Breiðafjaraðarferjan Baldur áætlar að fara í fyrstu siglingu um eða eftir helgina.

,,Reiknað er með að ferjan nái að komast í sína fyrstu siglingu á sunnudag eða mánudag ef að allt gengur vel “ segir Harpa Eiríksdóttir hjá Sæferðum í Stykkishólmi.

Baldur er þá loksins tilbúinn aftur til siglinga milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey, eftir langt stopp sem varð vegna bilunar á aðalvél skipsins sem að reyndist mjög alvarleg og mikil.

Vélin var tekin upp á verkstæðinu Framtaki í Garðabæ og var tilbúin á dögunum til ísetningar og verið er að leggja lokahönd á þau verk sem að þarf að vinna um borð til   þess að skipið geti hafið aftur siglingar.

Ferjan Baldur verður þá búin að vera frá í um tvo mánuði sem er mjög bagalegt þar sem að vestfirðingar, bæði fólk og fyrirtæki treysta á þessar samgöngur og sérstaklega nú þegar að allra veðra er von um hávetur.

Bæjaryfirvöld og t.d. fiskvinnslufyrirtæki sem að hafa treyst á  þessar samgöngur, hafa ítrekað lýst yfir vonbrigðum sínum með ástand samgöngumála á svæðinu.

Með Baldri komast 280 farþegar og 49 bílar yfir fjörðinn.  Farþegaskipið Særún annaðist um siglingar út í Flatey tvisvar í viku á meðan að á viðgerð stóð.

Líkaðu við Fréttatímann, vef allra landsmanna

Athugasemdir

Athugasemdir