Rannsóknarskylda lögreglu – Lögreglustjórinn vísar til metoo frásagna um kynferðisbrot

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi í gærkvöld frá sér yfirlýsingu vegna frásagna kvenna sem hafa sagt frá kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri undanfarið undir merkjum #metoo-byltingarinnar svokölluðu.

Nichole Leigh Mosty sem er fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og jafnframt ein þeirra sem söfnuðu saman sögum kvenna af erlendum uppruna hefur gagnrýnt opinberlega að lögregla hafi ekki aðhafst neitt í þeim málum sem að eru fjölmörg og í öllum stéttum þjóðfélagsins.

Lögreglustjórinn tekur það skýrt fram að á lögreglu hvíli rannsóknarskylda, fái hún grun eða vitneskju um að brot hafi átt sér stað og að það sé hlutverk lögreglu og ákæruvaldsins að svara því hvort ætluð brot kunni að vera fyrnd eða hvernig sönnunarstöðu sé háttað.

,,Síðastliðnar vikur og mánuði hafa margir stigið fram og lýst því að brotið hafi verið á þeim í orði og í verki. Konur eru þar í yfirgnæfandi meirihluta. Frásagnirnar eru margar og sumar svo átakanlegar að fólki er verulega brugðið. Sumar ná langt aftur í tímann, aðrar eru nýlegar. Í lýsingum kemur einnig fram að enginn þjóðfélagshópur er undanskilinn og að ætluð brot hafi fengið að þrífast á ólíklegustu stöðum.

Því hefur verið velt upp hvert hlutverk lögreglu sé í þessu sambandi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telur rétt að taka það skýrt fram að allir brotaþolar eru skjólstæðingar lögreglu. Á lögreglu hvílir rannsóknarskylda fái hún grun eða vitneskju um að brot hafi átt sér stað. Og það er hlutverk lögreglu og ákærenda að svara því hvort ætluð brot kunni að vera fyrnd eða hvernig sönnunarstöðu sé háttað.“ segir í yfirlýsingu lögreglu.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir