Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður í dag, milli klukkan 10.00 og 18.00
Um er að ræða sérstakt leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Valið verður milli fimm frambjóðenda og má aðeins kjósa einn í forystusætið. Kjörnefnd mun skipa listann að öðru leyti.
Leiðtogaprófkjörið er opið öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum, 15 ára og eldri. Þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ganga í flokkinn á kjördag, skulu þó hafa náð 18 ára aldri hinn 26. maí næstkomandi, þegar borgarstjórnarkosningar fara fram.

Kynningar á frambjóðendum, áherslumálum þeirra og framtíðarsýn

Í kosningunum í vor þarf Sjálfstæðisflokkurinn að höfða til breiðs hóps kjósenda til að fá umboð til að leiða tímabærar breytingar í Reykjavík. Til þess þarf forystan að hafa víða skírskotun, góða reynslu og skilja fólkið sem borgarkerfið á að þjóna. Mikilvægasta verkefnið er að koma Sjálfstæðisflokknum í meirihluta og höfða til fólks með jákvæðum hætti. Þarna liggja mínir styrkleikar ásamt því að mitt hjartans mál er að umbæturnar nái fram að ganga.

Ég óska því eftir stuðningi þínum í leiðtogasætið. Kjósendur í Reykjavík munu velja í vor þá sem þeir treysta best til að þjóna þörfum sínum. Ég er framkvæmdamanneskja sem hlustar og kann að leita lausna. Ég þekki borgarkerfið bæði af eigin raun og af mikilli reynslu af starfi mínu sem borgarfulltrúi.

Ég hef stofnað og rekið fyrirtæki, unnið í stjórnsýslunni og er með meistaragráðu í Vinnusálfræði frá Hertsfordshire í Englandi. Ég mun beita mér af festu fyrir því að setja í forgang mál sem núverandi meirihluti hefur látið sitja á hakanum.

Allt of mikil áhersla hefur verið lögð á loftkastala og óþörf verkefni síðustu ár. Á meðan hafa grunnþarfir borgarbúa mætt afgangi. Ég vil tryggja að íbúar fái mannsæmandi þjónustu á öllum aldursskeiðum, að virðing sé borin fyrir þörfum og vilja fólks og að vel sé farið með og hirt um sameiginlegar eigur okkar. Einföldum málin — látum borgina virka!

Breytinga er þörf Í vor gefst einstakt tækifæri til að snúa af braut þeirrar óstjórnar sem einkennt hefur Reykjavíkurborg síðustu árin. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á umferðartöfum, bílastæðaleysi, íbúðaskorti, leikskólavanda, stækkandi stjórnkerfi og lélegri þjónustu.

Sjálfstæðisflokkurinn er eina stjórnmálaaflið sem getur haft burði til að leiða breytingar í borginni. En þá þarf hann að vera afdráttarlaus. Með skýrri afstöðu og fumlausum skilaboðum eigum við von á að vinna sigur í vor. Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum.

Ég hef áður tekist á við vinstri meirihluta þar sem skýr skilaboð okkar sjálfstæðismanna um breytingar, stuttar boðleiðir, bætta þjónustu og minna stjórnkerfi fengu hljómgrunn hjá íbúum. Ég hef líka reynslu af því að takast á við verkefnið eftir kosningar og ná tökum á vandanum.

Ég er alinn upp í Reykjavík og mér þykir afar vænt um borgina okkar. Hún á betra skilið. Reykjavík þarf að endurheimta forystuhlutverk sitt sem höfuðborg. Hún á að vera eftirsóttur búsetukostur fyrir unga sem aldna.

Borgin á að standa sig í samkeppni um ungt fólk sem hefur val um búsetu erlendis. Reykjavík á að vera fyrsti kostur fyrir fjölskyldufólk í stað þess að missa það frá sér til nágrannasveitarfélaganna. Ég hef sett fram helstu stefnumál á undanförnum dögum og hér að neðan er hægt að nálgast sum þeirra á myndböndum.
Breytinga er þörf — fyrir Reykjavík  www.facebook.com/eythorarnaldsrvk/

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi er fæddur í Reykjavík árið 1967, sonur Magnúsar Þórðarsonar framkvæmdastjóra og Áslaugar Ragnars blaðamanns og rithöfundar. Eftir stúdentspróf frá MR nam Kjartan sagnfræði við HÍ samhliða blaðamennsku á Morgunblaðinu. Kjartan hefur verið borgarfulltrúi frá árinu 1999 og á nú sæti í borgarráði, skóla- og frístundaráði, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórn Félagsbústaða. Þá er Kjartan varaformaður öldungaráðs Reykjavíkur sem var stofnað að tillögu hans árið 2015.

Helstu áherslumál Kjartans: Húsnæðismál: Auðvelda fólki að eignast eigið húsnæði, ekki síst ungu fólki sem vill stofna heimili. Stórauka framboð lóða á hagstæðu verði í nýjum hverfum. • Samgöngumál: Rjúfa stöðnun í samgöngumálum, þar sem vinstriflokkarnir hafna samgönguverkefnum ríkisins. Greiða fyrir umferð og auka umferðaröryggi. Vinna að lagningu Sundabrautar. • Skólamál: Bæta grunnskólamenntun, með skýrum og mælanlegum markmiðum. Virkja foreldra til góðs í skólastarfi og upplýsa þá um árangur barna sinna. • Fjármál: Hagræða í rekstri, stöðva skuldasöfnun og lækka álögur. Lækka fasteignaskattinn um 10% án tafar. • Málefni eldri borgara:

Bæta þjónustu við eldri borgara og stórefla samstarf borgarinnar við félög þeirra og samtök. • Þrífum borgina! Stórbæta verklag og eftirfylgni við þrif, umhirðu og snjómokstur. Vinna gegn veggjakroti. Gegn stækkun stjórnkerfisins: Hagrætt verði á öllum sviðum kerfisins. Borgarfulltrúum verði ekki fjölgað frá því sem nú er.

Viðar Guðjohnsen Leigusali og athafnamaður.
Viðar Guðjohnsen er fæddur 14. janúar 1958 í Reykjavík. Foreldrar: Pétur Guðjohnsen, sjómaður og Gréta Guðjohnsen, húsmóðir. Eiginkona: Margrét Björg Júlíusdóttir, kennari (fædd 1955). Börn: Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur (fæddur 1983), Júlíus Pétur Guðjohnsen, athafnamaður (fæddur 1986), Andri Valur Guðjohnsen, tölvunarfræðingur (fæddur 1989).

Á sínum yngri árum var Viðar Guðjohnsen afreksmaður í íþróttum, júdómeistari og í fyrsta hóp íslenskra ólympíufara í júdó 1976, átján ára að aldri. Viðar stofnaði með bróður sínum fyrstu heilsurækt sinnar tegundar á Íslandi. Fertugur var hann orðinn umsvifamikill í byggingariðnaði og frumkvöðull í byggingu og leigu stúdíóíbúða.

Skilaboð til kjósenda: Vissulega eru þær aðferðir sem ég hef tileinkað mér í kosningabaráttunni óhefðbundnar en höldum því til haga að þegar ég byggði mínar fyrstu stúdíóíbúðir hafði enginn gert slíkt áður og það var talið óhefðbundið og undarlegt að byggja svo litlar íbúðir.

Nú er varla talað um annað en litlar íbúðir. Þegar ég, ásamt bróður mínum, stofnaði fyrstu heilsurækt sinnar tegundar hér á Íslandi var það einnig talið óhefðbundið. Við lifum á óhefðbundnum tímum, tímum þar sem útlendir rónar ferðast heimshorna á milli til þess að leggjast á félagslega kerfið hér í Reykjavík, eins undarlega og það hljómar. Til þess að opna eyru fólks þá þarf stundum óhefðbundnar aðferðir.

Í liðinni viku hef ég oft verið spurður hvaða brölt þetta sé í mér, að fara að eltast við borgarmálin. Því er til að svara að ég hef alltaf haft áhuga á borgarmálum, að segja má frá fæðingu. Ég hef áhuga á að nýta reynslu mína og bjóða Reykvíkingum upp á starfskrafta mína við að byggja upp betri borg.

Borgin hefur staðnað og er ekki það forystuafl sem hún þarf að vera á höfuðborgarsvæðinu. Það sem er brýnast Húsnæðismál eru velferðarmál og spurning um lífsgæði fólks. Húsnæðismál eru vanrækt og snúast að stórum hluta um skortstefnu núverandi stjórnenda borgarinnar.

Borgin hefur misst unga fólkið til nágrannasveitarfélaganna og stór og öflug atvinnufyrirtæki. Burðarás í menningu og listum Reykjavík er höfuðborg landsins og burðarás menningar- og listalífs. Menningartengd ferðaþjónusta er vannýtt tækifæri enda eigum við listamenn á sviði fjölmargra listgreina, t.d. bókmennta, tónlistar, málaralistar og kvikmyndagerðar svo dæmi séu nefnd.

Fyrir ferðamenn er gaman að geta notið þessa afreksfólks á heimaslóð og kynnst því betur. Velferðarmál Það þarf að efla forvarnir og aðstoða fólk til sjálfsbjargar. Leggja þarf áherslu á margvíslega endurhæfingu bæði þeirra sem hafa skerta starfsgetu vegna örorku og einnig eldri borgara til að auka lífsgæði þeirra og þátttöku í daglegu lífi og starfi.

Landspítali og heilsugæsla Landspítali háskólasjúkrahús á að vera þar sem hann er við Hringbraut og byggja skal áfram þar upp í samræmi við stefnu Alþingis. Stefnumótun til framtíðar Uppbygging og stefnumótun til lengri framtíðar er nokkuð sem ég vil leggja meiri áherslu á. Reykjavík er borg þjónustu, vísinda og lista.

Athugasemdir

Athugasemdir