Heitreyktar og steiktar andabringur – Hentugt fyrir 3-4.  Stokkandabringur

Pækill:

115 gr salt

100 gr sykur

1 lítri vatn

5 einiber

1 tsk kóríanderfræ

1 tsk sinnepsfræ

1 anísstjarna

2 lárviðarlauf

1 tsk svört piparkorn

Allt sett saman í pott og soðið uns sykur og salt er uppleyst, kryddum má bæta í og taka úr að vild.

Andabringurnar eru eru skornar úr fuglinum. Ekki henda afgangum, læri og innmatur er hentugur í annað. Kjörið er að gera þetta meðan pækillinn kólnar.

Pækill kældur og bringur lagðar í uns pækillinn hefur náð stofuhita eða minna. Bringurnar eru látnar sitja í pæklinum í 90 mínútur.

Sé maður í tímaþröng má má taka 500ml af vatninu og setja 500 gr af klökum út í pækilinn þegar hann er tekinn af hitanum.

Heitreyking

Heitreykingarofnarnir sem fást í Vesturröst og Bauhaus eru sérdeilis hentugir í þessa matargerð, þeir eru einfaldir í notkun og fremur ódýrir. Mér þykir best að nota eplavið eða hickory en það er smekksatriði.

Þegar heitreykja á öndina þarf að halda nokkuð jöfnum hita á reykofninum en ef hann rokkar mjög í hita getur öndin orðið of- eða vanelduð.  Öndin er reykt í 4-6 mínútur á hvorri hlið, fer eftir stærð.

Steiking

Ef öndin er mjög feit getur verið gott að byrja á kaldri pönnu með hamhliðina niður og lítilli feiti svo öndin steikist í eigin fitu. Ég nota eingöngu smjör við svona steikingu og þykir best að setja eina eða tvær timían greinar í smjörið á pönnunni.

Öndin er steikt á hamhliðinni þangað til hún er fagurgullin og stökk viðkomu, þá er henni snúið við og steikt í aðrar 3-4 mínútur á hinni hliðinni.

Öndina er bæði hægt að borða heita og kalda, þegar hún er borðuð heit er mjög mikilvægt að hún fái að standa í það minnsta 10 mínútur áður en hún er skorin.

Portvíns-appelsínusósa

50ml Ruby portvín

50 ml rifsberjahlaup

2 appelsínur

Eplasíder edik

Portvín og rifsberjahlaup sett saman í pott á vægum hita. Látið byrja að malla. Börkurinn af báðum appelsínunum er rifinn ofan í pottinn og appelsínusafinn kreistur út í. Þegar sósan byrjar að krauma er hrært rólega í með písk þar til hún fær fallega áferð. Smakkað til með eplasíder ediki ef þess þarf. Þessa sósu má bera fram heita jafnt sem kalda. Kjörið að krydda sósuna með 1-2 kanilstöngum sem eru þá settar út í um leið og börkurinn.

Athugasemdir

Athugasemdir