Ítarlegri skoðun lokið vegna starfsmanns barnaverndar sem grunaður er um að hafa brotið gegn 9 börnum lokið og frekari greining á 170 kynferðisafbrotamálum í gangi

Kynntar voru niður­stöður skoðunar lög­regl­unn­ar á því sem kunni að hafa farið úr­skeiðis vegna m.a. rann­sóknar á ætluðum kyn­ferðis­brot­um karl­manns sem starfaði sem stuðnings­full­trúi drengs sem var á aldr­in­um 8 til 14 þegar að meint brot voru fram­in.

Tilkynnt var um málið til lög­reglu í haust en ekki var hins veg­ar brugðist við kær­unni fyrr en nú í des­em­ber.  Barnaverndarstarfsmaðurinn sem var kærður fyrir kynferðisbrotið starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hann var ekki handtekinn fyrr en 19. janúar og þá fyrst frétti Barnavernd Reykjavíkur af kærunni. Maðurinn er grunaður um brot gegn átta börnum og níunda málið er núna í athugun hjá lögreglu.

 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti á blaðamannafundi síðdegis að hún hefur nú lokið ítarlegri skoðun á því hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmannsins, sem tilkynnt var um í sumarlok 2017 eins og áður er sagt.

Jafnframt var unnið að frekari greiningu á þeim 170 málum sem nú eru til meðferðar og rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild LRH, ekki síst m.t.t. forgangsröðunar. Skipaðir voru tveir hópar hjá embættinu til að sinna þessu verki undir stjórn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.

Kæra á hendur fyrrnefndum manni var lögð fram hjá embættinu 24. ágúst 2017 og skráð til rannsóknar tveimur vikum síðar, eða 7. september. Í kærunni kom fram að viðkomandi var starfsmaður barnaverndaryfirvalda þegar ætluð brot voru framin. Það hefði átt að leiða til tafarlausrar skoðunar á núverandi starfsvettvangi sakbornings, en var látið hjá líðast. Síðar, eða 21. desember, kom fram við yfirheyrslu brotaþola að sakborningur hafi verið með börn í sinni umsjá og fengið greitt fyrir, en sú vitneskja leiddi ekki heldur til sérstakra viðbragða af hálfu lögreglu.

Miðvikudaginn 17. janúar 2018 óskar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir upplýsingum um sakborninginn og þrjá skjólstæðinga hans árin 2004-2010 hjá Barnavernd Reykjavíkur. Aðstoðaryfirlögregluþjóni kynferðisbrotadeildar (R-1) er gerð grein fyrir málinu, en engar upplýsingar um rannsóknaráætlun málsins eða samskipti við barnavernd er að finna hjá embættinu fyrir þann tíma. Fimmtudaginn 18. janúar er haldinn rannsóknarfundur vegna málsins, auk þess sem fundað var með Barnavernd Reykjavíkur, en þennan sama dag voru yfirlögregluþjónn og lögreglustjóri upplýstir um málið.

Af framansögðu er ljóst að frumgreining málsins var ekki í samræmi við almennt vinnulag og því var ekki gripið til réttra viðbragða. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu harmar að svo hafa verið og biðst afsökunar á mistökunum.

Samhliða skoðun á umræddu máli voru önnur mál sem kynferðisbrotadeildin hefur til meðferðar og rannsóknar, um 170 talsins, tekin til frekari greiningar. Niðurstaða þessa er að 18 mál, sem hefur ekki verið úthlutað, skuli flokkast sem forgangsmál og þ.m. krefjast tafarlausra rannsóknaraðgerða og var stjórnendum í kynferðisbrotadeild kynnt það á fundi 2. febrúar sl. Að lokum skal þess getið að sýnt þykir að stjórnun kynferðisbrotadeildar hafi ekki verið með nægjanlega markvissum hætti og því verði að breyta.

Maðurinn sem nú sætir gæsluvarðhaldi var einnig kærður til lögreglu árið 2013. Kæran þá sneri að ætluðum brotum hans árin 2000-2006. Í gögnum málsins kemur fram að viðkomandi starfaði með börnum hjá Reykjavíkurborg á þeim tíma, en ekki er finna nein gögn hjá lögreglu um að barnaverndaryfirvöldum hafi verið gert viðvart vegna þessa.

Athugasemdir

Athugasemdir