Viðar Guðjohnssen  er “ósköp venjulegur maður”

Viðar Guðjohnssen er “ósköp venjulegur maður” að eigin sögn og vill leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ég var að hlusta á viðtal við hann á Bylgjunni og það vakti upp margar tilfinningar og spurningar. Ég var ekki viss hvort mig langaði til þess að hlægja eða kýla vegg meðan ég hlustaði.
Nei ég segi svona, ég hló ekki hátt, sleppti því að kýla vegginn en mig langar að skrifa um þetta tiltekna viðtal.

 

Hann byrjar viðtalið á því að segjast þekkja efnaminna fólk og hvernig það hegðar sér.
Síðan segir hann frá því að hafa kynnst vissri aumingjaræktun í Reykjavík og vill meina að það sé vegna ábyrgðarleysis hjá fólki.
Fólkið skilgreindi hann sem femínistana, konurnar og unga fólkið.

Þetta kom mér mjög á óvart, að kenna þessum hópum um einhverja aumingjaræktun sem á að eiga sér stað í Reykjavík.

Aumingjaræktun sem stafar af því að það eigi að stofnanavæða allt og þar af leiðandi blóðmjólka skattborgarann (sem eru ekki aumingjar).

Er það virkilega konum, femínistum og ungu fólki að kenna að skattborgarinn er blóðmjólkaður á meðan fleiri tugir milljóna eru að fara í laun t.d. þingmanna og biskups. Meira að segja afturvirkar launahækkanir sem hafa kostað ríkið verulegar peningaupphæðir.
Hver er að borga allar þessar milljónir? Er það ekki skattborgarinn sem er kannski líka almúginn sem berst allan mánuðinn við að eiga fyrir nauðsynjum í enda mánaðarins.

Einnig sagðist Viðar ekki vera sáttur með hvað femínisminn væri orðinn mikið rugl.
Til dæmis vegna þess hve lengi #MeToo byltingin hefur fengið að vera uppi, sérstaklega þar sem megnið af þessum ásökunum væru óstaðfestar og engir dómar til þess að sanna frásagnir þessara einstaklinga.

Miðað við fjölda kynferðisbrota sem eiga sér stað í raunveruleikanum, og að ekki er nema brot af þeim tilkynnt, og bara brot af tilkynntum brotum kærð og sakfellt í enn færri finnst mér allt í lagi 
að #MeToo standi nokkra mánuði, svona miðað við hversu mörg ár við höfum þagað yfir svona málum?

Viðari finnst við hafa verið of upptekin við að hugsa um þessa byltingu og missa sjónar á aðalatriðinum eins og sykursýki 2, sem olli 130 dauðsföllum á síðasta ári.
Ég verð að segja að mér finnst þetta tvennt ekki alveg sambærilegt og hreinlega tvennt mjög ólíkt. Það gerir lítið úr fórnarlömbum kynferðisglæpa að bera þau saman við fólk sem þjáist af sykursýki.
Auðvitað er sykursýkin alvarlegt mál og það er ekki boðlegt að við séum að missa ástvini að völdum þessa sjúkdóms ef hjá því er komist, en kynferðisglæpir og sjúkdómar eru tvennt ólíkt.

Viðar nefndi einnig að um 30% drengja í skólum hér geta ekki lesið sér til gagns samanborið við að aðeins 15% stúlkna standa svo illa að vígi, hann vill meina að þetta sé ekki einungis sök kennaranna heldur einnig heimilanna. Konan ( á heimilinu) á að geta haldið utan um sitt barn, ekki að verið föst í umferðarteppu í klukkutíma þegar þeim tíma hefði betur verið varið í að kenna börnunum hennar .

Hann vill fá fleiri karlmenn í kennarastöður, vegna þess að hugarfarið í skólunum þarf að vera litaðra af karlmönnum, en til þess að lokka karlana inn í skólana vill hann borga þeim hærri laun en konum, til að byrja með. Fleiri karla í skólana, flott, sammála, nemendur þurfa karlkyns fyrirmyndir en hvers vegna ekki að borga öllum kennurum betri laun, sjá hvort karlarnir kæmu ekki til vinnu ef launin væru hærri eða langar þá bara ekki í þetta kennslu-uppeldis stúss.

Þegar minnst var á að leikskólana vanti peninga þá sagði hann að það vanti alltaf peninga vegna þess að konur væru komnar of mikið út á vinnumarkaðinn og að skólakerfið væri orðið að geymslu fyrir konur með metnaðargræðgi í að koma sér út á vinnumarkaðinn. Hann segir líka í viðtalinu að konur ÞURFI að hafa tíma og efni á því að eignast börn áður en þær gera það.

Konur eru nú yfirleitt komnar út á vinnumarkaðinn áður en þær eignast börn og hvað er að því nákvæmlega að konur vinni fyrir kaupinu sínu? Svo eignast þær börn plönuð en alls ekki alltaf plönuð sem öll eiga samt feður. Hvert er aftur þeirra hlutverk eftir fæðing barnsins þeirra?

 Efnahagurinn er í hakki og þegar Viðari var bent á stöðuna á Íslandi þá svaraði hann fussandi yfir “þessu hugarfari” og segir seinna í viðtalinu að “Einn hópur manna á ekki að geta kúgað annan hóp manna að NAUÐSYNJALAUSU”
Ég hefði haldið að stjórnmálamaður, og sérstaklega þar sem hann hefur verið í leigustarfsemi, ætti að þekkja ástandið í húsnæðismálum og vita að til þess að geta borgað fyrir húsnæði þarf maður að hafa vinnu og helst ekki þessa lægst launuðu.

Viðar er duglegur við að setja fram staðhæfingar hvað varðar efnahagskerfið og jafnréttismál hér á landi og ég sammála honum þegar hann segir stjórnmálaflokka oft ekki þora að segja neitt af hræðslu við að missa atkvæðin sín. Hann má eiga það að hann þorir að segjast tilheyra þeim hópi stjórnmálamanna sem stefnir að því að kúga annan hóp manna að nauðsynjalausu.

Athugasemdir

Athugasemdir