörfin þá hafi ef til vill ekki verið eins brýn og nú. Niðurstaða hennar var um margt góður umræðugrundvöllur.

,,Það blasa við nýjar áskoranir. Og það er nauðsynlegt að meta stöðu Íslands í nýju ljósi. Þegar við setjum okkur almenn innanlandspólitísk markmið eins og að auka stöðugleika, draga úr mismunun á fjármálamarkaði og auðvelda stefnubreytingu þar sem fjölgun atvinnutækifæra verður frekar í hærra launuðum störfum er kalla á þekkingu og tæknikunnáttu, en láglaunastörfum, hlýtur aðild að Evrópusambandinu að vera raunhæfur valkostur. Evrópusambandsaðild er í mínum huga ekki endilega einstakt markmið heldur leið að fjölþættum markmiðum til að bæta íslenskt samfélag.“ Sagði Þorgerður.,,

,,Ég legg því ríka áherslu á að þetta mál verði tekið á dagskrá og umræðan um nefndina verði undirbúin með vönduðum hætti og með aðild allra þingflokka eins og dæmi eru um frá fyrri tíð. Við þurfum með störfum okkar og málflutningi að sýna fram á að það er þungi að baki þessari tillögu um málsmeðferð. Sjáum svo hvert rökræðan leiðir okkur.

Ef ríkisstjórnin leggst gegn þessari hugmynd er hún hvort tveggja staðnaðri og forstokkaðri en ég hef nokkurn tímann ímyndað mér. Þó að stjórnarflokkarnir hafi samið um hagsmuni kyrrstöðunnar er ég sannfærð um að hún er ekki svo heillum horfin að bregða fæti fyrir að þessi stóru álitamál verði sett i málefnalegan farveg af þessu tagi. Ég er því vongóð um að þetta skref megi stíga fljótlega.“

Athugasemdir

Athugasemdir