Fréttatíminn

image description
18.05 2012

Draumar og þrár Dorritar

Dorrit Moussaieff
Dorrit Moussaieff

Haustveður á nýbyrjuðu sumri. Dorrit Moussaieff hálffýkur á milli heimilis síns og Bessastaðastofu á Bessastöðum með hundinn Sám á undan sér. Hárið sveiflast um og hún stingur glæsilegum, þykkbotna, hlébarðasmynstruðu, háhæluðum skónum fimlega niður í rokinu. Farmers Market-sjalið sveiflast um hana. Aðeins örfáum dögum áður sást hún koma ríðandi á íslenskum hesti inn í sjónvarpssal í vinsælum þætti vinkonu sinnar, sjónvarpsstjörnunnar og kaupsýslukonunnar Mörthu Stewart.

„Ég sagði við Mörthu: Hvers vegna ekki að gera kynningarþátt um heilt land! Það hefur aldrei verið gert. Og hún keypti hugmyndina,“ segir Dorrit eftir að hafa hreiðrað um sig í stól við enda fundarborðs á skrifstofu forsetans til hliðar við móttökusalinn. Hún leggur svartan iPad-inn sem hún hélt á frá sér á borðið og biður ráðsmanninn að færa sér te og tómata en blaðamaður þiggur kaffi.

„Við Martha höfðum rætt um að gera innslag fyrir löngu. Við ætluðum að gera þetta fyrir tæpum fimm árum þegar hún kom og heimsótti okkur Ólaf. En ég var gagnrýnd svo fyrir að hafa hana hér að ég var beðin um að fórna þættinum, sem var mikil synd,“ segir hún um þessa vinkonu sína sem þá aðeins örfáum árum áður hafði verið dæmd í fangelsi fyrir innherjaviðskipti.

Sama um gagnrýnisraddir
Kynningin sem Ísland fékk var framúrskarandi; 225 þúsund sáu landið lofað og þó nokkur fyrirtæki voru dregin fram í bandaríska kastljósið: Egils gull bjórinn fyrir að vera sá besti, Saltverk fyrir hreint og snjóhvítt salt sitt og framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins á bakvið EGF dropanna var fenginn til að lýsa virkni þeirra, svo dæmi séu tekin, en Dorrit hefur dásamað dropana í fjölmörgum viðtölum víða um heim.

„Þegar við svo ákváðum að ráðast í þáttagerðina var mér sama um alla þá gagnrýni sem ég gæti hugsanlega fengið. Það var ekki útlit fyrir að Ólafur yrði áfram forseti. Hann ætlaði að hætta. Ég vildi gera þetta á þann hátt sem ég taldi koma best út fyrir Ísland,“ segir Dorrit. Spurð hvort hún hafi oft þurft að fórna hugmyndum sínum vegna stöðu sinnar svarar hún neitandi.

„Nei, ekki lengur. Fyrstu fjögur árin voru hamlandi fyrir mig. Þá var ég einnig að sinna eigin fyrirtæki og ferðaðist fram og til baka frá Lundúnum í hverri viku. Það þýddi að í hvorugu hlutverkinu gat ég gert mitt besta. Ég fann mig ekki og vissi ekki til hvers var ætlast af mér, hvað ég mætti eða vildi gera í hlutverki mínu (sem forsetafrú),“ segir hún og kreistir sítrónusafa ofan í tebollann sinn. Það er ekki annað hægt en að dást að þessari konu, sem hefur gert íslensku lopapeysuna að hátískuvöru.

„Ég tel að engin hefði tekið þetta hlutverk í þá átt sem ég hef gert. En þar sem ég hef verið alin upp við að selja og markaðssetja hefur það hentað mér að nýta þá krafta hér. Ég kann í rauninni ekkert annað. Eins skrítið og það hljómar, þá finnst mér sem ég hafi lært allt annað sem ég kann hér á landi,“ segir Dorrit þegar hún ræðir hlutverk sitt á Bessastöðum.

Beitir sér á meðan Ólafur er forseti
Dorrit hefur í gegnum árin verið þekkt fyrir að vinna ötullega með íslenskum hönnuðum og litlum sprotafyrirtækjum sem vinna með afurðir landsins. En hvað ætlar hún að gera nái Ólafur ekki kjöri?

„Ég veit það ekki. Ég hreinlega veit það ekki. Ég tel þó að verði hann áfram á forsetastóli gefi ég starf mitt hjá fjölskyldufyrirtæki mínu algjörlega upp á bátinn. Þetta er svo miklu mikilvægara. Ég setti starf mitt þar í biðstöðu og hafði alltaf hugsað mér að sinna því síðar, þegar Ólafur yfirgæfi Bessastaði. En þetta fer allt eftir því hver verður hér á Bessastöðum. Í það minnsta veit ég að það verður erfitt fyrir mig að halda áfram á þessari braut sem ég er á, (verði annar kosinn forseti) því fólk mun hugsanlega túlka það sem svo að ég gefi nýjum forseta ekki grið.“

Dorrit Moussaieff er 62 ára gömul. Hún er stórglæsileg og spurð um útlitið stendur ekki á svari. Það sé þetta frábæra, íslenska umhverfi. Hún brosir og segist alltaf hafa hugað að mataræði sínu. „Ég hef aldrei reykt, borða ekki mikið hveiti og ekki mikinn sykur. Ég hef alltaf hugsað um það sem ég set ofan í mig. Þannig líður mér betur. En ég borða sykur þegar ég er í vondu skapi og get þá ekki rennt buxunum upp næsta dag,“ segir hún og hlær.

„Ég æfi á hverjum degi, eins og Ólafur. Hann fer með hundinn okkar Sám út í göngu á hverjum degi. Ég fer í jóga, stunda Pilates og teygi. Það er mikilvægt. Þetta veit ég því fyrir nokkrum árum fótbrotnaði ég illa á skíðum. Ég kom hingað heim til Íslands og er sannfærð um að ég hafi náð mér svo vel vegna lífsgæðanna hérna heima; góður matur, loft, vatn og færir læknar.“ Fjölmörg bein Dorritar brotnuðu í þessari örlagaríku skíðaferð til Aspen í Bandaríkjunum í mars árið 2007 og metur hún það sem svo að hún hafi náð um 90 prósent af fyrri styrk eftir slysið.

Sögð heimsk og rekin úr skóla
Ólíkt þjóðinni, sem rígheldur í nokkur handrit og Íslendingasögur til sönnunar þess að hún eigi sér merka fortíð má lesa um Dorrit að rekja megi ættir forfeðra hennar til Úzbekistan. Hún er fædd í Jerúsalem þegar tuttugasta öldin var hálfnuð og fólk streymdi þangað í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar. Hún er dóttir skartgripasalans og milljarðamæringsins Schlomo Moussaieff og hinnar austurrísku Alisu – sem bæði koma enn að fjölskyldufyrirtækinu þótt á níræðisaldri séu og rekur móðir hennar fjölskyldufyrirtækið burðuga ásamt systur hennar.

Fjölskylda hennar er fjáð langt aftur í ættir, þótt faðir hennar og móðir hafi byggt sjálf upp auð sinn. Langafi hennar var einnig kaupmaður, bjó í Jerúsalem og var einn stofnenda Bukharim hverfisins þar árið 1891. Fyrstu þrettán árin bjó hún í Ísrael en fluttist þá til Bretlandseyja. Þótt fjölskyldan hafi staðið vel lenti Dorrit snemma á vegg. Henni var svo gott sem vikið úr skóla vegna lesblindu.

„Hringt var í föður minn úr skólanum þegar ég var sex ára. Kennarinn sagði pabba að hann ætti mjög heimska dóttur sem truflaði kennsluna. Vinsamlegast ekki senda hana aftur í skólann. Pabbi sagði, ók. Ég var sátt, því ég vildi ekkert endilega fara aftur í skólann og var svo lánsöm að hann kenndi mér sjálfur og svo fékk ég einkakennslu heima. Við vorum svo lánsöm að hafa efni á því.“

Hafði ekki áhrif á sjálfstraustið
Hún segir föður sinn hafa sýnt sér mikinn skilning. „Algjörlega, enda hafði hann sjálfur upplifað það sem ég gekk í gegnum. En þetta fólk skildi þetta ekki.“ Dorrit segir viðmót kennarans ekki hafa haft mikil áhrif á sig. „Það hefði hugsanlega getað haft meiri áhrif á mig, en pabbi sagði: Veistu, Dorrit: Það eru ekki allir kennarar klárir. Hafðu ekki áhyggjur af þessu. Og eins skrýtið og það hljómar þá hafði þetta heldur ekki áhrif á sjálfstraust mitt. Hugsanlega í stuttan tíma en þá ekki orðin sem kennarinn hafði um mig heldur frekar sú staðreynd að ég var upp frá því lítið í kringum önnur börn og gat ekki lesið og skrifað á við þau. En ég var betri í sundi og gat gert aðra hluti sem vógu upp á móti því.“

Dorrit hefur ekki farið leynt með lesblindu sína, sem faðir hennar glímir einnig við og önnur systra hennar. Nú nýlega var einnig sagt frá því að hún hefði greinst með ofvirkni- og athyglisbrest, ADHD. „Það er ein helsta ástæða þess að mér hefur ekki gengið eins vel að læra íslensku og ég vildi. Ég var viss um að ég yrði fljót að læra tungumálið. Ég áttaði mig ekki á því í fyrstu hversu erfitt tungumálið er, en ég átti í erfiðleikum með að setjast niður og læra það. Ég bara get það ekki. Ég les eina setningu og hún hverfur úr minni mínu. Ég hef reynt rítalín, ég hef reynt allt. En það virðist ekki virka. Kostirnir eru færri en gallarnir.“

Athyglisbrestur háði henni
Spurð hvers vegna hún sóttist eftir því að fá greiningu og hvort röskunin hafi komið henni á óvart svarar hún neitandi. „Það var ekki það að ég vildi fá staðfest að ég væri með ADHD heldur fannst mér þessi röskun há mér og ég vildi ná tökum á henni. Ég hef alltaf vitað að ég væri með ADHD og hef í gegnum tíðina haft mikinn stuðning og stuðningskerfi í rekstri mínum. En hér hafði ég ekki þennan stuðning,“ segir hún.

„Fólk skyldi ekki af hverju ég spurði þrisvar sömu spurningarinnar. Það sendi mér skilaboð sem ég kannaðist ekkert við að hafa fengið. Ég lagði eitthvað frá mér og mundi ekkert tveimur mínútum seinna hvar og áður en ég tók fleiri verkefni að mér hér hjá forsetaembættinu hafði ég hugsanlega tvíbókað mig. Svo ég hugsaði sem svo að ég yrði að sækja mér meiri þekkingu, svo ég gæti starfað betur án stuðningskerfisins.“

En hafði þetta áhrif á samband ykkar Ólafs? „Já, auðvitað. Ég var alltaf að týna hlutum. Það gat ekki annað en reynt á taugarnar hjá honum. En þar sem hann er svo sveigjanlegur veit hann hvernig rétt er að taka á þessum vanda. Rétt eins og ég veit að þegar við komum heim úr verkefnum kýs hann að setjast við tölvuna til að ræða við menn í Bandaríkjunum – vegna tímamismunarins – á meðan ég bíð eftir knúsinu,“ segir hún og hlær.

En pirraði þetta hann? „Já, mjög enda skipulagður maður. En hann las sig til og skilur nú málið fullkomlega.“

Giftist átján ára og stofnaði fyrirtæki
Dorrit segir þó þessa röskun ekkert hafa með það að gera að hún hafi ekki eignast börn. „Nei, hún hafði áhrif á menntun mína. Ég hefði að sjálfsögðu sótt mér háskólamenntun hefði ég getað. Líf mitt hefði örugglega orðið allt annað, því vegna röskunarinnar fór ég að vinna frá unga aldri. Ég hefði alveg viljað vera betri í skrift. En réttritunarforrit auðvelda mér skrift í dag. En það er þó stundum þannig að forritið þekkir ekki orðin mín.“

En hvers vegna ákvaðstu að eignast engin börn? „Jú, ég giftist fyrri manni mínum ung,“ svarar Dorrit. „Ég var ákveðin í að stofna eigið fyrirtæki. Þarna átján ára sagði ég skilið við fyrirtæki fjölskyldunnar og stofnaði mitt eigið, sem gekk vel. Ég þurfti ekki að eignast börn svo ung þótt móðir mín eignaðist mig tvítug – ég gat beðið. Ég vissi að ég gæti ekki sinnt barnauppeldi og fyrirtækjarekstri fullkomlega og vildi ekki slá af kröfunum. Svo ég frestaði barneignum,“ segir Dorrit sem er í litlu sambandi við þennan fyrrum eiginmann sinn.

En strukuð þið til þess að giftast? „Nei, við höfðum þegar hafið sambúð. Ég verð að viðurkenna að flest sem skrifað hefur verið um mig í ensku pressunni er ekki rétt. En þetta er rétt. Foreldrar mínir lásu um hjónabandið í slúðurdálkum pressunnar,“ segir hún.

Missti kærasta úr krabbameini
„Svo þegar reksturinn gekk vel skildum við eiginmaður minn. Hann fékk fyrirtækið og ég sneri til foreldra minna og fyrirtækis þeirra,“ segir hún og sýtir að þetta fyrrum fyrirtæki hennar hafi orðið gjaldþrota í höndum fyrri eiginmannsins, enda hafi hann verið fíkinn í spil. Spurð hvort hún hafi þess vegna ákveðið að skilja við hann segir hún það ekki hafa verið svo að annað þeirra hafi hafnað hinu.

„Þetta hjónaband komst bara á endastöð. Hvorugt okkar tók af skarið til að slíta því. Hann lifði á nóttunni. Ég á daginn. Hann gerði það sem hann gerði á nóttunni. Ég var upptekin við vinnuna.“

Dorrit segir að á þessum tíma hafi barneignir ekki komið til greina, enda viðhorfið ekki eins frjálslegt og hér á Íslandi. „Eftir fyrsta hjónabandið átti ég í tveimur alvarlegum ástarsamböndum. Annar var fráskilinn en átti þegar tvö börn. Hann hins vegar veiktist og dó úr nýrnakrabbameini þegar við vorum saman. En þessi síðari kærasti minn átti nú ekki börn en varð einnig mjög veikur og lést síðar úr krabbameini í blöðruhálskirtli. En það var eftir að sambandinu lauk,“ segir hún og bætir við að hún sakni þeirra.

„Ég á þrjá karlkyns vini sem hafa látist fyrir aldur fram úr sjúkdómum. Allir höfðu þeir efni á að sækja sér bestu mögulegu læknisþjónustu,“ segir hún, en samt fór sem fór.

Engin eftirsjá af barnleysinu
En Dorrit sér ekki eftir því að hafa ekki eignast börn. „Nei, ég á mína fjölskyldu. Ég á mín barnabörn; heilan ættbálk með Ólafi,“ segir hún.
„Ég hélt á tvíburunum [hennar Tinnu dóttur Ólafs] núna um helgina. Það eru ekki allir svona heppnir. Hefði ég haft val um að eiga börn á Íslandi, þar sem svo miklu auðveldara er að sjá um þau, hefði staðan hugsanlega orðið önnur,“ segir hún. „En ég dvel ekki löngum stundum við það sem ég hef ekki gert. Mér fellur betur að horfa í þá hluti sem ég er að gera og ætla að gera.“

Níu ára hjónaband að baki og íslenskur ríkisborgari í sex ár. Dorrit verður hugsi spurð um það hvernig líf hennar breyttist við að kynnast Ólafi. Hún viðurkennir að með honum hafi hún farið í allt aðra átt en áður. „Ég hafði aldrei átt kærasta í líkingu við hann. Helstu kærastarnir voru mjög ólíkir honum. Einn var framleiðandi í Los Angeles, annar amerískur, farsæll kaupsýslumaður og ég skildi ekkert í því um hvað þetta forsetastarf snerist. Það tók mig langan tíma að átta mig á því að þú gerir úr því það sem þú vilt.“ En embættinu fylgir ekki mikið fé, skýtur blaðamaður inn í.

„Ég er mjög lánsöm að ég hafði unnið allt mitt líf og aflað fjár. Hefði ég ekki gert það hefði þetta líf verið erfitt fyrir mig, því þarna þurfti ég að fara fram og til baka til London. Og ég veit að það hljómar skringilega en peningar fyrir mér eru ekki svo mikilvægir. Heldur það hvað þú gerir við þá og hvernig þú eyðir þeim. Hvernig þú sparar. Það er hið mikilvæga,“ segir Dorrit.

„En Ólafur er mikill karakter. Hann vann sleitulaust og ég velti því fyrir mér hvers vegna hinir, sem unnu ekki nálægt því eins baki brotnu, höfðu miklu meira fé milli handanna. En það skipti mig engu máli. Strax í upphafi féll ég fyrir landinu. Ég féll fyrir vatninu, hreina loftinu og hugmyndinni um að þegar ég týni símanum mínum er hann fundinn innan tíu mínútna og kominn í mínar hendur. Og ekki gleyma að þegar ég kom hingað þekkti mig enginn. Enginn bjóst við neinu af mér eða krafðist neins. En, það er erfitt að segja, þar sem ég hélt bara lífi mínu áfram breyttist það í raun ekki stórkostlega, enda hafði ég farið í svo margar áttir. Verð þó að segja að veðrið heillaði mig ekki til að byrja með,“ segir hún sposk.

Ástfangin af Ólafi og Sámi
En voruð þið ástfangin?. „Já,“ hrópar Dorrit upp. „Og nú hef ég fleira til að elska. Við eigum hundinn Sám og ég elska Ísland; sem ég féll fyrir strax í upphafi,“ segir hún.

Eitt af því sem þau Dorrit og Ólafur eiga sameiginlegt er vinnusemin. „Já, og hann er alltaf að hugsa, lesa og skrifa. Orka hans virðist án takmarkana. Við komum á miðnætti heim frá einhverju og hann er tilbúinn að fara að vinna. Eftir stend ég of þreytt til að skríða upp í rúm. Ég skil þetta ekki. Og ég sem hélt að ég væri svo orkumikil.“

Hún segir sveigjanleika einmitt einn helsta kostinn sem forseti þurfi að hafa og Ólafur búi yfir honum. „Eina mínútuna gerir hann eitt og þá næstu annað. Eina stundina talar hann um loftslagsbreytingar og þá næstu við Kínverja um mannréttindi. Tíu mínútum seinna talar hann við einhvern sem vill opna gagnaver hér á landi. Þetta eru ólík viðfangsefni.“

Spurð hvort hún fylgi þessum verkefnum hans eftir svarar hún neitandi. „Nei, yfirleitt ekki. Flest af þessu höfðar ekki til mín. Og það minnir mig á heimilishætti ömmu og afa, þar sem við bjuggum þegar ég var lítil – svona á árunum 1955 til 1956 í Ísrael: Fólk streymdi að úr ólíkum áttum til Ísraels og fundaði í húsi þeirra. Afi stjórnaði umræðunum en amma sá um að 24 stundir sólarhringsins væri matur á borðum. Fólk var velkomið.“

Lítið fyrir kóngaveislur
En Dorrit: Illar tungur hafa sagt að þú værir komin hingað fyrir forsetafrúartitilinn og skemmtilegar kóngaveislur. Særir það þig að heyra svona fullyrðingar? „Mér gæti ekki staðið meira á saman,“ segir hún og lætur sér ekki bregða.

„Ég hafði hitt marga konungborna áður við Ólafur kynntumst. Þegar Ólafur bað mig fyrst um að giftast sér var það eina sem ég sagði að ég myndi giftast honum þegar hann væri ekki lengur forseti. Hann varð órólegur. Ég er ekkert yfir mig hrifin af veislum kóngafólksins; allur þessi undirbúningur. Ég þekkti prinsessuna af Wales löngu áður en ég kynntist Ólafi. Faðir minn, afi og langafi hafa selt konungbornum allt sitt líf. Það er líklega ein ástæða þess að ég vildi í fyrstu ekki giftast Ólafi. Ég vildi ekki vera í þessu andrúmslofti. Ég vildi ekki hafa skyldur á herðum mínum.“

En finnur þú fyrir menningarmun á milli ykkar Ólafs? „Auðvitað. Ef ég verð reið, æpi ég og öskra. Hendi jafnvel einhverju, gleymi því svo strax og faðma og kyssi. En Ólafur ræðir ekki vandamál. Enda held ég að norrænt fólk sé oft þögult um vandann. En það er þó að breytast. Nú sé ég fólk faðmast og kyssast meira en áður. Ólafur kunni ekki að faðma á meðan ég faðmaði alla. Það er stór menningarmunur. Mér finnst það ekki skipta máli, því það var líka mikill menningarmunur milli foreldra minna og þau hafa verið hamingjusamlega gift í 64 ár. Þetta snýst um sveigjanleika og að laga sig aðstæðunum sem maður er í hverju sinni og að gera það besta úr hlutunum. Þetta lærði ég af foreldrum mínum og föðurforeldrum. Þau hafa farið í gegnum mörg stríð en einnig upplifað góða tíma.“

Framtíðin í höndum þjóðarinnar
Og Dorrit sér fram á spennandi tíma, þótt hún viti ekki hvort hún verji þeim á Bessastöðum. Hún setur stefnuna á kynningarstörf fyrir Íslands hönd verði hún áfram þar en að koma sér fyrir á Sámsstöðum í Mosfellsbæ, býlinu sem þau Ólafur keyptu ekki fyrir löngu, nái hann ekki þessu markmiði sínu. Þar ætlar hún að rækta sitt grænmeti og njóta lífsins. Hún lætur þjóðinni eftir að ráða því hvort hlutverkið verður ofaná.

„Það virkar ekki að skipuleggja langt fram í tímann. Ég hefði ekki séð fyrir í mínum villtustu plönum að ég myndi kynnast þessum manni, þessum víkingi frá þessu kalda og vindasama landi. Það er því enginn tilgangur í því að gera áætlanir,“ segir Dorrit spurð um áætlanir sínar.

Þýðir þá ekkert að spyrja þig hvar þú sérð sjálfa þig eftir tíu ár? „Nei, alls ekki,“ segir hún glaðlega. „Ég sé auðvitað fyrir mér að eiga ennþá Sámsstaði, en hver veit hvað ég mun gera? Það getur tíminn einn leitt í ljós.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
gag@frettatiminn.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka

Kaupstaður