Deila

Ætlum að hamra á því að þetta sé villa í lögunum

Velferðarráðuneytið sendi þau boð til Alþingis og Tryggingastofnunar að „hamra“ ætti á því að mistök væru ástæða aukinna réttinda í lögum um almannatryggingar sem tóku gildi um áramót. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum milli staðgengils skrifstofustjóra velferðarráðuneytisins og framkvæmdastjóra réttarsviðs Tryggingastofnunar ríkisins sem Fréttatíminn fékk afhent. Breytingar á lögum um almannatryggingar tóku gildi um síðustu áramót og samkvæmt lagabókstaf tryggja þau öldruðum 2.5 milljarða réttindi umfram það sem virðist hafa verið ætlunin. Gríðarleg áhersla var lögð á það innan ráðuneytisins og Tryggingastofnunar að fela flest spor málsins enda líklegt að skapast hafi bótaskylda vegna mistakanna.

Eftir Atla Þór Fanndal

Tryggingastofnun gerði ráðuneytinu vart um málið í lok janúar. Í kjölfarið ákvað velferðarráðuneytið að velferðarnefnd Alþingis skyldi setja afturvirk lög þar sem réttindin yrðu afnumin. Það kom í hlut Nichole Leigh Mosty, formanns velferðarnefndar, að tala fyrir málinu þrátt fyrir að ljóst sé á gögnum málsins að ráðuneytið og þar af leiðandi ráðherra stýrðu öllum viðbrögðum vegna málsins.

Tryggingastofnun og velferðarráðuneytið ákváðu, þrátt fyrir að þeim væri ljóst að slíkt væri ekki í samræmi við lagabókstaf, að greiða út miðað við eigin túlkun á vilja löggjafans. Ný lög voru ekki samþykkt fyrr en í lok febrúar. Tryggingastofnun hóf ekki greiðslur á muninum á þeim tíma og fékk þau fyrirmæli frá ráðuneytinu að gera ráð fyrir að greiða marsmánuð „með sama hætti“ og hingað til hefði tíðkast. Í samskiptum Fréttatímans við ráðuneytið og Tryggingastofnun kemur ítrekað fram að þau telji enga ákvörðun hafa verið tekna um að fylgja ekki lagabókstaf. Á þeim forsendum gerði Tryggingastofnun upphaflega tilraun til að hafna beiðni um afrit af gögnum málsins.

Auglýsing

Um hvað snýst málið

Alþingi samþykkti afturvirkar breytingar á almannatryggingalögum sem fela í sér skerðingu á fimm milljarða réttindum sem ellilífeyrisþegar öðluðust í janúar og febrúar. Almennt virðist sátt um að réttindin hafi verið mistök en ekki ætlun löggjafans. Velferðarráðuneytið ákvað í kjölfarið að Alþingi skyldi samþykkja afturvirk lög sem afnámu réttinn. Almennt er ekki talið réttmætt að samþykkja afturvirk lög þótt ekki sé lagt blátt bann við slíku hér á landi. Hugsanlegt er að hér hafi skapast bótaskylda á ríkið vegna málsins. Leyndarhyggja ráðuneytis og þings í málinu er merki um að vitneskja sé um þá bótaskyldu hjá stjórnvöldum.

„Stelpurnar eru að vekja athygli mína á 3. mgr. 16. gr. [laga um Almannatryggingar] hvað telst ekki til tekna! Þar eru greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði taldar upp. Þú mættir gjarnan kíkja á þetta og hafa samband,“ segir í pósti framkvæmdastjóra réttarsviðs Tryggingastofnunar til ráðuneytisins. Í kjölfarið óskaði ráðuneytið eftir því að kostnaður við villuna yrði reiknaður af Tryggingastofnun í laumi. „Ekkert endilega segja [starfsmanninum] hvers vegna,“ segir í pósti til Tryggingastofnunar. Þá sendi ráðuneytið fyrirmæli á Tryggingastofnun að ræða málið aðeins við Sigríði Lillý Baldursdóttur, forstjóra stofnunarinnar, og engan annan.

Ráðuneytið samdi raunar frumvarpið

Starfsmaður Tryggingastofnunar lýsir því í samskiptum við ráðuneytið að hún hafi kosið að senda ekki póst til þess aðila sem fenginn var til að reikna út kostnað vegna villunnar til þess að skilja ekki eftir gögn um málið. „Bað hann auk þess að handreikna en ekki setja af stað keyrslur og varð því að fara aðeins yfir þetta með honum. Fór yfir hversu viðkvæmt þetta væri,“ segir í póstsamskiptum frá þriðja febrúar. Fréttatíminn óskaði afrits af fjölda samskipta sem áttu sér stað vegna málsins. Út frá svörum ráðuneytisins og stofnunarinnar virðist sá háttur hafa verið hafður á að skilja eftir sem minnsta gagnaslóð. Engin gögn er að finna um samskipti innan Tryggingastofnunar enda lögð áhersla á að nota ekki skriflegar leiðir til að vinna úr málinu.

Fulltrúar ráðuneytisins funduðu með velferðarnefnd að morgni 6. febrúar. Meðal gagna sem þá voru lögð fram voru grófir útreikningar og samanburður á gildandi lögum við þá meiningu sem ráðuneytið taldi að ætti að vera. Ríkislögmaður lét velferðarráðuneytinu í té lögfræðiálit vegna málsins um miðjan febrúar. Álitið er ekki að finna meðal framlagðra gagna velferðarnefndar. Nefndarmenn fengu að sjá skjalið gegn þröngum skilyrðum enda talið að álitið gæti orðið leiðarvísir fyrir þá sem leita vilja réttar síns með málssókn.

 

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.