Deila

Á flótta: Veit ekki hvar ég á að vera

Tólf ára gamall flúði Rohallah Rezaei aðstæður sínar í Afganistan. Fjórtán árum og mörgum hættuförum síðar hefur hann ekki enn eignast samastað. Honum verður vísað úr landi í næstu viku.

Þegar Rohallah Rezaei var tólf ára ákvað hann að flýja heimahagana í Afganistan. Draumur hans frá því hann var lítill drengur var að verða bifvélavirki en aðstæður bláfátækrar fjölskyldu hans, sem er af hinum ofsótta minnihlutahópi Hazara, bauð ekki upp á neina drauma. Hann ákvað að skilja við fjölskyldu og freista gæfunnar, einn í Íran.
Rohallah var ennþá barn þegar hann kom til Írans og því auðvelt fyrir hann að fá vinnu. Hann vann í kjúklingaverksmiðju þar til hann var 15 ára gamall en þá fóru málin á flækjast. Lífið í Íran er Afgönum ekki auðvelt því þar er litið niður á Afgani og nær ómögulegt er að fá vinnu. Rohallah var á þessum tíma ekki viss hvar hann vildi setjast að, hann vissi bara að hann vildi lifa af, og helst á betri stað.

31513-rohalla-06971

Hann ákvað að fara til Tyrklands, þaðan sem hann myndi svo reyna að komast á báti til Grikklands. Ferðalagið varð lengra en hann ætlaði sér því síðan eru liðin 14 ár og enn hefur Rohallah, sem er 26 ára í dag, ekki getað sest neinsstaðar að. Hvert sem hann kemur þá er honum alltaf vísað aftur úr landi, oft eftir að hafa setið í fangelsi.

landakort
„Ég er búinn að vera fjórtán ár á ferðalagi og enginn vill taka við mér. Ég veit ekki hvar ég á að vera, það á að senda mig aftur til Grikklands en þar bíður mín ekkert,“ segir Rohalla sem er með tímabundið dvalarleyfi í Grikklandi til ársins 2018, eftir það tekur óvissan við. Að fara aftur til Afganistan er ekki inni í myndinni því þar bíða hans etnískar og trúarlegar ofsóknir, en Rohallah er kristinnar trúar í dag.
„Ég er búinn að reyna að lifa af í Grikklandi en það er erfitt. Innflytjendur mega bara vinna hálfan daginn, það er erfitt að fá vinnu og svo er illa komið fram við okkur. Ástandið hefur versnað hratt eftir efnahagshrunið og margir eru á móti innflytjendum. Ég fór að lesa um löndin í Norður-Evrópu og sá að mig langaði til að reyna að setjast að á Íslandi,“ segir Rohallah sem er búinn að vera hér í tæpt ár og sækja þrisvar um hæli en alltaf fengið neitun. Honum verður vísað úr landi í næstu viku.

Auglýsing

 

 

timabil

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.