Páskaferðin okkar verður einstaklega vegleg og skemmtileg 19 daga ferð en við ætlum að kynnast hinu stórbrotna landi, Vietnam.

Nú þegar að styttist í vorið og páskana, fer folk að huga að ferðalögum, margir eru þegar búnir að panta en aðrir eiga eftir að panta sér ferðir. Við hjá Fréttatímanum kíktum á allskonar ferðir sem er verið að bjóða upp á út um allan heim og rákumst á þessa áhugaverðu ferð til Vietnam. Höfum heyrt að það sé mjög skemmtilegt að fara þangað og skoða og jafnvel dveljast þar í lengri tíma. Alla vega, þá er hægt að lesa sig til um eina slíka ferð sem er í boði hér að neðan og kannski er laust pláss í ferðina?

Ferðin hefst í Hanoi, sem er höfuðborg landsins en þaðan förum við til Halong Bay.

Þar siglum við um í einstöku umhverfi sem einkennist af þúsundum kalksteinseyja en gist verður á flóanum í tvær nætur.

Frá Hanoi  förum við til Ho Chi Minh, sem heimamenn kalla Saigon, upplifum borgina og einstaka sögu landsins. Eftir þrjár nætur í skarkala borgarinnar skiptum við algerlega um umhverfi og förum um borð í fljótabát sem við ferðumst með og gistum í tvær nætur um borð. Eftir siglinguna förum við til strandbæjarins Mui Ne við suðausturströnd Vietnam, en þar ætlum við að slaka vel á og hlaða batteríin fyrir heimferðina. Hjólreiðar njóta vaxandi vinsælda enda frábær leið til að kanna nýjar slóðir en upplifunin og  nálægðin land og þjóð verður allt önnur en í bíl. Daga 3 og 8 er boðið upp á „hjólatúra“ fyrir þá sem það vilja, en greitt er fyrir það sérstaklega  og fer verðið eftir þáttöku.

Fararstjóri í ferðinni verður Margeir Ingólfsson en hann hefur mikla reynslu af ferðum um Asíu síðustu 17 árin.

Dagur 1: 22. Mars Keflavík – Kaupmannahöfn – Bangkok – Hanoi

Lagt af stað frá Keflavík kl 7:45 og lent í Kaupmannahöfn kl 11:45. Eftir tveggja tíma stopp í Kaupmannahöfn er haldið áfram til Bangkok og áætlað að lenda þar kl 6:20 að morgni.

Dagur 2: 23. Mars 2018 – Hanoi (-/-/-)

Frá Bangkok verður síðan haldið til Hanoi kl. 7:45 og áætluð lending í Hanoi kl. 9:35. Við komuna til Hanoi tekur enskumælandi fararstjóri á móti okkur og fylgir á hótelið, en þangað er ca. 45 mín akstur. Það sem eftir er dags á eigin vegum.

Gisting, Hótel Chalcedony, First Class, Deluxe City view

Dagur 3: 24. Mars 2018 – Skoðunarferð um Van Giang þorpið,  skoðunarferð um Hanoi (M/H/-)

Við yfirgefum ysinn og þysinn í höfuðborginni og setjum stefnuna á sveitarsæluna en þar ætlum við að vera fyrri hluta dagsins. Höldum yfir „Red River“ og sjáum stórhýsi borgarinnar fjarlægjast á sama tíma og þorpin og hrísgrjónaakrarnir taka við. Eftir 45 mín akstur komum við til þorpsins Van Giang. Við skellum okkur beint á morgunmarkaðinn og upplifum stemninguna þar en þá mun stórborgin virðast í órafjarlægð. Allt í kringum okkur eru endalausir hrísgrjónastallar með götusölum sem bjóða hrisgrjón, núðlusúpur, ferskt grænmeti, grillað kjöt og margt fleira. Í göngu okkur um þorpið komum við að hofi sem er tileinkað einum af fjórum „guðum“ Vietnama. Við göngum um friðsælan garð og að altarishúsinu þar reykelsi brenna eins og þau hafa gert í hundruðir ára. Við munum síðan staldra við hofið sjálft en þar sjáum við vel hina fornu Vietnömsku byggingalist. Við göngum síðan um Van Giang að 150 ára gömlu heimili Mr. An sem var Bonsai safnari.  Þetta fallega heimili byggir á „Feng shui” hugmyndafræðinni og fáum við fræðslu um hana.  Yfir bolla af grænu te kynnumst við gestgjöfunum og fræðumst um sögu þorpsins. Fjölskyldan mun síðan sýna okkur hvernig þau undirbúa vorrúllugerð og „chung” kökur sem er sérstakur norður-Vietnamskur siður. Við snæðum síðan dæmigerðan norður vietnamskan hádegisverð með fjölskyldunni. Eftir matinn kveðjum við gestgjafana og höldum til Hanoi, margsvísari um sveitarlífið í norður Vietnam.

Eftir að við komum til Hanoi heimsækjum við fyrst Hof Bókmenntanna. Árið 1076 var fyrsti háskólinn  í Vietnam stofnaður í Quoc Tu Giam en hlutverk hans var að mennta hina konungbornu, „mandarina” og aðra sem tilheyrðu yfirstéttinni. Háskólinn var starfandi í 700 ár og í dag gefa byggingarnar og garðurinn góða innsýn í forna byggingalist og fortíðina. Frá háskólanum liggur leið okkar í safn tileinkað Vietnömskum konum. Þetta safn er staðsett nálægt Hoan Kiem vatninu og er fræðandi um líf Vietnamskra kvenna og hið fjölbreytta og mikilvæga hlutverk sem þær gegna í samfélaginu. Við  fræðumst m.a. um siði og venjur sem tengjast fæðingum, giftingum, móðurhlutverkinu, hlutverki konunnar við trúariðkanir ofl. Við endum  daginn í því sem kallað er gamli hlutinn í borginni eða „36 streets”. Það er mjög heillandi að ganga um þetta svæði, fara á Hang Be markaðinn og ganga meðfram Hoan Kiem vatninu. Þarna eru mjóar götur með mjög fjölbreyttu mannlífi og margt heillandi að sjá og upplifa. Við munum örugglega taka margar myndir þennan daginn eins og reyndar alla daga.

Gisting, Hótel Chalcedony, First Class, Deluxe Riverview

Dagur 4:  25 Mar 2018 – Hanoi – Halong Bay (M/H/K)

Hið dulmagnaða landslag í Halong Bay, með þúsundum kalksteinseyja er einstakt á heimsvísu og er í huga margra tákn fyrir landið og þeirrar dulúðar sem mörgum finnst hvíla yfir því.  Þetta er eitt af þeim svæðum sem við verðum að heimsækja og besta leiðin til þess er að fara í siglinu um flóann og gista um borði í bát, en sólarlagið og sólarupprásin er einstök í Halong flóanum. Eftir morgunverð leggjum við af stað til Halong en ferðin þangað tekur þrjá og hálfan klst með 20 mín stoppi á leiðinni.

Við komum á bryggjuna í Halong borg um miðjan dag og „tékkum okkur inn” í bátinn sem við munum sigla með. Eftir að við leggjum frá bryggju og siglum í áttina að flóanum verður framreiddur hádegisverður. Það er ævintýraleg upplifun að sigla um í Halong flóanum milli þessara dulúðlegu kalksteinseyja og það er ekki tilviljun að þetta svæði er á Heimsminjaskrá UNESCO. Í lok dags verður varpað ankerum fyrir nóttina og kvöldverður framreiddur.

Gisting, um borð í bátnum Pelican cruise, Superior, Deluxe

Víetnam Mars 2018

Dagur 5: 26 Mar 2018: Halong flóinn (M/H/K)

Dagurinn hefst með Tai Chi æfingum á þilfarinu en við fáum okkur síðan morgunverð á meðan báturinn líður af stað í morgunhúminu. Við heimsækjum einn stærsta og fallegasta hellinn á svæðinu á ferð okkar um flóann. Seinni part dags munum við skella okkar á kayak (þeir sem það vilja) og upplifa kalksteinseyjarnar og þessa einstöku náttúrufegurð frá nýju sjónarhorni. Eftir að við komum aftur í bátinn munum við njóta matargerðalistar heimamanna ásamt einstökum ávaxtaskreytingum. Hádegis – og kvöldmatur um borð í bátnum.

Gisting, um borð í bátnum Pelican cruise, Superior, Deluxe

Dagur 6: 27 Mar 2018: Halong – Hanoi – Ho Chi Minh city (M/-/-)

Byrjum daginn á Tai Chi æfingum á þilfarinu áður en við förum í morgunmat.  Þennan morgun munum við m.a. fara í bambusbát og skoða magnaðan helli þar sem oft er mikið sjónarspil ljóss og myrkurs. Á leiðinni í land verður borin fram léttur hádegisverður. Komið í land ca. kl 10:30 og verður þá lagt af stað til Hanoi. Í Hanoi verður farið beint út á flugvöllinn og flogið til Ho Chi Minh borgar sem heimamenn kalla Saigon.

Þegar við komum til Saigon tekur á móti okkur „nýr” enskumælandi fararstjóri og fylgir okkur á hótelið okkar sem er „niðri í bæ” en akstur þangað tekur ca 30 mín.

Gisting, Hótel Northern, First Class, Au Lac 2 sem er sambærilegt og Superior

Dagur 7: 28 Mar 2018: Ho Chi Minh city (Saigon) (M/-/K)

Þennan dag förum við í skoðunarferð um borgina fyrri hluta dags, frítími um miðjan daginn, en seinni partinn förum við aftur af stað og kynnum okkur kvöld- og næturlífið.

Um morguninn verðum við sótt kl. 8 og förum í skoðunarferð um borgina. Fyrsta stop er í „Sameiningar Höllinni” en þessi merkilega bygging sem áður var kölluð forseta höllin á sér merkilega sögu. Við munum m.a. fá að heyra hvað gerðist 30. apríl 1975 þegar Saigon fell í hendur Norður Vietnama. Við heimsækjum síðan „Gamla Pósthúsið” og Notre Dame dómkirkjuna, tvær byggingar frá nýlendutímanum sem eiga sér merkilega sögu.

Seinasti viðkomustaður þennan morgun er Ben Thanh markaðurinn sem er staðsettur í hjarta borgarinnar, en þessi markaður er sá líflegasti á svæðinu. Það er sérstök upplifun að „olnboga sig áfram” meðal heimamanna og skoða „endalausar” raðir af sölubásum með ávexti, te og allskonar þurrkaðan varning. Eftir heimsóknina á markaðinn förum við aftur á hótelið, tökum því rólega  um miðjan daginn og  hvílum okkur áður en við kynnum okkur kvöld- og næturlífið.

Kl. 18 um kvöldið hittum við mótorhjóla fararstjórann okkar en þetta kvöld verður okkur ekið um á mótorhjólum (vespum) en það er mun auðveldari ferðamáti í „gamla bænum” en bíll. Í fyrsta stoppi gefst okkur tækifæri á því að prófa Suður-Vietnamskar pönnukökur og vorrúllur en matreiðsla og  matarvenjur eru ólíkar eftir landshlutum.  Við ökum síðan m.a. um það sem kallað er „svæði 4” og stoppum þar á vinsælum sjávarréttar-matarmarkaði.  Á götunum eru allskonar matarvagnar í löngum röðum kílómetrum saman og að sjálfsögðu verðum við að smakka einhverja af þessum gómsætu réttum. Eftir að hafa borðað nægju okkar ökum við að Bach Dang bryggjunni og förum í stutta göngu í rökkrinu.

Síðan höldum við áfram  og stoppum á kaffihúsi með lifandi tónlist. Notalegt að slaka á og upplifa þetta rólega og afslappaða andrúmsloft sem er á þessum stöðum. Við endum kvöldið með því að fara á stað sem er með frábæru útsýni yfir borgina. Þar er gott að setjast niður fá sér drykk hlusta á tónlist og fylgjast með umferðinni „flæða” allt í kring um okkur. Verðum komin aftur upp á hótel síðla kvölds.

Gisting, Hótel Northern, First Class, Au Lac 2 sem er sambærilegt og Superior

Dagur 8: 29 Mar 2018: Skoðunarferð í Cu Chi göngin (M/-/-)

Brottför frá hótelinu kl. 07:30 og ökum út úr borginni þar sem sveitin tekur við með hrísgrjónaökrum, þorpum og öllu því sem Suður-Vietnömsk sveit hefur upp á að bjóða.  Cu Chi göngin eru ótrúlegt net gangna sem Vietnamska andspyrnuhreyfingin (Viet Cong) gróf og notaði bæði í stríðinu við Frakka og síðan Bandaríkjamenn, en þau gengdu mikilvægu hlutverki í sigri Vietnama yfir Bandaríkjamönnum og varð til þess að þeim tókst að halda yfirráðum yfir stórum landsvæðum. Andstæðingar Viet Cong gerðu allt sem þeir gátu til þess að brjóta niður andstöðuna á Cu Chi svæðinu og ef undan er skilið Hiroshima og Nagasaki þá hefur sennilega ekkert landsvæði fengið aðra eins útreið í styrjöld.  Við fáum síðan fræðslu um það hvernig göngin voru byggð, hvernig þau voru notuð og hvernig var að „búa” í  göngunum en göngin eru að verða einn mest sótti ferðamannastaður landsins. Göngin eru meira en 250 km. löng og á þremur hæðum.  Síðan fáum við einnig tækifæri til þess að fara ofan í göngin og upplifa hvernig var að halda þar til. Á Vesturlöndum fengum við reglulega fréttir af „Vietnamstríðinu”, sem Vietnamar kalla „Ameríkustríðið”, en þær fréttir eru verulega frábrugðnar upplifun heimamanna á þessum tíma. Komið til baka á hótelið um miðjan daginn.

Gisting, Hótel Northern, First Class, Au Lac 2 sem er sambærilegt og Superio

Dagur 9: 30 Mar 2018: Ho Chi Minh city– Cai Be (M/H/K)

Kl. 8 verður lagt af stað frá hótelinu til Cai Be en þangað er ca. 2 klst akstur. Við stígum um borð í Bassac Cruise um miðjan daginn, hittum áhöfnina, fáum „welcome” drykk og komum okkur fyrir í káetunni okkar.  Fljótlega verður lagt af stað og dólum við okkur í átt að Cho Lach eftir Tien Giang ánni. Eftir hádegisverð er síðan kjörið að slappa af á þilfarinu og fylgjast með fjölbreytilegu mannlífi sem finnst bæði á ánni og á árbakkanum. Við siglum um ár og síki en á ánni Mang Thit verður stoppað í einu af þorpunum, heilsum upp á íbúana og kynnumst daglegu lífi þeirra. Lítum að eins út á akrana áður en við förum aftur um borð. Við komum okkur fyrir á þilfarinu og njótum sólarlagsins. Áhöfnin ber síðan fram kvöldverð á meðan við líðum eftir Mang Thit ánni. Bassac kastar síðan ankerum fyrir nóttina rétt við Tra.

Gisting, um borð í Bassac cruise, First Class,

Dagur 10: 31 Mar 2018: Cai Be – Can Tho (M/H/K)

Morgunverður frá kl. 7:00 þegar Bassac líður fram hjá Tra en þar getum við séð lítinn fljótandi markað. Við setjum síðan stefnuna á Can Tho. Stoppum hjá Ninh Kieu bryggjunni og förum yfir í lítinn bát svo við getum siglt um Cai Rang fljótandi markaðinn. Eftir að hafa skoðað markaðinn heimsækjum við núðluverksmiðju áður en við förum aftur á bryggjuna. Þar förum við aftur um borð í Bassac og siglum niður eftir Hau ánni á meðan við snæðum hádegismat. Siglum inn í Nicolai síkið í átt að Mang Thit og Co Chien ánum.  Á siglingunni er notalegt að slappa af á þilfarinu og sjá þorp, akra og fjölbreyttan gróður líða hjá. Síðla dags förum við í land og upplifum friðsælt sveitalífið, „spjöllum” við bændur og njótum þess að vera til. Þegar við komum aftur um borð í Bassac þá verður tekið á móti okkur með „welcome” drykk, eins og reyndar alltaf þegar við komum um borð. Slökum á á þilfarinu og njótum sólarlagsins. Á meðan kvöldverður er borin fram þá siglum við eftir Mang Thit ánni og köstum síðan ankerum fyrir nóttina.

Gisting, um borð í Bassac cruise, First Class

Dagur 11:  1 Apr 2018: Can Tho – Cai Be – Mui Ne (M/-/-)

Kl. 06:30 verður lagt af stað í áttina að Cai Be. Við njótum fjölbreytilegs útsýnis á meðan við snæðum morgunverð. Við siglum yfir Co Chien ána yfir í Cho Lach síkið en þar er mikið „líf” og mikil umferð. Nálægt Cai Be kveðjum við áhöfnina á Bassac og förum yfir í minni bát sem kemur okkur til Cai Be en ef tími gefst lítum við á handverk heimamanna á leiðinni. Þegar við komum í land tekur við 6 klst. akstur (300 km) til Mui Ne en gert er ráð fyrir því að koma þangað síðdegis.

Gisting, Hótel Allezboo, First Class, Premier Deluxe

Dagur 12 – 16: 2 Apr 2018 – 6 Apr 2018  Mui Ne – 5 nætur (M/-/-)

Dagarnir á eigin vegum. Mui Ne er frábær staður til afslöppunar en við leggjum mikla áherslu á að enda okkar ferðir á góðri slökun þannig að við komum endurnærð heim. Síðan er einnig fjölbreytt afþreying í boði á svæðinu sem við komum betur að síðar.

Gisting, Hótel Allezboo, First Class, Premier Deluxe

Dagur 17: 7 Apr 2018: Mui Ne – Ho Chi Minh (M/-/-)

Þennan dag kveðjum við Mui Ne upp úr hádegi og leggjum af stað til Ho Chi Minh borgar. Akstur þangað tekur ca. 4 klst. (200 km).

Gisting, Hótel Northern, First Class, Au Lac 2  sem er sambærilegt og Superior

Dagur 18: 8 Apr 2018: Ho Chi Minh – Bangkok (M/-/-)

Frídagur en við „tékkum okkur út” af hótelinu fyrir kl. 12:00. Hótelið sér um að geyma fyrir okkur farangurinn en við leggjum af stað út á flugvöll kl. 17:50. Brottför frá Vietnam kl. 20:50 og áætluð lending  í Bangkok kl. 22:15.

Dagur 19: 9 Apr 2018: Bangkok – Kaupmannahöfn – Keflavík (-/-/-)

Brottför frá Bangkok kl. 1:20 og áætluð lending í Kaupmannahöfn kl. 7:40. Frá Kaupmannahöfn er síðan haldið kl. 14:00 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:10.

M=morgunverður, H=hádegisverður, K=kvöldverður

Verð kr 574.000- pr mann í tvíbýli

Aukagjald fyrir einbýli kr 73.000- pr mann

Lágmarksfjöldi í ferðina er 10 manns.

Verð miðast við gengi í október 2017.

Innifalið í verði:

 • Flug til og frá Vietnam
 • Innanlandsflug milli Hanoi og Ho Chi Minh borgar
 • Akstur samkvæmt ferðalýsingu
 • Gisting með morgunverði í 16 nætur
 • Sigling um Halong flóann (3 dagar, 2 nætur)
 • Sigling með fljótabát um Mekong svæðið (3 dagar, 2 nætur)
 • Hádegisverður 5 daga
 • Kvöldverður 5 daga
 • Skoðunarferðir og heimsóknir samkvæmt ferðalýsingu
 • Aðgangseyrir að þeim stöðum sem við heimsækjum samkvæmt ferðalýsingu
 • Enskumælandi fararstjóri
 • Íslensk fararstjórn

Ekki innifalið í verði:

 • Forfalla- ferða- og slysatryggingar
 • Sérstaka reiðhjólaferðir sem eru í boði á degi 3 og 8
 • Drykkir
 • Þjórfé
 • Vegabréfsáritun til Vietnam, en samstarfsaðilar okkar í landinu aðstoða við það
 • Persónuleg útgjöld í ferðinni og annað sem ekki er getið um í ferðalýsingu

Margeir Ingólfsson gefur frekari upplýsingar um þessa ferð ef að fólk hefur áhuga á að skoða málið.

mi@ferdin.is / 893 8808

Athugasemdir

Athugasemdir