Sigmundur Davíð Gunnlaugsson furðar sig á því að ekkert hafi heyrst frá ríkisstjórn Íslands vegna þeirrar pólitísku stöðu sem nú er komin upp varðandi olíuleit á Drekasvæðinu

,, Ríkisolíufélög Kína og Noregs hafa nú tekið ákvörðun um hætta þátttöku í leit að olíu og gasi á Drekasvæðinu. Þetta kemur mjög óvænt upp, enda höfðu þessi félög haft áform um að bæta verulega í þessa leit í ljósi þess að rannsóknir fram að þessu hafa gefið mjög jákvæðar vísbendingar um að þarna sé olíu og gas að finna í vinnanlegu magni.

Raunar hafði norska Stórþingið ákveðið rétt fyrir skömmu að veita sérstaka aukafjárveitingu í viðbótarstarfsemi, viðbótarleit, á Drekasvæðinu. Þessu var svo skyndilega snúið við, hugsanlega vegna stjórnarbreytinga í Noregi. Í öllu falli er ljóst að þetta er pólitískt mál, bæði í Kína og í Noregi er þessi ákvörðun pólitísk að verulegu leyti.

Það kallar á pólitísk viðbrögð frá Íslandi. Það hefur ekkert heyrst frá ríkisstjórn Íslands um þetta gríðarlega hagsmunamál Íslendinga sem er ekki bara stórt hagsmunamál fjárhagslega, efnahagslega, heldur er þetta stórt mál í alþjóðlegum samskiptum, í samskiptum okkar við þessi ríki.

Ef Norðmenn ætla að hverfa frá því að vera bandamenn okkar, ef svo má segja, í vinnslu olíu og gass og leggja þess í stað þeim mun meiri áherslu á að vinna olíu og gas í eigin lögsögu, því að höfum það í huga, herra forseti, að nú voru Norðmenn að taka ákvörðun um stóraukna olíu- og gasvinnslu í eigin lögsögu, þá þurfum við eða fulltrúar Íslendinga, íslenska ríkisstjórnin, að kanna hvort að aðrar þjóðir, aðrir bandamenn vilji frekar vera samstarfsaðilar okkar í þessu mikilvæga máli til framtíðar.

Ég kalla eftir því að þingið haldi ríkisstjórn Íslands við efnið í þessu máli. Það er ekki hægt að líða það að svona stórt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar sé bara vanrækt að öllu leyti. Við fáum vonandi einhver svör frá ríkisstjórninni um þetta mál á næstu dögum.“ Sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í dag.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir