Deila

„Allir þurfa þak yfir höfuðið!“

Margir hafa heyrt sögur af stórfjölskyldum í heilsuspillandi kjallarakytrum höfuðstaðarins á fyrri hluta aldarinnar, braggahverfunum, Höfða og afleiðingum þess alls.
Hugsanlega hafði þessi stórbrotna forsaga áhrif á þá sem tóku ákvörðun um séreignastefnu í húsnæðismálum á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar en gáfu lítið fyrir félagslega eða búsetaréttarstefnu að dæmi frænda okkar á öðrum Norðurlöndunum.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir
ritstjorn@frettatiminn.is

Fjórir af hverjum tíu íbúum á höfuðborgarsvæðinu, 20-29 ára, komast ekki að heiman vegna lágra launa. Þeir geta ekki safnað fyrir innborgun í íbúð og nurlað saman í greiðslu af þeim verðtryggðu lánum sem þeir þurfa að taka til kaupanna. Skiptir þá engu hvort þeir luku námi eftir grunnskólapróf, ófaglærðir með öllu, til að halda út á vinnumarkaðinn eða hokruðu á námslánum árum saman í sérnámi. Ekki er heldur hægt að leigja, framboðið annar ekki eftirspurn sem þýðir einfaldlega að leigan hækkar stöðugt á því húsnæði, smáu og stóru, sem enn er ekki gistirými ætlað ferðamönnum. Aðflutt vinnuafl stritar í ýmsum greinum atvinnulífsins undir lágmarksmörkum undirritaðra launataxta og má margt gera sér að góðu að hírast í ólöglegu verksmiðjuhúsnæði, geymslum, gámum í boði atvinnurekenda sinna, klyfjað skyldum en réttindalaust.

Ekkert rúm í gistihúsinu

Auglýsing

Svipaða sögu er að segja af eignalausum eða eignalitlum öldruðum íbúum höfuðborgarsvæðisins og einstæðum foreldrum, öryrkjum, sjúklingum, hömluðum á líkama, í þroska og á geði, yfirleitt öllum okkar minnstu bræðrum og systrum. Millistétt í útrýmingarhættu er varla aflögufær, endist vart ævin til að greiða að fullu þau verðtryggðu lán sem hún tók til að eignast þak yfir höfuðið, né þeim sem síðan þarf að taka til að halda „eignunum“ við. Engan skyldi því undra að nú fjölgar í hjólhýsabyggðum á Íslandi, fjölmiðlar af öllu tagi eru uppfullir af reynslusögum fólks og fjölskyldna sem hanga örvæntingarfull barmi lífsbjargargjárinnar svo ekki sé talað um fjöldann sem fallinn er fram af og getur sér enga björg veitt.
Hrútar og strútar í hringekju

Sá Íslendingur sem ekki sér að örgjaldmiðill, sem hvorki smá veikjast né styrkjast, í alheimsvæddu efnahagskerfi markaðslögmála smíðuðum af manna höndum, má vera sérlega móttækilegur fyrir hrútskýringum og strútskýringum, ef hann er ekki bókstaflega með höfuð og langan háls á bólakafi í sandinum og/eða græðir þeim mun meira á þessum ólgusjó öllum. Örfáir jarðarbúar eiga meira en helming allra auðæfa hnattarins, afgangur heimsbyggðarinnar skiptir restinni á milli sín og sannarlega ekki jafnt. En álíka þróun hefur gerst oft áður í okkar heimshluta og á eftir að gerast ef við reynum ekki að draga lærdóm af mannkynssögunni. Enginn fær hálsríg af því að kíkja aðeins yfir öxlina og kanna til dæmis iðnbyltinguna, þá sem hófst seint á 18. öld og hafði sannarlega afdrifaríkar afleiðingar.

Iðjusemisbylting og afleiðingar hennar

Sverrir Jakobsson, sagnfræðiprófessor við HÍ, svarar spurningu um iðnbyltinguna á Vísindavefnum. Að hans sögn voru samfélög mörg á einskonar foriðnvæðingarstigi á 16. – 18. öld en einkenni þess voru mikil fólksfjölgun og fleiri sinntu handverki í sveitum. Bændur einhentu sér í markaðsviðskipti en tekjur þeirra jukust ekki, sumir tala því um iðjusemisbyltingu í Vestur-Evrópu, Austur-Asíu og héruðum í Kína og Japan. Sverrir segir menn ekki sammála um hvort þessi þróun hafi orsakað iðnbyltinguna og að auki höfðu þeirra tíma hagfræðingar margir áhyggjur; töldu að mikil fólksfjölgun gæti leitt til lægri launa. Öðrum sýndist næsta víst að náttúruauðlindir gætu ekki staðið undir fólksfjölguninni; í Kína, Japan og hluta Evrópu leiddi iðjusemisbyltingin ekki til iðnbyltingar heldur efnahags- og vistkreppu.

 

Iðnbylting

Gufuvélar höfðu lengi verið í þróun en undur og stórmerki urðu þegar Watts smíðaði gufuþéttinn á sjöunda áratugi 18. aldar. Með þéttinum urðu gufuvélarnar hagkvæmari og öflugri en gufuvélar fyrri tíma, fyrsta nýja gufuvélaverksmiðjan tók til starfa 1774. Þessu öllu fylgdi vélvæðing í landbúnaði og iðnaði, síðar léttu járnbrautir mönnum ferðalög. Verksmiðjurekstur í iðnaðarborgum leiddi til gífurlegrar fólksfjölgunar, framleiðsla jókst til muna. Umsvifamestu nýlenduþjóðir í Evrópu höfðu að auki haslað sér völl í Vesturheimi. Þangað mátti sækja ódýr hráefni og landbúnaðarvörur, þar var nóg af landi og hræódýru vinnuafli, – ef ekki beinlínis þrælum. Þeir Evrópubúar sem áður höfðu sinnt frumframleiðslu þustu nú til iðnaðarborganna að hamast í verksmiðjum.

32546_gufuvél watts

England/Bretland

Ástæða þess að upphaf iðnbyltingarinnar er rakið til Englands en ekki Niðurlanda, Skandinavíu eða Frakklands, hvað þá Japans og Kína, eru ekki þær að Watts var af skosku bergi brotinn heldur voru aðstæður í náttúrunni hagstæðastar þar. Kol knúðu gufuvélarnar og í jörðu á Bretlandi var gnægð kola. Efnahagsþróunin þar í landi var hröð og á 19. öld var ríkið öflugast heimsvelda, þar gekk sólin aldrei til viðar.
En böggull fylgdi skammrifi. Þessi fylgdi nefnilega gífurleg mannfjölgun í ört stækkandi borgum; sumir bjuggu við mestu auðæfi sem þekkst höfðu, aðrir máttu þola örbirgð í hrörlegum fátækrahverfum borga í ótrúlegum og örum vexti; karlar, konur og börn. Stjórnvöld máttu horfast í augu við húsnæðisvanda almennings. Mestan hluta 19. aldar töldu leiðandi öflin að markaðurinn myndi að lokum leysa þennan vanda. Aðrir voru ekki eins sannfærðir, félagar í ýmsum góðgerðarsamtökum og m.a.s. ein bankastjóradóttir börðust hart fyrir bættum húsnæðiskjörum og stóðu fyrir byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir þá verst settu.

32546_iðnverk

Ytri og innri aðstæður

Áður höfðu verksmiðjueigendur ruslað upp hreysum fyrir verkamenn sína, aðstæður þar og vinnuaðstaða þeirra voru með slíkum hörmungum og eindæmum að mannkynsskömm er að; kólera og taugaveiki grasseruðu í fjölbýlishreysum þessum enda margar fjölskyldur um hvern kamar. Í byrjun 20. aldar töldu Bretar 9 milljónir og þrátt fyrir tvær heimsstyrjaldir og gífurlegan fólksflótta vestur um haf voru þeir 41 milljón í lok aldarinnar. En fleira kemur til.
Í örstuttu máli má segja að fyrri heimsstyrjöldinn hafi verið Evrópustríð, Norðurálfustríð. Menn greinir á um fjölda fallinna hermanna, einhvers staðar milli 10-15 milljóna, sumir taka svo djúpt í árinni að segja að þá hafi heil kynslóð Evrópumanna, blómi ungra karla, fallið í skotgröfum. Þeir Bretar og Írar sem lifðu þessa hildi af snéru heim, margir limlestir og/eða í andlegri rúst. Lloyd George úr flokki frjálslyndra var þá forsætisráðherra og íhaldsmönnum oft þungur í skauti. Hann og ríkisstjórn kynntu „Homes for our Heroes“, félagslegt byggingarátak fyrir þá hermenn sem snéru heim. En á meðan á fyrra stríði stóð hafði verið gerð bylting í Rússlandi og í kjölfarið öx róttækri verkalýðsbaráttu fiskur um hrygg í Evrópu. Víða í Evrópu stóð stjórnvöldum stuggur af aðgerðum og baráttu róttækra afla og töldu rétt að hindra þá þróun með átaki í félagslegum byggingum á vegum breskra sveitarfélaga. Og sú þróun hélt áfram, fyrstu þrjá áratugina að lokinni síðari heimsstyrjöld voru íbúðabyggingar félagsíbúðageirans næstum helmingur þess húsnæðis sem byggt var í Bretlandi. Þar varð séreignastefna í húsnæðismálum ekki ráðandi, félagslegt leiguhúsnæðiskerfi vóg þyngra. Síðan hefur síaukin heimstrúin á ágæti alþjóðavædds markaðshagkerfis og nýfrjálshyggu umturnað ýmsu þar í landi eins og víða annarsstaðar.

Svíþjóð

Iðnvæðingar atvinnuvega Svía gætti fyrst helst í landbúnaði með þeim afleiðingum að stór hluti landbúnaðarverkafólks hópaðist til Vesturheims. Um aldamótin 1900 töldu stjórnvöld þar í landi rétt að hefja lánveitingar með opinberum stuðningi til húsbygginga. Í bæjum landsins reyndu menn að hemja óskipulegan leigumarkað, húsaleigulög voru sett á árum fyrri heimsstyrjaldar og lög um lóðarleiguréttindi. Árið 1909 var veðlánakerfi fyrir íbúðabyggingar í þéttbýli komið á. Húsnæðislagasetningin var meira og minna afnumin á þriðja áratugi síðustu aldar og enn einkenndi óreiðufrumskógur leigumarkaðinn.
Snemma á fjórða áratugi aldarinnar skipaði fyrsta jafnaðarmannastjórn Svía nefnd um mótun félagslegrar húsnæðisstefnu og starfaði hún á árunum 1933-1947. Álit nefndarinnar lagði grunninn að húsnæðisstefnu Svía að lokinni síðari heimsstyrjöld. Megináhersla var lögð á uppbyggingu félagslegs leiguíbúðakerfis í eigu sveitarfélaga, séreignastefna var látin lönd og leið. Húsnæðissamvinnufélög, Landssamtök leigjenda og ýmis fagfélög í byggingariðnaði fóru mikinn en ýmist aðhylltust borgir og bæjarfélög leiguíbúðakerfi eða annaðhvort búseturéttarkerfanna. Leiguíbúðakerfi sveitafélaganna óx og magnaðist þar til það náði hámarki á árunum 1965-1975.

Sænska útfærslan

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðarlánasjóð segir um þróunina í Svíþjóð að uppbyggingin hafi verið studd af öflugu lánakerfi; 70% grunnlánum úr veðlánastofnunum tengdum almenna bankakerfinu og þriðjaveðréttarlánum sænsku húsnæðisstofnunarinnar, hún veitti lánin en þau voru afgreidd í útibúum, húsnæðisnefndum sænsku lénanna. Fjármögnun leiguíbúðabygginga rekstrarfélaga í eigu sveitarfélaganna var tryggð að fullu, 95% gagnvart búseturéttarfélögum og 85% til einbýlis- og raðhúsa ef um einstaklinga var að ræða. Samhliða uppbyggingu fjármögnunarkerfisins varð einnig til öflugt húsnæðisbótakerfi sem náði til íbúðareigenda þó svo að meginhluti stuðnings þess rynni til lágtekjufjölskyldna í leiguhúsnæði. Einnig segir í skýrslunni að ríkisstjórn Carls Bildt 1991-1994 hafi afnumið allar beinar lánveitingar sænska ríkisins og þær breytingar hafi staðið eftir að jafnaðarmenn komust til valda 1994. Segir það ýmislegt um tíðaranda síðasta áratugar liðinnar aldar í afstöðu ríkisstjórna til húsnæðismála; frjálshyggukenndar hugmyndir höfðu mikil áhrif, á kostnað fyrri ríkisafskiptastefnu. En flestir meginþættir sænska húsnæðiskerfisins standa óbreyttir.

32546_reykjavik1860

Á ísa köldu landi

Víkur þá sögunni að eyju norður undir heimskautsbaug. Frá landnámi norrænna manna á eyju þessari hafa íbúarnir ýmist talist á mörkum hins byggilega heims eða vitlausu megin við þau. Fyrir iðnbyltingu voru vegir, brýr, hafnir og ekki síst þjóðarauður í fyrrgreindum löndum. Þótt þjóðveldishöfingjar hafi margir búið í miklum skálum, átt skip í förum, látið þræla sína, ambáttir og annað verkafólk vinna auk landbúnaðarstarfa t.d. ull, fisk, lýsi og hvalafitu til útflutnings syrti mjög í álinn að þjóðveldinu föllnu. Allt fór á versta veg meðal alþýðu manna. Ættgöfugir og auðugir höfðingjar, embættismenn norskra og danskra kónga og slíkir höfðu það þokkalegt en hér var enginn þjóðarauður. Öldum saman voru hér hvorki bæir né borgir, engar hafnir, tróðar, vöð og frumstæðar ferjur en ekki vegir eða brýr, varla hús nema fyrir stertimenni. Aðrir bjuggu í torfkofum, jarðhýsum, jafnvel hellum með skepnum sínum. Leku, saggafullu, köldu og heilsuspillandi. Eignalaust fólk í vistarböndum bænda allar götur frá Píningsdómi 1490 til síðasta áratugar 19. aldar. Eylandið leit því allt öðruvísi út en það sem við okkur blasir nú á hraðferðum um hringveginn, malarvegum sveitanna og einbreiðu brúnum.

Brölt af stað

Upp úr miðri 18. öld skyldu hér gerðar tilraunir í jarðrækt, brennisteinn unninn, ull í verksmiðjum, litun vefnaðar, kaðlar, skinn verkuð, skip smíðuð og gerð út. Miðstöð þessa skyldi vera í Reykjavík, hráefnin komu víðar að af landinu. Framkvæmdir þessar stóðu í hálfa öld en síðan fór sem fór. Sjö áratugir liðu eða níu, að mati Guðmundar Jónssonar sagnfræðings í bókinni Hagvöxtur og iðnvæðing. Vélvæðing sjávarútvegs á fyrstu áratugum 20. aldar hefur löngum markað upphaf iðnbyltingar hér á landi en Guðmundur telur réttara að miða upphaf iðnvæðingar fremur við níunda áratug 19. aldar því þá höfðu orðið grundvallarbreytingar á efnahagslífi Íslendinga. Þær skiptu sköpum fyrir framleiðslu, neyslu, atvinnu og búsetu landsmanna.

Peningar, fæð og smæð

Ríkisdalir voru opinber gjaldmiðill hér frá 1815. Árið 1871 skyldi fjárhagur okkar og Dana aðskilinn með íslenskri krónu. Landssjóður var stofnaður og þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá 1874 og 11 árum síðar leyfi til að gefa út peningaseðla fyrir allt að hálfa milljón króna, 1885, máttu íslensku seðlarnir nema 750 þúsundum.
Samkvæmt manntali 1901 voru Íslendingar tæplega 80 þúsund, flestir bjuggu í sveitunum. Mest þéttbýli var í Reykjavík, tæplega sex þúsund manns, rúmlega þúsund bjuggu á Ísafirði en fjögur hundruð í Hafnarfirði. Fjölmennið var meðal bænda og búaliðs, fiskveiðimönnum fór þó fjölgandi, þeir stunduðu flestir landbúnaðarstörf með fram veiðunum. Rúm tvö þúsund sinntu verslun og þjónustu, svipaður fjöldi þáði sveitarstyrki.
Verkmenning aðalatvinnugreinarinnar hafði lítið breyst frá landnámi; handverkfæri, hestar til jarðvinnslu og heyskapar. Fiskveiðimenn sóttu á grunnmið við landsteina á opnum róðrabátum. Á síðari hluta 19. aldar efldist þilskipaútgerð, veiðiaðferðir og vinnsla aflans tók og breytingum. Þilskipi mátti sigla á fjarlægari mið og skila meiri afla. Norðmenn fóru fremstir útlendinga í útgerð og fiskverkun hér og lærðu landsmenn ýmislegt af þeim.
Starfsemi hófst í Landsbanka Íslands en þar leyndust ekki digrir sjóðir og útlánastarfsemi var takmörkuð, takmarkaðist við húsa- og skipakaup. Peningar í umferð voru af skornum skammti, verkalaun voru vöruúttektir, fæði og húsnæði. Menn stunduðu vöruskipti sín í millum, verkafólk var nánast réttindalaust og verkalýðsfélög varla í burðarliðum. Fólki fjölgaði í þéttbýli, kjör voru þar skárri og fjölbreytni meiri.

32546_selflyt

Skollið inn í nútíma

Fyrstu gufuknúnu fiskiskipin voru bresk og birtust á Íslandsmiðum í lok 19. aldar. Fyrstu vélar í íslensk skip voru þó danskir sprengihreyflar, knúnir steinolíu. Útgerðar- og sjómenn fögnuðu mjög og afli stórjókst. Vélknúnir togarar á Íslandi voru tuttugu árið 1917, aukinn afli skapaði fleiri störf og útlutningstekjur jukust. Nú var hægt að leggja hér ritsíma og vegi, byggja brýr og áður en nokkur vissi óku menn á bílum um götur ört stækkandi bæja. Öllu þessu fylgdi aukin fjölbreytni í atvinnu, mann- og félagslífi með kostum þess og göllum.
Hagvöxtur var meiri hér en í Vestur-Evrópulöndum fram að fyrri heimsstyrjöld og úr honum dró þar til kreppan mikla skall á 1929. Þá jókst hagvöxtur meira hér en í nágrannalöndum og til 1938. Að lokinni síðari heimsstyrjöld vorum við í hópi tekjuhæstu þjóða heims en þeim hefur mönnum síðan tekist að misskipta herfilega.

Séreignastefnan íslenska

Margir hafa heyrt sögur af stórfjölskyldum í heilsuspillandi kjallarakytrum höfuðstaðarins á fyrri hluta aldarinnar, braggahverfunum, Höfða og afleiðingum þess alls.
Hugsanlega hafði þessi stórbrotna forsaga áhrif á þá sem tóku ákvörðun um séreignastefnu í húsnæðismálum á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar en gáfu lítið fyrir félagslega eða búsetaréttarstefnu að dæmi frænda okkar á öðrum Norðurlöndunum. Á það jafnt við um stjórnvöld og forkólfa verkalýðsfélaga. Séreignastefnan hafði betur, nú kaupa 90% þjóðarinnar húsnæði af misveikum mætti, 10% eru á leigu- eða búsetamarkaði, félagslegum eða í einkaeign. Verkamannabústaðir risu í Vestur- og Austurbænum, Holtum, Bústaðahverfi og víðar áður en sú byggð fluttist ofar snjólínu. Hver man ekki eftir ættingjum og nágrönnum sem reistu sér hús í Smáíbúðahverfinu og víðar, hver hjálpaði öðrum. Stefna þessi hefur að margra mati reynst stórhættuleg efnahagslega ekki síður en manninum sjálfum og umhverfi hans. Tæknibyltingar, tölvubyltingar og upplýsingabyltingar hafa ekki legið á liði sínu og glittir í vélmennabyltingu við sjóndeildarhring. Hvað verður þá um launþega og séreignir þeirra, hver greiðir skatta, gjöld og afborganir af verðtryggðum lánum?

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.