Fjórir fórust og 19 hús urðu fyrir meiri eða minni skemmdum þegar að tvö geysimikil krapaflóð féllu úr gili fyrir ofan Geirseyri á Patreksfírði um miðjan dag, þann 22.janúar 1983 

33 misstu heimilin sín. Flóðin eyðilögðu fjög­ur hús, en önnur hús ýmist fylltust af snjó og urðu sum gerónýt, jafnframt eyðilögðust önn­ur mann­virki og bif­reiðar. Ákveðið var að byggja aldrei hús á því svæði sem flóðin féllu, sök­um þess er skarð í gegn­um byggðina á Pat­reks­firði.

Þeir sem fórust voru, Sigurbjörg Sigurðardóttir 58 ára, Brunnum 13, en hún var á gangi er flóðið varð. Mæðginin Valgerður Jónsdóttir 77 ára og Marteinn Ólafur Pétursson 41 árs, bæði til heimilis að Aðalstræti 79, en það hús fór algerlega og Sigrún Guðbrandsdóttir 6 ára, til heimilis að Hjöllum 2, en það hús fylltist af snjó.

Um 10 manns aðrir lentu í flóðunum og voru nokkrir slasaðir, m.a. kól einn dreng lítillega. Það var um klukkan 15.40 að fyrra flóðið féll úr gili í fjallinu Brellum ofan Geirseyrar.

Það skall fyrst á húsunum að Hjöllum 2 og Hlíðarvegi 2. Síðan æddi það niður hlíðina á ógnar hraða að sögn sjónarvotta, allt að 15 til 20 metra hátt og 150 til 200 metrar að breidd og færði á kaf eða tók með sér alls um 13 hús, útihús og fjölda bíla. Í húsinu númer 2 á Hjöllum voru hjón ásamt tveimur ungum börnum sínum. Flóðið skall á ytri enda þess og fyllti bílskúr og eldhús og er húsið talið ónýtt.

Hjónin sakaði ekki, en bæði börnin grófust á kaf þar sem þau voru stödd í eldhúsinu og lést annað þeirra, 6 ára stúlka. Í húsinu við Aðalstræti 79 var stödd öldruð kona ásamt tveimur sonum sínum. Flóðið kaffærði húsið og létust konan og annar sonur hennar en hinn slapp lítt meiddur. I húsinu við Aðalstræti 79a voru staddar þrjár konur, allar í risi. Var það móðir með tvær unglingsdætur sínar. Flóðið bar húsið niður á Strandgötu og slapp konan af sjálfsdáðum úr brakinu, en önnur dóttir hennar lenti í sjónum og hin var föst í brakinu. Þeim var báðum bjargað þegar, lítt meiddum.

Ungt par var m.a. statt í kjallara húss síns að Aðalstræti 80 og slapp það þó hús þeirra eyðilegðist alveg. Þá var áströlsk stúlka stödd í einu húsanna. Skriðan fyllti það nánast með öllu og barst stúlkan að glugga á neðri hlið hússins og var henni bjargað þaðan mjög fljótlega. Hún slapp við alvarleg meiðsli. Börnin, sem voru í húsinu á Hjöllum 2 fundust nær þegar. Lík mannsins, sem var í húsinu við Aðalstræti, fannst um klukkan 4 aðfaranótt sunnudagsins og lík móður hans um klukkan 11 á sunnudagsmorgni.

Síðara flóðið féll um tveimur tímum seinna úr Litladal og rann niður eftir farvegi Litladalsár. Það olli skemmdum á húsum ofarlega við farveginn, eyðilagði húsið Bræðraborg og hreif húsið Árbæ með sér og bar niður á fjörukambinn innan við sláturhúsið. Í húsunum á þessum slóðum var ekkert fólk, þar sem öll hús þar höfðu verið rýmd, en tvær konur voru á gangi við sláturhúsið og er flóðið féll á það hreif það þær báðar með sér. Önnur konan lést þegar, en lík hennar fannst ekki fyrr en á sunnudagsmorgni. Hin konan skall á hurð á sláturhúsinu og inn um hana. Mun það hafa orðið henni til lífs og slapp hún lítið meidd. Ekki er vitað til þess að jafnmikil snjóflóð hafi fallið á þessum slóðum, enda hafa húsin, sem eyðilögðust, staðið á þessum slóðum frá því um aldamót.

Er fyrra flóðið varð, voru allir verkfærir menn í bænum kallaðir til björgunarstarfa og öll hús í bænum rýmd nema byggðin á Björgum og hluti byggðar á Vatnseyri og hafðist fólkið við í Hraðfrystihúsinu og Félagsheimilinu. Skipverjar af varðskipinu Tý komu þegar til aðstoðar og lýstu upp slysstaðinn. Síðar um daginn og kvöldið komu björgunarsveit frá Tálknafirði og sérþjálfaðir menn frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og menn með hunda til leitar. Komu sunnan menn með þyrlu Landhelgisgæzlunnar og flugi.

Á sunnudagsmorgni kom varðskipið Ægir með 33 björgunarsveitarmenn að sunnan og togarinn Sölvi Bjarnason kom með björgunarmenn frá Bíldudal. Alls voru um 300 björgunarmenn að störfum. Eftir að þeir, sem saknað var, höfðu fundist var unnið að því að hreinsa hús og bjarga húsmunum og kanna skemmdir. Var því starfi að mestu lokið á sunnudagskvöldi og héldu þá aðkomnir björgunarmenn heimleiðis og flutti vél Landhelgisgæzlunnar þá til Reykjavíkur.

Fólk var síðan farið að flytja í yfirgefin hús sín á sunnudegi og mánudegi en enn var óleystur vandi þeirra 33 sem misstu heimili sín í snjóflóðunum.

Þau hús sem fóru alveg í flóðinu voru Aðalstræti 79, 79a, og 101. Þau önnur sem skemmdust mikið eru Hlíðarvegur 2 Hjallar 2, Brunnar 1 og 2, Aðalstræti 78, og Bræðraborg. Auk þess fóru fjárhús, nokkrir skúrar og 10-15 bílar.

Sumir björguðust á ótrúlegan hátt og þannig var t.d. um Halldóru Þórðardóttur og dætur hennar Guðfinnu Ólínu og Ingibjörgu Eygló að Aðalstræti 79a. Þær bárust með risi hússins nokkra tugi metra og alveg niður í fjöru en sluppu með skrekkinn og nokkur meiðsl. Kristján Pétursson var einnig uppi á lofti í húsinu númer 79 við Aðalstræti og slapp ómeiddur með undursamlegum hætti en það hús fór með flóðinu og gjöreyðilagðist.

Rósamunda Hjartardóttir lenti í flóðinu er hún var á gangi með Sigurbjörgu Sigurðardóttur sem að fórst en hún barst með flóinu að sláturhúsdyrum og þrýstist inn um þær.Það varð henni til lífs.

Glynnis Duffin frá Nýja Sjálandi í Kristjánsborg, Aðalstræti 77, en það hús fylltist alveg af snjó, var af tilviljun stödd í því eina horni hússins, sem snjór þrengdi sér ekki alveg inn í. Hún slapp. Þórdís Thoroddsen, Aðalstræti 78, var að vinna í eldhúsi en brá sér frá inn í annað herbergi til að svara í síma. Á meðan skall flóðið á húsinu og fyllti eldhúsið af leðju.

Svona mætti lengi áfram telja. Srax eftir að flóðin féllu voru allir vinnufærir menn á Patreksfirði auk hjálparsveita frá Reykjavík og Tálknafirði að moka og hreinsa, en lík 3ja af þeim sem fórust höfðu fundist um morguninn með aðstoð hunda. Hið fjórða hafði fundist strax eftir að flóðið féll.

Haraldur Karlsson, formaður björgunarsveitar Slysavarnafélagsins á Patreksfirði sagði, að mjög erfitt hefði verið um vik því flóðið hefði orðið hart eins og steypa eftir að vatnið í því hefði sjatnað. Hann varð sjálfur vitni að flóðinu og sagði að ekki hefði verið hægt að líkja því við neitt annað en jökulhlaup. Þetta var svart vatnsflóð sem hjóp fram með jakaburði, grjóti og krapi.

Athugasemdir

Athugasemdir