Karlmaður var í gær dæmdur í 10 mánaða fangelsi þar af 7 mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára fyrir þjófnað, fjársvik, fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa

Aðfaranótt þriðjudagsins 8. ágúst, á Lebowski bar við Laugaveg 20a, stolið bakpoka er innihélt Mac book pro fartölvu, flakkara og hleðslu- og tölvusnúrur.

Fimmtudaginn 14. september, í íbúð að Hverfisgötu 102a, stolið […], snjallúri að verðmæti kr. 54.000, hálsmeni að verðmæti kr. 19.900 og hníf að óþekktu verðmæti.

Mánudaginn 18. september, á hótel Oddson við Hringbraut 121, stolið farsíma og veski af viðskiptavini staðarins, ákærði framvísaði farsímanum til lögreglu og vísaði lögreglu á hvar veskið væri að finna.

Miðvikudaginn 27. september, farið inn í bílskúr við Blikastíg 7 á Álftanesi og stolið þaðan tveimur bakpokum, göngustaf, öxi og staf, á sama tíma fyrir að hafa haft í vörslum sínum 2,76 g af amfetamíni sem fannst á ákærða og fyrir að hafa haft öxi í vörslum sínum á almannafæri.

Miðvikudaginn 4. október, í KR-heimilinu við Frostaskjól 2, farið inn í búningsherbergi og stolið jakka, íþróttatösku, greiðslukortum og símaveski en afskipti voru höfð af ákærða fyrir utan heimilið og munirnir komust til skila.

Sunnudaginn 8. október, brotist inn í herbergi á Gamla garði við Hringbraut 29, með því að spenna upp glugga, og stolið þaðan fartölvu, ferðatösku, tveimur jökkum, fimmtíu evrum í reiðufé, farsíma og hálsmeni.

Aðfaranótt mánudagsins 9. október, farið inn í íbúðarhúsnæði við Laugaveg 58 og stolið þaðan þremur sögum, blómapotti og múrspaða.

Sunnudaginn 29. október, í KR-heimilinu við Frostaskjól 2, farið inn í búningsherbergi og stolið þaðan 66° norður úlpu, fjórum Iphone farsímum, þar af einum að verðmæti kr. 100.000, tveimur debetkortum, strætómiðum og tveimur hátölurum, og farið inn í húsnæði Tónskólans Do-Re-Me við Frostaskjól 2 og stolið þaðan sellói að óþekktu verðmæti, í kjölfar þess notað debetkortið sem hafði verið stolið og framvísað því í blekkingarskyni í verslun 10-11 við Austurstræti 17 til að greiða fyrir vörur að verðmæti kr. 569 og þannig látið skuldfæra andvirði varanna á reikning tjónþola.

Sunnudaginn 22. október, að Center hótel Miðgarði að Laugavegi 120, farið inn í starfsmannaaðstöðu hótelsins og stolið þaðan tveimur jökkum, bakpoka, sim-korti í síma, strætómiðum, ökuskírteini, greiðslukortum, húslyklum, heyrnartólum og bíllykli.

Aðfaranótt mánudagsins 23. október, á Fosshótel Barón við Barónsstíg 2, farið inn í starfsmannaaðstöðu hótelsins og stolið þaðan tölvuskjá að óþekktu verðmæti og lyklum.

Þriðjudaginn 24. október, í húsnæði Ingunnarskóla við Maríubaug 1, farið inn í skrifstofu í skólanum og stolið þaðan Cintamani úlpu að verðmæti kr. 100.000 og fartölvu að óþekktu verðmæti og farið inn í frístundaheimili skólans og stolið þaðan Samsung farsíma að verðmæti kr. 100.000, Nokia farsíma að óþekktu verðmæti og Nokia farsíma að verðmæti kr. 10.000.

Miðvikudaginn 25. október, í Bónstöðinni við Kringluna 12, stolið fartölvu að verðmæti kr. 37.995.

Sunnudaginn 29. október, að Fosshótel Lind við Rauðarárstíg 18, farið inn í starfsmannaaðstöðu hótelsins og stolið þaðan greiðslukortum, í kjölfar þess farið í verslun 10-11 við Laugaveg og blekkt starfsfólk verslunarinnar með því að framvísa einu af stolnu greiðslukortunum til að greiða fyrir vörur að verðmæti 39,25 evrur og þannig látið skuldfæra andvirði varanna á reikning tjónþola.

Fimmtudaginn 2. nóvember, brotist inn í íbúðarhúsnæði að Kirkjustétt 2, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð hússins og stolið þaðan fartölvu og Playstation tölvu ásamt fjarstýringu að óþekktu verðmæti.

Fimmtudaginn 7. nóvember, í verslun Nettó við Fiskislóð 3, gert tilraun til að stela vörum með því að hafa, farið inn í lager verslunarinnar og sett matvörur alls að verðmæti kr. 20.818 í bakpoka sinn en starfsmenn verslunarinnar höfðu þá afskipti af honum og ákærði fór út úr versluninni án matvaranna.

Lesa mér allan dóminn hér

Athugasemdir

Athugasemdir