Deila

Tryllt að smyrja beikon með BBQ-sósu

Þröstur ferðast einn um heiminn og kynnir sér matarmenningu annarra landa. Hann heldur úti bloggsíðunni toddibrasar.com

Þröstur Sigurðsson er sérlegur áhugamaður beikon, hnetusmjör og BBQ-sósu, sem hann segir hina fullkomnu samsetningu. Þann boðskap breiðir hann út á bloggsíðu sinni toddibrasar.com, sem hann hefur haldið úti frá árinu 2012, en hún hefur þroskast og dafnað með árunum, líkt og bragðlaukar eigandans.

„Ég fór ég að ferðast út frá blogginu og kanna matarmenningu í öðrum löndum. Ég fer einn, þvælist um, fer á matreiðslunámskeið og reyni að drekka í mig stemninguna á hverjum stað fyrir sig,“ segir Þröstur sem hefur farið víða á síðustu misserum. Meðal annars til Sikileyjar og Marokkó.

„Það er allt önnur upplifun að ferðast einn. Það var mjög skrýtið fyrst að fara einn á veitingastaði, en maður tengir öðruvísi við fólk. Ég átti einmitt geggjað móment í Marokkó. Ég var orðinn smá þreyttur á kúskúsnum og döðlunum og fann ítalskan veitingastað þar sem eigandinn settist hjá mér og við töluðum saman í tvo tíma um mat. Það eru svona móment sem ég elska.“

Auglýsing

Í fyrstu lagði Þröstur aðal áherslu á að töfra fram ýmsa rétti sem innihéldu beikon, hnetusmjör og bbq-sósu, en það hefur breyst með árunum. „Þegar ég var að byrja þá vildi ég vera svolítið „extreme“ og þess vegna lagði ég áherslu á þetta. Ég elska beikon, elska það. Og það er bara eitthvað við þetta kombó, beikon og hnetusmjör. Fólki finnst það stundum skrýtið en það er ógeðslega gott. Svo uppgötvaði ég hvað það er gott að smyrja beikon með BBQ-sósu áður en ég baka það. Það kemur eitthvað tryllt bragð,“ segir Þröstur og blaðamaður heyrir að hann fær vatn í munninn við tilhugsunina. „En eftir að ég fór að ferðast þá fór ég að kunna betur að meta grænmetisrétti og ýmislegt fleira. Pallettan þróast,“ bætir hann kíminn við

Þröstur hefur lagt mikið upp úr því að vera óháður á blogginu og birtir ekki kostaðarfærslur. „Það er prinsipp mál fyrir mig að taka ekki þátt í því. Ég vil geta sagt fólki að ég fíli ákveðna vöru og þá veit fólk að það er frá mér komið. Stíllinn minn er mjög persónulegur og þannig vil ég hafa það.“

Í apríl stendur svo til að taka upp prufu sjónvarpsþátt þar sem Þröstur brasar eitthvað í eldhúsinu. „Sá sem átti hugmyndina að þessu er kvikmyndagerðarmaður sem vantaði forrit í fyrir brúðkaupið sitt. Ég gerði það fyrir hann og hann borgar mér til baka með því að gera „pilot“ þátt. Ég elska allt sem er svona skemmtilegt, skrýtið og öðruvísi.“

 

 

Fréttatíminn fékk Þröst til að deila tveimur uppskriftum:

32572 - beikondöðlur

Beikonvafðar döðlur

Beikonvafðar döðlur eru alltaf vinsælar: Ég hef gert nokkrar útfærslur af þessu og fyllt döðlurnar til dæmis með hnetusmjöri, sætu sinnepi, gráðaosti, möndlum, möguleikarnir eru endalausir.

Beikondöðlur eru klassískt partítrix, auðvelt að gera, smá föndur, sætar, stökkar, beikon, eintóm hamingja. Mér finnst yfirleitt betra að nota ferskar döðlur en þurrkaðar sleppa. Beikonsneið er skorin í þrjá bita, einn biti á hverja döðlu, vafinn utan um. Sriracha sósunni er gluðað yfir og svo svona fyrir „extra delicacy“ set ég sesamfræ. Valhnetur ganga líka vel með þessu. Bakað í ofni á 200°C í ca. 25 mínútur eða þangað til ykkar litur á beikoninu nær í gegn.
32572 - samloka tilbúin

Elvis samlokan
Ein vinsælasta færslan á bloggsíðunni er Elvis samlokan. Þar set ég hnetusmjör og banana í samloku sem ég smyr með sweet chilli sósu og vef svo í beikonteppi, alveg svaðalega gott en maður höndlar ekki mikið af svona mat.

Innihald:
Múslí-brauð frá Jóa Fel
Reese‘s creamy hnetusmjör
Beikon
Sweet chilli sósa
Svartur pipar

Múslí-brauðið frá Jóa Fel er yfirleitt hlaðið rúsínum og grófu korni og mér finnst það best þegar það er örlítið brennt. Þetta Reese‘s hnetusmjör er algjör unaður, það er að vísu sætara en maður á að venjast það gerir það einmitt fullkomið í svona eldamennsku.

Aðferð:

Ég smyr góðri slummu af hnetusmjöri á sitt hvora brauðsneiðina, sker svo banana í báta og set ofan á. Síðan flétta ég beikonteppi, já BEIKONTEPPI, smyr sweet chilli sósu á samlokuna og vef svo teppinu utan um. Svartur pipar yfir og svo þarf bara að passa að þetta fái næga og jafna eldun. Ég vil að beikonið sé stökkt og að hnetusmjörið sé farið að leka, það er gott að þrýsta vel niður á samlokuna með spaða á meðan hún er að steikjast.

32572 - beikonteppi 32572 - samloka

 

 

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.