Forsendur kjarasamninga eru brostnar að mati ASÍ

ASÍ hefur fundað með SA og stjórnvöldum um endurskoðun kjarasamninga. Það er ljóst að þær viðræður eru í hnút núna og lauk forsendunefnd fundi sínum í gær með ágreiningi

Þegar hafa Rafiðnaðarsambandið, Stéttarfélagið Framsýn, Afl starfsgreinafélag, Verkalýðsfélag Akraness, VR og Félag rafvirkja,  lýst því yfir að þau séu hlynnt því að samningum verði sagt upp.

Ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í gærkvöld af sinni hálfu og minntist þar sérstaklega á Kjararáð en miklar deilur og óánægja hefur verið í samfélaginu um úrskurði þess um laun til þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra. Sá mikli munur sem að myndast hefur eða réttara sagt gjá á milli almennra launþega og svo annara hópa í samfélaginu, hafa sett stórt strik í reikninginn. Nú síðast í gær kom fram að Landsvirkjun hafði t.d. hækkað laun æðstu aðila fyrirtækisins um 45% á ári.

Ekki er ólíklegt að forysta þeirra sem að semur um laun í umboði launþega, verði að líta til slíkra hækkana og hækkana Kjararáðs þegar að þeir semja um laun í umboði launþega.

En í viðræðum um launamál hefur einnig komið fram að það þurfi að semja um krónutölu hækkun en ekki prósentu hækkun, þar sem að há prósentuhækkun á ofurlaun gefi allt of mikla hækkun sem að hefur myndað þá gjá sem að myndast hefur á vinnumarkaði.

Fulltrúar samninganefndar ASÍ hafa að undanförnu, og nú síðast í gær, fundað með SA og stjórnvöldum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna endurskoðunar kjarasamninga.

Fulltrúar ASÍ í forsendunefnd telja að forsendur kjarasamninga sé brostnar, en þegar sú staða kemur upp ber aðilum að leita viðbragða hjá gagnaðila og/eða stjórnvöldum til að kanna hvort vilji sé til þess að koma til móts við aðila vegna forsendubrestsins. Nú er beðið viðbragða við þessum málaleitunum en endanleg afstaða til framhaldsins verður tekin á miðvikudaginn.

Yfirlýsing ríkistjórnarinnar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga

Ríkisstjórnin sendi í gærkvöld frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu um aðgerðir í þágu félagslegs stöðugleika í tilefni af mati á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu félagslegs stöðugleika í tilefni af mati á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði

Öflugur vinnumarkaður er forsenda efnahagslegrar og félagslegrar velferðar. Ríkisstjórn Íslands lýsir yfir vilja sínum til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því markmiði að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu og vaxta og stöðugs gengis með félagslega velferð að leiðarljósi.

Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi.

Sátt á vinnumarkaði er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara.

Samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins hófst í desember sl. Fundir hafa verið haldnir um einstök mál, svo sem félagslegar undirstöður, vinnumarkaðstengda sjóði og fjármögnun þeirra, menntamál, efnahagsmál, kjararáð og undirstöður launatölfræði. Á grunni þessa samtals hefur eftirfarandi vinna verið unnin:

• Kjararáð. Nefnd var skipuð um kjararáð og hefur hún lokið störfum. Niðurstaða nefndarinnar var að hverfa ætti frá því að úrskurða í kjararáði um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra.

Laun þjóðkjörinna fulltrúa og dómara skyldu ákveðin í lögum og endurskoðuð árlega með einfaldri viðmiðun. Þá fór nefndin yfir valkosti við að jafna þróunina á tímabili rammasamkomulags á vinnumarkaði á milli þeirra sem standa utan og innan kjararáðs.

• Þjóðhagsráð. Forsætisráðherra hefur lagt fram tillögu til aðila vinnumarkaðarins um að útvíkka hlutverk ráðsins til að tryggja samhengi og jafnvægi efnahagslegs og félagslegs stöðugleika í umræðu um stjórn opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála.

• Launatölfræði. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um nauðsyn þess að gera umbætur á úrvinnslu og nýtingu tölfræðiupplýsinga um laun og undirbúa upptöku launaupplýsinga frá öllum launagreiðendum að norskri fyrirmynd. Stofnaðar verða tvær nefndir um bætta launatölfræði.

Samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika verður haldið áfram í Þjóðhagsráði á þessu ári. Þessu til viðbótar lýsir ríkisstjórnin því yfir að hún er reiðubúin að standa að eftirfarandi velferðarmálum á vinnumarkaði á árinu 2018.

Á Alþingi í gær óskaði Jón Þór Ólafsson eftir upplýsingum um stöðu mála og kvartaði yfir því að Forsætisráðherra hefði ekki veitt neinar upplýsingar um stöðu mála.

,,Á morgun verður tekin ákvörðun um það hjá ASÍ hvort eigi að segja kjarasamningum lausum, 100.000 vinnumanna, eða heimila að aðildarfélögin geti gert það. Þetta er það einstaka, stærsta málefni samfélagsins sem við erum að semja um núna.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu alveg frá því 14. desember til að ræða þetta mál, sátt á vinnumarkaði og kjararáð, við forsætisráðherra. Mér var bent á að ég gæti rætt það í janúar.

Ég sendi þá beiðni og vildi fá umræðuna eftir að skýrslur hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, væru komnar fram. Hún setti á laggirnar tvær nefndir sem voru nýlega búnar að gefa út skýrslurnar, en áttu ekki að koma fyrr en 10. febrúar, komu svo held ég 14. febrúar. Ég nefndi að vildi fá umræðuna þá. Ekki hefur orðið við því.

Forseti Alþingis getur sett á dagskrá þingfundar sérstaka umræðu þar sem þingmenn geta fengið tekið fyrir mál hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Þingmaður skal afhenda forseta skriflega beiðni …“ — og svo framvegis.

En hvers vegna er þetta? Jú, ef málefnið er „… í senn svo mikilvægt, umfangsmikið og aðkallandi að það rúmist ekki innan umræðumarka sérstakrar umræðu …“

Hvað segja fjármálaráðherra og forsætisráðherra um þetta mál? Sem forsætisráðherra sagði Bjarni Benediktsson í stefnuræðu þegar þing kom saman í haust.

„Það er lítil samvinna til staðar og skipulagið í kjaraviðræðum er tilviljanakennt …“ — „… er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála um þessar mundir …“

Katrín Jakobsdóttir sagði við stjórnarmyndun,: „Ég held að þetta sé stærsta verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við, að skapa sátt á vinnumarkaði, …“

Ég óska eftir sérstakri umræðu þar sem þingið getur talað saman áður en ákvörðunin er tekin á morgun um að slíta kjarasamningum 100.000 launamanna, og ræða það hér í þinginu við forsætisráðherra þannig að við gefum skilaboð til samfélagsins hvað við ætlum að gera í þessu máli.

Það er ýmislegt sem við getum gert. Mér er sagt að ég geti fengið umræðu á fimmtudaginn, daginn eftir ákvörðunina. Ég vil beina því til hæstvirts forsætisráðherra og forseta þingsins að við fáum þessa sérstöku umræðu á dagskrá á morgun, Það er það mikilvægt.“ sagði Jón Þór um þá stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði.

Athugasemdir

Athugasemdir