Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Anton Örn Guðnason í dag til fimm og hálfs árs fangelsisrefsingar fyrir manndrápstilraun. Félagi hans sem var með honum á vetvangi var dæmdur til 22 mánaða fangelsisvistar og einn til viðbótar var dæmdur til 6 mánaða fangelsisvistar en sá dómur var skilorðsbundinn fyrir aðils að líkamsárásinni.

Mennirnir réðust inn á heimili fórnarlambsins í byrjun október í fyrra, vopnaðir hnífum og macebrúsum. Anton Örn stakk mann með hnífi í kviðinn og félagi hans barði manninn með gítar uns hann brotnaði. Um virðist hafa verið að ræða handrukkun, vegna meints þjófnaðar á eiturlyfjum af Antoni Erni upp á um tvær milljónir króna.

Anton Örn greindi þannig frá því í Héraðsdómi ,, að brotaþoli hafi stolið amfetamíni frá sér og því hafi brotaþoli skuldað sér um 2 milljónir króna. Hann hafi um nokkurn tíma reynt að fá brotaþola til að greiða sér þessa skuld. Það hafi ekki tekist. Hann hafi beðið þá Samúel Jóa og B að koma með sér til brotaþola að rukka hann um þessa peninga.

Hafi þeir ákveðið að skipta þessum fjármunum, sem myndu innheimtast, á milli sín. Þriðjudaginn 3. október 2017 hafi ákærðu farið saman að […] í Reykjavík, en þeir hafi vitað til þess að brotaþoli væri þar staddur.

Um handrukkun hafi verið að ræða, en það hafi ekki veirið fyrirfram ákveðið að beita ofbeldi við innheimtuna. H, hálfbróðir brotaþola, hafi verið með ákærðu í för.

Er þeir hafi komið að […] C hafi H hringt dyrabjöllunni. C, sem búið hafi að […], hafi opnað dyrnar. Meðákærði, Samúel Jói, hafi verið með ákærða á þessari stundu. Meðákærði A hafi verið fyrir utan […] er ákærðu hafi komið á staðinn. Hafi hann verið fullur og farið á eftir ákærðu inn í húsið. Hann hafi ekki átt að fá neitt af þeim fjármunum sem innheimtir yrðu.

Er komið hafi verið að íbúð þeirri er brotaþoli hafi dvalist í, hafi brotaþoli komið til dyra. Hann hafi byrjað með alls konar ,,skæting“ og af stað hafi farið rifrildi, sem farið hafi úr böndum. Hafi ákærði gripið hníf sem hann hafi verið með meðferðis og gert hlut, sem hann hafi ekki ætlað að gera, sem hafi verið að stinga brotaþola með hnífnum í kviðinn.

Þetta hafi ekki átt að fara þannig og hvatvísi hans verið um að kenna. Ákærði hafi ákveðið að stinga brotaþola neðarlega. Hafi hann samt ekki hugsað mikið út í stunguna en ekki ætlað að drepa brotaþola og ekki talið líklegt að brotaþoli myndi deyja af völdum stungunnar.–

Vopnið hafi verið vasahnífur með um 9 til 10 cm blaði. Ákærði vissi ekki hvað hefði orðið um hnífinn eftir stunguna. Kvaðst hann viðurkenna að hafa ekki viljað lýsa hnífnum er tekin var af honum lögregluskýrsla vegna málsins. Ákærði hafi hvorki sparkað eða slegið neinn á staðnum. Þá hafi hann ekki hótað neinum.

Eftir stunguna hafi ákærðu farið inn í íbúðina. C hafi í upphafi hleypt ákærðu inn. Eftir stunguna hafi ákærðu einfaldlega farið inn í íbúðina. Mikil læti hafi verið í gangi og öskur mikil. Allir hafi öskrað. Enginn annar en ákærði hafi verið með eggvopn með sér.

Meðákærði Samúel Jói hafi gripið gítar sem hafi verið í íbúðinni og slegið til brotaþola. Myndi ákærði ekki eftir því hvar gítarinn hefði lent. Meðákærði, B, hafi einfaldlega verið með í för. Stuttu eftir stunguna hafi ákærðu farið af vettvangi. Eitthvað af fólki hafi verið fyrir í íbúðinni. Ákærði vissi ekki hvað það fólk hafi gert á meðan atburðir áttu sér stað. Ákærði hafi vitað til þess að eftirlitsmyndavélar væru í fjölbýlishúsinu í […]. Þeir hefðu ekki hulið andlit sín er þeir fóru inn. Ákærði kvaðst hafa verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma. Stungan náði tíu sentímetra inn í kviðinn og dómari segir að tilviljun hafi ráðið því að ekki fór verr.

Dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þótti sannað að mennirnir hefðu af ráðnum hug ruðst óboðnir inn í íbúðina og notað mace-úða við inngönguna og að um skipulagða aðför hafi verið um að ræða. Anton Örn stakk fórnarlambið í kviðinn fljótlega eftir að hann opnaði íbúðina. Stungan náði tíu sentímetra inn í kviðinn og dómari segir að hending hafi ráðið því að ekki fór verr.

Við ákvörðun refsingar ákærða Antons Arnar er til þess að líta að ákærði verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Um er að ræða alvarlega háttsemi sem átti sér ofbeldisfullan aðdraganda. Fór ákærði í félagi við aðra að brotaþola, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, og olli honum miklum líkamlegum áverkum. Var hrein mildi að ekki fór verr.

Til málsbóta má virða ákærða að hann hefur viðurkennt hluta af háttsemi sinni. Ákærði hefur með broti sínu rofið skilyrði refsidómsins frá í september 2016. Dómurinn var því tekinn upp og dæmdur með refsingu í þessu máli.

Með hliðsjón af því var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Frá refsingu ákærða Antons Arnar dregst gæsluvarðhald frá 7.oktober 2017.

 

Athugasemdir

Athugasemdir