Gunnar Smári

Einhver þarf að rífa í stýrið

Samkvæmt samantekt sem fjármálaráðuneytið birti loks í vikunni fékk tekjuhæsti fimmtungur þjóðarinnar meira en helminginn af skuldaniðurfærslunni svokölluðu, næstum 40 milljarða króna. Samhliða þessari aðgerð skar ríkisstjórnin niður hið hefðbundna vaxtabótakerfi, eins og bent hefur verið á í Fréttatímanum. Vaxtabætur fólks með meðaltekjur og lægri tekjur voru skertar á sama tíma og niðurfærslan var greidd út. Dæmi eru um að vaxtabætur til fólks með lægri meðaltekjur hafi verið skertar á tveimur til þremur árum um hærri upphæð en nam skuldaniðurfærslunni sem það fékk. Þetta fólk er því jafn sett til skemmri tíma en verr sett til lengri tíma. Hinir tekjuháu eru hins vegar betur settir til skemmri tíma en jafn settir til lengri tíma.

Skoðanakönnun MMR: Ríkisstjórn Bjarna byrjar veikt

Ef marka má skoðanakönnun sem finna má inn á vef MMR án þess að fyrirtækið hafi sent út tilkynningu þar um, byrjar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar í miklum mínus. Könnuninni var lokið 10. janúar, þegar megindrættir stjórnarmyndunarinnar lágu fyrir en daginn áður en ríkisstjórnin tók við. Það er því ekki spurt um afstöðu fólks til stjórnarinnar sjálfrar, en allir stjórnarflokkarnir hafa samkvæmt könnuninni misst fylgi frá kosningum.

Að bera fyrir sig einhvern minnimáttar

Þegar komið hefur til tals að hækka eignarskatta á Íslandi er fljótlega dregin inn í umræðuna mynd af háaldraðri ekkju sem býr ein í stóru einbýlishúsi en hefur engar tekjur til að greiða skattinn. Þegar nefnt er að mögulegt sé að leggja hér á hátekjuskatt eins og tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar er sjómanni stillt fram, ungum fjölskylduföður og húsbyggjanda, sem sleppir frítúrum til að auka tekjur sínar. Þegar bent er á að hér sé fjármagnstekjuskattur fáránlega lágur er dregin upp mynd af öldruðum hjónum sem lifa af eignum sínum en eiga engan lífeyrissjóð. Um leið og einhver krefst þess að veiðileyfagjöld séu hækkuð vegna ógnargróða útgerðarinnar er bent á einn útgerðarmann austur á landi sem nær ekki endum saman. Þegar til stóð að hækka virðisaukaskatt á gistingu upp í efra þrep var teflt fram ímynduðum gistihúsaeigenda sem hefði selt allt gistirými sitt mörg ár fram í tímann.

Veik stjórn með lítinn byr á leið í ólgusjó

Þótt engin ástæða sé til að efast fyrirfram um getu nýrrar ríkisstjórnar verður að segjast að hún leggur ekki af stað með mikinn byr í seglum. Engin ríkisstjórn í lýðveldissögunni hefur verið mynduð með jafn lítið kjörfylgi að baki sér. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja var aðeins 47 prósent. Meirihluti kjósenda kaus aðra flokka. Stuðningur við ríkisstjórnina er auk þess veikur meðal fylgismanna flokkanna. Það á við um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarta framtíð, kannski síður Viðreisn. Það er því ekki hægt að ætla að þessi 47 prósent kjósenda standi heils hugar að baki stjórninni. Og ólíklega vegur stuðningur kjósenda annarra flokka þetta upp.

Skattaparadís varð gryfja skattaundanskota

Ísland gekk einna lengst allra landa í okkar heimshluta í að innleiða skattastefnu í anda nýfrjálshyggjunnar, lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn. Rökin fyrir stefnunni voru að þetta myndi örva efnahagslífið, auka tekjur ríkissjóðs til lengri tíma, draga úr skattaundanskotum og halda fyrirtækjum og fjármagni innan íslenska efnahagskerfisins. Ekkert af þessu gekk eftir.

750 milljarðar færðir til fyrirtækja og fjármagnseigenda

Íslensk stjórnvöld gengu lengst allra stjórnvalda í okkar heimshluta í að fella niður skatta á fyrirtæki og fjármagn. Nýfrjálshyggjan risti hér dýpst og hafði mest áhrif. Ef hér hefði verið rekið sambærilegt skattkerfi og í okkar næstu nágrannalöndum hefði ríkið innheimt 750 milljörðum króna meira í tekjuskatt fyrirtækja og skatt af fjármagnstekjum frá aldamótum og fram til 2015, upphæð sem er á við byggingarkostnað átta nýja Landspítala

Gríðarlegur skattaafsláttur til fjármagnseigenda

Saga Íslands á árunum fyrir Hrun er í raun afsönnun á helstu kenningum nýfrjálshyggjunnar. Kenningin var sú að lægri skattar myndu auka skattheimtu, efla efnahagslífið, draga úr skattaundanskotum og girða fyrir fjárflótta. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra í að lækka skatta á fjármagn varð fjárflótti íslensks auðfólks slíkur á árunum fyrir Hrun að þegar það reið yfir helmingaðist verðgildi íslensku krónunnar með þeim afleiðingum að kaupmáttur almennings stórskaðaðist. Þegar upplýsingar úr Panamaskjölunum lágu fyrir kom í ljós að íslenskir auðmenn voru miklum mun líklegri en auðfólk annarra landa til að fela fé sitt í skattaskjólum og að skattaundanskot var víðtækara vandamál á Íslandi en annars staðar í okkar heimshluta.

20 milljarða skattaafsláttur til fjármagnseigenda

Íslendingar innheimta óvenju lágan fjármagnstekjuskatt, miklum mun lægri en næstu nágrannalönd. Miðað við meðaltal Norðurlandanna innheimtir íslenska ríkið nær því 20 milljörðum króna minna í fjármagnstekjuskatt en hin Norðurlöndin. Það má því segja að Landspítalinn hafi ekki fengið þá aukningu framlaga sem forráðamenn hans báðu um vegna þess að ríkisstjórnin var búin að ráðstafa framlaginu til fjármagnseigenda.

Hátekjuskattur veikur á Íslandi

Íslendingar innheimta lægri hátekjuskatt en flestar nágrannaþjóðir og mun lægri en á hinum Norðurlöndunum. Erfitt er að segja til um hversu miklar tekjur ríkissjóður missir af þessum sökum en óhætt er að fullyrða að það séu nokkrir milljarðar króna.

Sjálfstæðisflokkurinn: Forysta með aðra stefnu en grasrótin

Líklega er helsta ástæða þess að íslenskum stjórnvöldum var ómögulegt að bregðast við fjölgun ferðamanna sú að hæfni þess að hugsa um félagslegar eignir er nánast útdauð úr Sjálfstæðisflokknum. Þessi flokkur hefur undanfarna áratugi talað um einkavæðingu ríkiseigna, hversu hagfelldara það sé fyrir þjóðarbúið að auðlindir sjávar séu í einkaeign fremur en þjóðareign, hversu miklu betur Íslandspóstur muni þjóna samfélaginu ef hann er rekinn sem hlutafélag fremur en opinber stofnun, hversu mikilvægt það sé að auka einkarekstur í heilbrigð- is- og menntageiranum og hvort ekki sé hægt að færa góðan part af uppbyggingu samgangna yfir í einkaframkvæmd. En flokkurinn hefur nánast ekkert rætt um hvernig best sé að halda úti opinberum stofnunum, hvernig best verði farið með almannaeigur og hvernig hlúa beri að náttúruperlum og auðlindum sem eru sameign þjóðarinnar.

Má bjóða þér mannúð eða fasisma?

„Mr Prime Minister, what can you tell me about a company called Wintris?“ Líklega er þetta setning ársins 2016 á Íslandi. Spurningin gerði Sigmund Davíð Gunnlaugsson klumsa og velti honum af stóli forsætisráðherra, hrakti hann út í langdregið pólitískt dauðastríð sem enn stendur.