Ragnar Þór Ingólfsson gefur lítið fyrir yfirlýsingar Forseta ASÍ í dag

,,Sú rós sem Gylfi ber í hnappagati svika við alþýðu þessa lands og mun aldrei gleymast er aðgerðarleysið og samstöðuleysið gagnvart fjármálakerfinu eftir hrun. Hans verður minnst sem varðhundur verðtryggingar og okurvaxta.“

Ragnar Þór Ingólfsson gagn­rýn­ir for­ystu Alþýðusam­bands Íslands harðlega enn á ný en það hefur hann gert ítrekað með reglulegu millibili síðan að hann náði kjöri sem formaður VR. Hann hefur verið mjög óánægður með sitj­andi for­seta ASÍ Gylfa Arn­björs­son og hefur ekki farið leynt með þá skoðun og vísar m.a í skoðanakannanir um að almenn óánægja sé með Gylfa.

Ragnar hefur m.a. gagnrýnt Gylfa Arnbjörnsson harðlega fyrir að vinna ekki að heilindum að því að afnema verðtrygginguna. VR hafi lagt fram ályktanir  á þingum ASÍ en Þær hafi síðan verið þynnt­ar út hjá ASÍ vegna þess að það henti ekki stefnu þeirra sem ráðið hafi ferðinni inn­an sam­bands­ins. Ragnar segir að ef að ný stjórn Efl­ing­ar verði kos­in, þá sé sitj­andi for­seta ASÍ Gylfa Arn­björs­syni ekki stætt þar leng­ur.

Í kosn­ing­um um stjórn stétt­ar­fé­lags­ins Efl­ing­ar verður boðinn fram nýr listi sem að ætlar að end­ur­reisa verka­lýðshreyf­ing­una. Hann var kynnt­ur á bar­áttu- og sam­stöðufundi í Rúg­brauðsgerðinni í gær. For­manns­efni list­ans er Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir en hún er dóttir Jóns Múla Árnasonar, heitins og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur sem að unnu sem þulir á RÚV.

Fyrir tæpu ári síðan neitaði Ragnar Þór Ingólfsson að taka sæti í miðstjórn ASÍ og sagðist ekki taka sæti í miðstjórn ASÍ með nú­ver­andi for­seta Gylfa Arn­björns­son­ við völd. Hins veg­ar mundi hann taka sæti í samn­inga­nefnd fyr­ir hönd VR.

Í dag segir Ragnar Þór Ingólfsson þetta varðandi yfirlýsingu Gylfa Arnbjörnssonar, Forseta ASÍ.

,, Það fer um mig kjánahrollur að lesa yfirlýsingu forseta ASÍ.
Ég hef margoft horft upp á bein afskipti ASÍ af málefnum annara stéttarfélaga. Ákveðnir aðilar hafa gengið svo langt að vinna gegn öðrum formönnum séu þeir líklegir til að gera betur en gjaldþrota hugmyndafræði örfárra um hvað sé nægilega hóflegt hverju sinni.
Gylfi hefur ítrekað reynt að hafa áhrif á innri málefni VR. Meðal annars með beinum tölvupóstsendingum á stjórn og trúnaðarráð félagsins. Hann á örfáa bandamenn innan stjórnar VR sem virðast halda honum vel upplýstum um gang mála. Þeir aðilar munu leggja sín störf í dóm félagsmanna í mars.

Í hvert skipti sem við ætlum að ræða mikilvæg mál innan okkar baklands byrja þessar tölvupóstsendingar hans. Meðal annars þegar við ætluðum að ræða og álykta um tilgreindu séreignina eða veru okkar innan LÍV og ASÍ. Ég man ekki eftir viðlíka afskiptum Forseta ASÍ af innri málum VR síðan ég tók sæti í stjórn félagsins fyrir 9 árum síðan.
Líklega er það vegna þess að hann hefur ekki talið þörf á því hingað til þar sem valdastrúktúr hreyfingarinnar hefur ekki verið ógnað fyrr en nú.
Þannig mætti kalla afskipti Gylfa fordæmalaus. Þetta er jú sami forseti og þykist eingöngu fara eftir vilja félagsmanna á meðan hann treður gjaldþrota hugmyndafræði sinni ofar vilja grasrótarinnar. En sú rós sem Gylfi ber í hnappagati svika við alþýðu þessa lands og mun aldrei gleymast er aðgerðarleysið og samstöðuleysið gagnvart fjármálakerfinu eftir hrun. Hans verður minnst sem varðhundur verðtryggingar og okurvaxta.

Sem formaður VR þarf ég að sækja umboð til minna félagsmanna. Ef þeim líkar ekki málflutningur minn verður mér einfaldlega skipt út. Ég skora á Gylfa að gera hið sama. Setja störf sín í dóm yfir 100 þúsund félagsmanna ASÍ.
Með framboði mínu til formanns VR kallaði ég eftir samstöðu grasrótarinnar. Ég kallaði eftir byltingu innan hreyfingarinnar. Ég lýsti yfir vantrausti á forystu ASÍ og fékk að launum yfirburða kosningu.
Ég fagna því að grasrótin svari þessu kalli. Og það eitt að félagsmenn Eflingar geti kosið sér forystu til næstu ára er einfaldlega stórkostlegt. Hvað er að ef við fögnum ekki fleiri valkostum og lýðræði. Við hvað eru menn hræddir? Ef þeir hafa staðið sig svona svakalega vel þá hljóta þeir að vera öruggir áfram. Ég vona svo sannarlega að kjör mitt í VR verði grasrótinni hvatning og hún smitist í allar áttir. Ef einhverstaðar er þörf á endurnýjun og fersku blóði þá er það innan verkalýðshreyfingarinnar svo mikið er víst.
Málið snýst líka um traust. Ef forseti ASÍ nýtur ekki trausts meðal okkar félagsmanna verður samningsstaða okkar aldrei sterkari en það.“segir Ragnar Þór í dag.

„Mér hef­ur þótt for­seti ASÍ, og frá­far­andi formaður VR, ekki vera í neinu sam­bandi við vilja fólks­ins í land­inu og sá grun­ur reynd­ist vera rétt­ur. Ég bauð mig fram á móti hon­um og hef gert það þris­var sinn­um, til þess að sýna al­menn­ingi í land­inu hversu mik­inn stuðnings hann nýt­ur á meðal þessa þrönga hóps sem er val­inn inn á þing sam­bands­ins.

Ít­rekað hafi verið reynt að fá álykt­an­ir samþykkt­ar á þing­um ASÍ um verðtrygg­ing­una. Fjallað hafi verið um málið á vett­vangi VR og kröf­ur í þeim efn­um sett­ar of­ar­lega á blað fyrir kjara­samn­inga. Þær hafi síðan verið þynnt­ar út hjá ASÍ vegna þess að það henti ekki stefnu þeirra sem ráðið hafi ferðinni inn­an sam­bands­ins.

Stefna þeirra í þess­um mál­um hef­ur verið að leysa lána- og vaxta­mál­in með því að ganga inn í Evr­ópu­sam­bandið og taka upp evru. En launa­fólk og al­menn­ing­ur í land­inu á ekki að þurfa að hafa byssusting­inn í bak­inu. Við eig­um að geta tekið slíka ákvörðun með upp­lýst­um hætti. Það á ekki að nota ástandið gegn launa­fólki því við get­um gert miklu bet­ur.

Ég bauð fram krafta mína í kosn­ing­un­um og sagðist vilja beita mér fyr­ir því að verðtrygg­ing­in yrði af­num­in og var kallaður gaspr­ari fyr­ir vikið. En ef verka­lýðshreyf­ing­in á ekki að gera þetta. Hver á þá að taka upp hansk­ann fyr­ir fólkið? Verka­lýðshreyf­ing­in kem­ur til dæm­is miklu meira að laga­frum­vörp­um en fólk al­mennt átt­ar sig á.

Fé­lagið þarf að mínu mati að leggja áherslu á ytri stefnu fé­lags­ins. Þá er ég að tala um að víkka út kjara­bar­átt­una og láta okk­ur miklu fleiri mál varða. Eins og til dæm­is hús­næðismál­in og vaxta- og verðtrygg­ing­ar­mál­in sem ég lít á sem eitt af okk­ar mik­il­væg­ustu kjara­mál­um. Sama er að segja um það að ef við ætl­um að fara út í nor­rænt samn­inga­mód­el þá verðum við að byggja fyrst upp nor­rænt vel­ferðar­kerfi  “ sagði Ragnar í viðtali við Mbl. í mars í fyrra, þá nýkjörinn formaður

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir mjög athyglisvert að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi með beinum hætti afskipti af kjöri í Eflingu. Í gær lýsti Ragnar Þór yfir stuðningi við framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur til formanns Eflingar. Haft eftir Gylfa í Morgunblaðinu í dag að hann muni ekki eftir að hafa heyrt af slíku áður. Félagsmenn VR og Eflingar eru samanlagt um helmingur félagsmanna Alþýðusambands Íslands. Gylfi segir í samtali við Morgunblaðið að það kunni vel að vera að félögin tvö geti reynt að taka yfir miðstjórn ASÍ í sameiningu, það komi í ljós á næsta þingi þess.

Allt stefnir í að kosið verði um embætti formanns í Eflingu í fyrsta sinn í tuttugu ára sögu félagsins. Framboðslisti með Sólveigu Önnu sem formann er í undirbúningi og verið er að safna tilskyldum fjölda undirskrifta. Sigurður Bessason, sem gegnt hefur embætti formanns Eflingar í átján ár, hættir störfum á næsta aðalfundi félagsins í lok apríl. Fulltrúar framboðs Sólveigar Önnu héldu baráttufund í Rúgbrauðsgerðinni í gær. Þar hélt formaður VR erindi.

  • Gylfi Arnbjörnsson var kjörinn forseti ASÍ á 8. ársfundi Alþýðusambandsins 24. október 2008 og endurkjörinn til tveggja ára á ársfundi 22. október 2010. Á þingi ASÍ 17.-19. október 2012 var Gylfi svo endurkjörinn í annað sinn, í þriðja sinn á 41. þingi ASÍ 2014 og fjórða endurkjörið sem forseti ASÍ kom á 42. þingi ASÍ 2016. Hann hafði frá árinu 2001 verið framkvæmdastjóri ASÍ en Gylfi kom fyrst til starfa hjá verkalýðshreyfingunni árið 1989, þá sem hagfræðingur Kjararannsóknarnefndar.Hann var hagfræðingur ASÍ frá 1992-1997 og framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn hf frá 1997-2001.

Gylfi Arnbjörnsson er fæddur í Keflavík 12. maí 1958.  Foreldrar hans eru Jóna Sólbjört Ólafsdóttir verslunarmaður og Arnbjörn Hans Ólafsson sjómaður.  Þau eignuðust sjö börn.

Gylfi lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1978 og meistaragráðu í Hagfræði frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn 1986.

1. varaforseti ASÍ er Sigurður Bessason. Hann var kjörin til tveggja ára á 41. þingi ASÍ 24. október 2014 og endurkjörinn á 42. þingi ASÍ 2016. Ingibjörg Ósk Birgisdóttir VR var kjörin 2. varaforseti á fundi miðstjórnar 29. mars 2017 í stað Ólafíu B. Rafnsdóttur sem hætti sem varaforseti eftir að hafa tapað í formannskosningum í VR um miðjan mars 2017.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir