Innbrot – tveir handteknir : 27 febrúar 2018 13:47

Tveir karlmenn eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um innbrot í heimahús í Garðabæ á tíunda tímanum í morgun.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fréttatíminn hefur áður fjallað ítarlega um tíð innbrot inn á heimili í Garðabæ :

Innbrot var framið m.a. í Urðarhæð í gærkvöld, milli kl. 19.30 og 21.00. Spenntur var upp gluggi í svefnherbergi sem snýr að garði hússins. Öllu skarti og lausafé í húsinu var stolið.

Fótspor fundust einnig í fleiri görðum í hverfinu en innbrotin eru öll framin þannig að farið er inn í svefnherbergi þar sem að hreyfiskynjarar eru ekki virkir, þó að þjófavarnakerfi séu í húsunum. Greinilegt er að innbrotin eru vel skipulögð eins og áður hefur verið fjallað um.

Glæpamennirnir sækja sérstaklega í að komast inn um glugga í svefnherbergjum og því gott ráð að taka öll verðmæti burt úr svenherbergjum og geyma þau þar sem eru virkir skynjarar.

Bæjarstjóri Garðabæjar hefur samið um uppsetningu á öryggismyndavélum í bænum í samstarfi við Neyðarlínuna og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, þá verður hægt að greina bílnúmer ofl. sem að kann að koma að gagni við að upplýsa glæpi.

,,Það var brotist inn í húsið okkar í Holtsbúðinni um helgina. Farið var inn um svefnherbergis gluggann og rótað í öllum hillum og skúffum þar. Sem betur fer voru ekki mikil verðmæti þar en eitthvað smávegis af skartgripum. Þetta er ömurleg staðreynd að geta ekki verið öruggur um heimili sitt þegar farið er að heiman yfir helgi.“ segir einn af þeim íbúum í Garðabæ sem að hefur orðið fyrir því að fá þjófa inn í svefnherbergið sitt.

Ef þið hafið orðið vör við grunsamlegar mannaferðir í kringum Urðarhæðina, Holtsbúð eða í öðrum hverfum, hringið þá í lögregluna og tilkynnið málið. Gott er að taka myndir á t.d. síma af viðkomandi aðilum, bíl og bílnúmeri ef að grunur vaknar um eitthvað misjafnt eða óvenjulegt.

Frétt okkar frá 23.01.2018 : 

800 garðbæingar hlynntir öryggismyndavélum. Bæjarstjóri vinnur í málinu

-Uppfært kl.06.45 – Lögreglan hefur verið með mjög virkt eftirlit í ýmsum hverfum Garðabæjar síðan fréttin birtist í gær og m.a. lýst upp svæði í hverfum við eftirlit í nótt. Einnig hafa verið notaðir drónar til þess að skima svæðið.                                          Jafnframt er vert að geta þess að í gær voru 165 sektaðir fyrir of hraðan akstur í Garðabæ-

Talsverð ólga hefur verið á meðal íbúa í Garðabæ undanfarna daga vegna mikils fjölda innbrota upp á síðkastið í bænum og hafa bæjarbúar verið varir um sig gagnvart ókunnugum mannaferðum við hús sín.

Sumir íbúar skrá m.a. niður bílnúmer á ókunnugum bílum sem að hafa verið að aka rólega í gegnum hverfin án erindis. Einhverjir hafa sett upp öryggismyndvélar og þjófavarnarkerfi hjá sér. Fólk hefur verið að deila sögum af ákveðnum bílum sem hafa sést aka um hverfin.

U.þ.b. 800 íbúar hafa sett „like“ á það á vef íbúanna um að skora á bæjarstjórn að koma upp öryggismyndavélum í bænum.

Fréttatíminn spurði frétta af gangi mála hjá skrifstofunni í Garðabæ og fékk eftirfarandi svar vegna öryggis- og eftirlits- myndavéla.

,,Garðabær hefur látið setja upp öryggismyndavél við Álftanesveg á síðasta ári en um er að ræða samstarfsverkefni Garðabæjar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínunnar ohf.

Fyrir liggja drög að samstarfssamningi þar sem fram koma hlutverk hvers og eins samstarfsaðila að verkefninu. Hvað varðar upptökur og vörslur þeirra er það Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem mun annast vörslur á upptökum samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum Persónuverndar.

Vélin á Álftanesi hefur ekki verið formlega tekin í notkun en um leið og samningur verður undirritaður verður lokið við að koma fyrir merkingum á svæðinu. Á vegum Garðabæjar hafa ekki verið settar upp neinar aðrar vélar við vegi innan bæjarmarka.

Bæjarstjóri Garðabæjar hefur þó eins og fram kom í frétt á vef Garðabæjar fyrir helgi óskað eftir fundi með lögregluyfirvöldum og Neyðarlínu til að ræða m.a. um með hvaða hætti best verður staðið að öryggi borgaranna, þar með talið að skoða möguleika á áframhaldandi samstarfi um uppsetningu fleiri öryggismyndavéla.“

Skv. skoðun Fréttatímans á málinu, virðist vera talsverð vinna í gangi hjá bænum vegna þessara mála en það er ljóst að ferlið getur tekið einhvern tíma vegna m.a. persónuverndar og fleiri atriða sem að þarf að líta til við vinnslu málsins.

Lögreglan varar við innbrotsþjófum

Töluvert hefur verið um innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og leikur grunur á að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Flest innbrotanna eiga það sameiginlegt að vera framin á daginn og að stolið sé skartgripum og peningum, en önnur verðmæti látin ósnert. Oftar en ekki virðast skartgripir og peningar á heimilum vera geymdir í svefnherbergjum og þangað hafa þjófarnir leitað. Þótt þjófavarnarkerfi séu á mörgum heimilum virðist sem hreyfiskynjarar séu ekki staðsettir í eða við svefnherbergi og er það umhugsunarefni. Allt kapp er lagt á að reyna að upplýsa þessi mál og því viljum við rifja upp nokkur atriði, bæði í þeirri von hafa hendur í hári innbrotsþjófanna og ekki síður að koma í veg fyrir innbrot.

Ekki er ósennilegt að sést hafi til þjófanna í einhverjum tilvikum og því er ítrekað að fólk láti lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir (taki ljósmyndir ef slíkt er mögulegt) og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga.

Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.

  • Síðustu daga og vikur virðist hafa verið mikið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu og þar á meðal í Garðabæ. Beðið er eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um nákvæman fjölda innbrota hér í bænum upp á síðkastið.

Gunnar Einarsson, Bæjarstjóri

,,Það er ólíðandi ástand að verið sé að brjótast inn á heimili fólks hér í bænum sem og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og við hjá Garðabæ viljum koma í veg fyrir þessa þróun“ segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri sem hefur óskað eftir fundi með Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Skúla Jónssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni og stöðvarstjóra á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar. Á þeim fundi á m.a. að ræða um með hvaða hætti best verður staðið að öryggi borgaranna, þar með talið áframhaldandi samstarf um uppsetningu fleiri öryggismyndavéla. Nýverið var sett upp eftirlitsmyndavél við innkomu á Álftanes og hefur sú vél þegar reynst vel.

Innleiðing nágrannavörslu – samstarfsverkefni Garðabæjar og lögreglu

Garðabær hefur á undanförnum árum staðið að innleiðingu nágrannavörslu í hverfum bæjarins í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Með vorinu stendur til að halda innleiðingarfund um nágrannavörslu í einu nýjasta hverfi bæjarins, Urriðaholti. Einnig hafa verið haldnir upplýsingafundir með svokölluðum götustjórum nágrannavörslu. Íbúar eru áfram hvattir til að vera vel vakandi í sínu nærumhverfi og að fylgjast með húsum nágranna sinna. Nágrannavarslan er gott forvarnartæki, hægt er að finna ýmsar nytsamlegar upplýsingar um nágrannavörslu á vef Garðabæjar, gardabaer.is/mannlif/nagrannavarsla.

Góð ráð nágrannavörslu

Mikilvægt er að ganga vel frá húsum þegar þau eru mannlaus, læsa alltaf húsum þótt farið sé frá í stuttan tíma. Það sama gildir um bíla, læsa þeim alltaf þegar þeir standa tómir. Hér að neðan eru nokkrar ábendingar til íbúa um frágang á húsum sem mikilvægt er að hafa í huga:
• Læsa húsum alltaf, og loka gluggum vel með krækjum og stormjárnum
• Hafa ljós í húsinu, hægt að notast t.d. við innstunguklukkur sem kveikja á lömpum á vissum tímum
• Hreyfinemar á útiljósum þannig að þau kvikni þegar umgangur er
• Loka bakgarði og öðrum stöðum þar sem hægt er að athafna sig úr augsýn
• Ekki hafa aukalykla á aðgengilegum stöðum
• Viðvörunarkerfi tengd öryggisfyrirtæki
• Öryggismyndavélar á húsum hafa fælingarmátt “ segir á vef garðbæinga.

Athugasemdir

Athugasemdir