Deila

Útgerðarfélag telur laxeldi geta bjargað byggð á Vestfjörðum

Útgerðarfélagið Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um laxeldi harkalega í skýrslu til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða laxeldisstöð fyrirtækisins. Formaður veiðifélags Langadalsár segir að náttúra Íslands sé of dýrmæt til Ísland lendi í sömu stöðu og Noregur. Í skýrslunni segir að umhverfisáhrif laxeldis Gunnvarar á villta laxastofni séu ekki óafturkræf.

Stærsta útgerðarfélagið á Vestfjörðum, Hraðfrystihúsið Gunnvör, telur að útflutningstekjur af fyrirhuguðu laxeldi fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi muni nema fimm milljörðum króna og að sjötíu störf muni skapast á norðanverðum Vestfjörðum ef að eldinu verður. Þessum tölum er meðal annars stillt upp gegn um 500 milljóna króna tekjum sem landeigendur í Ísafjarðardjúpi hafa af leigu á laxveiðiréttindum í þeim laxveiðiám sem liggja að Ísafjarðardjúpi.
Þessar upplýsingar um umhverfisleg og samfélags áhrif á fyrirhuguðu laxeldi dótturfélags útgerðarfyrirtækisins, Háafelli ehf., eru að finna í frummatsskýrslu um laxeldið sem gerð var opinber á vefsíðu á Skipulagsstofnunar í desember. Frestur til að gera athugasemdir við skýrsluna til Skipulagsstofnunar rennur út þann 23. janúar. Umhverfisstofnun veitti Háafelli ehf. leyfi fyrir sjókvíaeldinu í lok nóvember síðastliðinn. Laxeldi í sjókvíum hefur ekki áður verið reynt í Djúpinu fyrir utan tvær litlar kvíar fyrir þrjátíu árum síðan. Því er um að ræða eðlisbreytingu á lífríki Ísafjarðardjúps.
Langadalsá er ein besta laxveiðiáin á Vestfjörðum og segir formaður veiðifélags hennar að hann hafi áhyggjur af erfðamengun á laxastofninum í ánni með tilkomu eldiskvía í Ísafjarðardjúpi.
Langadalsá er ein besta laxveiðiáin á Vestfjörðum og segir formaður veiðifélags hennar að hann hafi áhyggjur af erfðamengun á laxastofninum í ánni með tilkomu eldiskvía í Ísafjarðardjúpi.
Náttúran of dýrmæt
Umræðan um laxeldi í sjó á Íslandi hefur verið talsverð síðustu ár og sérstaklega mánuði þar sem fyrir liggur mikil aukning á þessu eldi. Gagnrýnendur laxeldisins, meðal annars Landssamband íslenskra veiðifélaga, sem hefur hagsmuni af því að eldislax spilli ekki íslenskum laxastofnum, hefur meðal annars gagnrýnt þessa þróun harðlega vegna hættu á erfðamengun og þar með eyðileggingu á villta íslenska laxastofninum.
Ein af niðurstöðum Gunnvarar er að umhverfisáhrifin af laxeldinu séu „óveruleg til nokkuð neikvæð“ þar sem einungis sé um afturkræf og tímabundin áhrif að ræða ef það gerist að eldislaxinn úr kvíum fyrirtækisins sleppi og blandist saman við villta laxastofna.
Formaður veiðifélags Langadalsár, Þorleifur Pálsson, segir að hann sé ósammála þessu mati og að norsk fyrirtæki í laxeldi séu að koma til Íslands með starfsemi sem búið sé að banna í Noregi, meðal annars vegna erfðamengunar. „Mér finnst þetta vera skammsýni. Í stórum hluta laxeldis á Vestfjörðum er notast við erlent fjármagn. Það er búið að banna opið sjókvíaeldi í Noregi. Þeir eru bara að koma hingað að okkur bakdyramegin. Náttúran okkar er mikið dýrmætari en svo að við viljum lenda í sömu sporum og Norðmenn.“
Þá segir Gunnvör í skýrslunni að umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um laxeldi hafi verið „tilfinningaþrungin“ og „ófagleg“ í gegnum tíðina og að þessu þurfi að breyta: „Við leggjum áhersla á að faglega verði unnið að umhverfismati fyrir laxeldi og að skoðanir eða ákvarðanir stjórnsýslustofnana og annarra mótist ekki af óvönduðum fréttaflutningi sem því miður er oft á tíðum einkennandi fyrir fjölmiðla hér á landi.“
Myndin sýnir þau svæði í Ísafjarðardjúpi þar sem Hraðfrystihúsið Gunnvör hyggst vera með laxeldiskvíar sínar, auk seiðaeldisstöðvar á Nauteyri og slátrunarstöðvar á Súðavík. Myndin er tekin úr skýrslunni sem fyrirtækið hefur skilað til Skipulagsstofnunar.
Myndin sýnir þau svæði í Ísafjarðardjúpi þar sem Hraðfrystihúsið Gunnvör hyggst vera með laxeldiskvíar sínar, auk seiðaeldisstöðvar á Nauteyri og slátrunarstöðvar á Súðavík. Myndin er tekin úr skýrslunni sem fyrirtækið hefur skilað til Skipulagsstofnunar.
Ný störf og milljarðatekjur
Í skýrslunni, sem er 230 blaðsíður að lengd og mjög ítarleg, kemur fram sú sýn Hraðfrystihúss Gunnvarar að laxeldi í sjó geti í framtíðinni orðið jafn fjárhagslega mikilvægt fyrir atvinnulíf Vestfjarða og hefðbundinn sjávarútvegur er í dag og að þessi iðnaður geti orðið stærri og mikilvægari en aðrar atvinnugreinar sem byggja beint eða óbeint á nýtingu náttúrunnar í Ísafjarðardjúpi, til dæmis ferðaþjónusta og nýting á laxveiðiréttindum. „Það getur orðið jafnstór stoð í hagkerfinu og hefðbundinn sjávarútvegur á Vestfjörðum er í dag. Atvinnuáhrifin, verðmætasköpunin og margfeldisáhrifin af uppbyggingu í laxeldi getur snúið við þeirri neikvæðu þróun sem hefur verið viðvarandi á Vestfjörðum. […] Miðað við 7.000 tonna sjókvíaeldi Háafells þá má gera ráð fyrir að útflutningstekjur verði um 5 milljarðar á ári. Þetta eru mun meiri tekjur en hjá öðrum atvinnugreinum sem nýta auðlindir í innanverðu Ísafjarðardjúpi eins og rækjuveiðar og laxveiði.“
Þannig má sjá þá hugmynd í skýrslu Gunnvarar að laxeldi geti með öðrum orðum bjargað byggðinni á norðanverðum Vestfjörðum eða snúið þeirri byggðaþróun sem verið hefur á svæðinu síðastliðna áratugi. Laxeldið er því ekki aðeins stórt atvinnuþróunarlegt atriði heldur einnig stór og mikilvæg samfélagsleg spurning þar sem vitnað er í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða þess efnis að 10 þúsund tonna framleiðsla geti skapað 132 ný störf og að 30 þúsund tonna laxeldisframleiðsla geti aukið íbúafjölda á svæðinu um 1000.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.