Mikill erill var í liðinni viku vegna veðurs. M.a. fóru bílar út af á Fróðárheiði og í Bröttubrekku. Gluggi losnaði í nýja hótelinu í Borgarnesi og skilti fauk í Borgarnesi.

Um tíma var sementsverksmiðjan á Akranesi vöktuð af lögreglu og björgunarsveitarmönnum, því talsverð hætta var talin á að járnplötur færu að fjúka. Til þess kom þó ekki en ýmiskonar smærra brak fór af stað.

Bíll valt á Vesturlandsveginum skammt frá Fiskilæk. Meiðsli voru minnihátttar en bíllinn talinn ónýtur á eftir. Lögreglu hafa borist nokkrar tilkynningar vegna bifreiða sem hafa skemmst við það að aka ofan í djúpa holu á Borgarfjarðarbraut, vestan við Skeljabrekku. Þarna hafa hjólbarðar sprungið og felgur beyglast.

Gat kom á olíutank flutningabifreiðar þegar hún var stödd í Borgarnesi. Um 100 lítrar af olíu láku niður á planið við Olís. Starfsmenn Olís hreinsuðu upp og var heilbrigðiseftirliti og slökkviliði tilkynnt um málið.

Tilkynnt var um að uppblásinn björgunarbát hefði rekið á land við Malarrif á Snæfellsnesi. Í ljós kom að hann hafði fallið af skipi fyrr um daginn. Björgunarsveitin Lífsbjörg tók að sér að sækja bátinn og koma honum í hús ásamt því að aftengja neyðarsendi.

Þrátt fyrir válynd veður í vikunni og stundum slæma færð kærðu lögreglumenn 9 ökumenn fyrir of hraðan akstur, allt að 130 km hraða og hraðamyndavélar mynduðu liðlega 260 hraðaakstursbrot í umdæminu.

Athugasemdir

Athugasemdir