Ágreiningur í máli lántakanda og eigenda fasteignarinnar gegn Íbúðalánasjóði, snýr að því hvort nauðungarsala sem fram fór þann 26. apríl á fasteign við Heiðarhraun í Grindavík hafi verið gild

Benda eigendur fasteignarinnar í fyrsta lagi á að þeim sem veðsölum, hafi verið ekki kynnt greiðslumat skuldara við veðsetningu á fasteign þeirra við Heiðarhraun í Grindavík og til vara á því að kona mannsins sem á 50% í eigninni, hafi ekki ritað undir veðflutninginn og veðsetninguna sem samþykk veðsetningu á sínum eignarhluta í fasteigninni, heldur einungis samþykk, sem maki þinglýsts eiganda með undirskrift sinni.

Telja hjónin að ekki hafi verið fyrir hendi gild nauðungarsöluheimild þegar fasteignin var seld nauðungarsölu heldur hafi nauðungarsalan verið byggð á ógildanlegu veðskuldabréfi.

Íbúðalánasjóður krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi, en kröfu sjóðsins um að málinu yrði vísað frá dómi var hafnað af dómara.

Þá vísa hjónin til 24. og 25. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 um skyldu þinglýstra eigenda til að samþykkja veðsetningu eigna sinna og séu þau ákvæði ekki uppfyllt þar sem konan hafi eingöngu ritað undir skjalið sem samþykkur maki þinglýsts eiganda.

Eins og gögn málsins bera með sér var annar einstaklingur upphaflegur lántakandi að láni að fjárhæð 16.200.000 krónur hjá Sparisjóði vélstjóra þann 7. mars 2005.

Var skuldabréfið með beinni uppboðsheimild, skv. lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu.    Fór nauðungarsala á fasteigninni í Heiðarhrauni, í Grindavík fram á grundvelli veðskuldabréfsins og þeirrar veðsetningar sem skapaðist með veðflutningnum, þann 6. febrúar 2006.

Hjónin mótmæltu gildi uppboðsins hjá sýslumanni en í gildi var þann 7.mars 2005 samkomulag Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda um greiðslumat að vissum skilyrðum uppfylltum.

Gilti samkomulagið um ábyrgðir einstaklinga eða veð í eigu annars einstaklings sem sett var til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Var Sparisjóður vélstjóra aðili að þessu samkomulagi. Bar Sparisjóði vélstjóra því á sínum tíma að framkvæma greiðslumat á lántakanda þegar upphaflega lánið var veitt.

Kaup Íbúðalánasjóðs á skuldabréfum í eigu Sparisjóðs vélstjóra með veði í fasteignum voru gerð með heimild laga frá 2008. Með kaupum tók Íbúðalánasjóður yfir öll þau réttindi og þær skyldur sem veðskuldabréfið bar með sér. Greiðslumat lántakanda og gögn hafi ekki fylgt með í lánasafni því sem Íbúðalánasjóður keypti. Þá hafi Íbúðalánasjóður ekki getað sýnt fram á að greiðslumat hafi farið fram. En sjóðurinn vildi snúa þeirri sönnunarbyrgði við en ekki var á það fallist og segir dómarinn að sönnunarbyrgðin liggi hjá Íbúðalánasjóði en ekki lántaka um að honum hafi verið kynnt greiðslumat hjá Íbúðarlánasjóði.

Telur dómurinn að viðskiptamenn Sparisjóðsins hafi átt að vera eins settur gagnvart nýjum banka sem eignaðist skuldabréf með veði í fasteign samkvæmt fyrrgreindum lögum. Þá hefur Íbúðalánasjóður ekki sýnt fram á að eigendum fasteignarinnar hafi verið kynnt staða sín sem ábyrgðarmenn eða veðsalar né að þau hafi fengið í hendur upplýsingabækling í samræmi við 4. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001.

Þar sem ósannað hafi verið af hálfu Íbúðalánasjóðs að greiðslumat hafi farið fram er Sparisjóður vélstjóra veitti upphaflega umrætt lán og að ósannað sé að veðsölum hafi verið kynnt greiðslumat lántakenda þegar þau veittu heimild til að veðsetja fasteign sína þriðja manni, verði að telja það einnig ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, skv. samningalögum nr.7/1936, af fjármálastofnun, sem hefur mikla yfirburði gagnvart lántakendum og veðsölum, beiti fyrir sig veðheimildinni.

Nauðungarsalan sem fór fram á fasteigninni að Heiðarhrauni í Grindavík, var dæmd ógild og Íbúðalánasjóði var gert að greiða hjónunum 600.000 krónur í málskostnað. Það var Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness sem kvað upp dóminn.

 

Athugasemdir

Athugasemdir