Deila

Álfar og dvergar tengdir saman í lopapeysumynstri

Í haust var haldin lopapeysukeppni um fallegustu pólsk-íslensku lopapeysuna. Keppninni er lokið og bestu tillögurnar voru kunngerðar um helgina síðustu.

Grunnhugmyndin var sú að hanna lopapeysur, innblásnar af pólskri menningu. Keppnin var öllum opin og þátttakendur komu víða að, frá Póllandi, Íslandi, Þýskalandi og Bretlandi. 90 tillögur bárust en margar tillögur héldu sig ekki nákvæmlega við skilyrði keppninnar, sem var að tvinna tvo menningarheima saman. En sumir höfðu gert tillögur að peysum með lunda eða íslenska fánanum og sleppt allri pólskri tilvísun, segir Thomasz Chrapek, einn af skipuleggjendum keppninnar. En það er pólska sendiráðið á Íslandi og ProjectPolska sem eru kostunaraðilar hennar.

31097_2-winner-copy
Pólskur dvergur og villt skógarber og pólskir stafir eru grunnstefið í vinningspeysunni

Vinningstillagan kemur frá Bretlandi og er það Aleksandra Szmida sem á heiðurinn af henni. Aleksandra Szmida (olaszmida.com) býr í Bretlandi. Hennar útfærsla er tilvísun í dverg eða litla fólkið sem býr í náttúrunni og fyrirfinnst í pólskum þjóðsögum og hefur óbeina tengingu í íslenska álfa og huldufólksheiminn. Einnig hefur Alexandra komið fyrir pólskum bókstöfum sem eru eingöngu notaðir í pólsku letri. Undir dvergnum hefur hún teiknað villt jarðarber sem vaxa undir trjánum í pólskum skógum.

Hér að ofan má sjá örteiknimynd sem Aleksandra Szmida gerði

Thomas segir þennan hluta keppninnar vera fyrsta stig þar sem aðeins var kallað eftir grafískum lausnum á peysunum. Það komu margar tillögur inn en þær eru mis auðveldar í útfærslu. Þannig er ekki ennþá vitað hvernig eða hvort við getum útfært vinningstillöguna, hún er dálítið flókin. Þess vegna nefnum við og kynnum fleiri tillögur sem bárust í keppnina, tillögur sem koma frekar til greina þegar við hugum að prjónaðri útgáfu peysunnar. Þannig að framhaldið er að þróa mynstrið áfram og framleiða peysuna. En það á eftir að finna fjármagn í þann hluta keppninnar, en þá verður peysan prjónuð og  forseti Íslands fær fyrsta eintakið af peysunni.

Auglýsing


Tillögur sem bárust í keppnina sem eru líklegri og auðveldari til framleiðslu en vinningspeysan.

Guðfinna Mjöll frá Vík Prjónsdóttir var ein af dómurunum og hafði mikla skemmtun af, og kom henni á óvart hversu góðar og skemmtilegar tillögurnar voru. „Það var gaman að sjá hvernig þátttakendur tengdu pólska menningu inn í íslenska lopapeysuna, fallegt að tengja tvo menningarheima saman. Margar góðar og erfitt að velja á milli,“ segir Guðfinna.

Alda Lóa Leifsdóttir
aldaloa@frettatiminn.is

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.