Fréttatíminn

image description
20.04 2012

Fitness er hálfgerð manía og geðveiki

Íris Edda er nýkomin úr myndatöku hjá Arnold Björnssyni sem sérhæfir sig meðal annars í fitness-tökum og Íris Edda segist ekki geta neitað þ
Íris Edda er nýkomin úr myndatöku hjá Arnold Björnssyni sem sérhæfir sig meðal annars í fitness-tökum og Íris Edda segist ekki geta neitað þ

Íris Edda Heimisdóttir var ein fremsta sundkona Íslands í kringum aldamótin og keppti tvisvar á Ólympíleikunum. Hún hætti að synda fyrir nokkrum árum og er komin á fullt í fitness. Hún segir ákafann í æfingunum jaðra við geðveiki og hefur skilning á þeirri hörðu umræðu sem komin er upp um sportið og viðurkennir fúslega að fitnessið sé mjög útlitsmiðað og þar sé hiklaust gert út á kynþokka.

„Ég hafði verið í sundinu eins lengi og ég mundi eftir mér en hætti endanlega að æfa þegar ég var 22 ára,“ segir Íris Edda og bætir við að sundið sé án efa besta líkamsrækt sem hægt sé að stunda. „Þetta er alhliða hreyfing og sundæfingunum fylgdu náttúrlega lyftingar og alls konar þrekæfingar þannig að ég hef ofboðslega góðan grunn úr sundinu fyrir það sem ég er að gera núna.“ Íris Edda er 28 ára og hætti endanlega í sundinu fyrir sex árum en þá hafði hún keppt á Ólympíleikunum í tvígang fyrir Íslands hönd og var tvítug þegar hún mætti til leiks í annað sinn.

„Þegar maður er komin svona á kaf í eitthvað þá er erfitt að hætta og þá finnur maður sér eitthvað annað í staðinn. Ég hélt bara áfram í ræktinni og hélt mér í formi.“ Árið 2009 útskrifaðist Íris Edda síðan sem einkaþjálfari frá Keili og í kjölfarið sneri hún sér að fitness-inu.

Íris Edda hefur keppt í tvígang í módel fitness. Nú síðast um páskana en hún þarf stundum að hafa hemil á keppnisskapinu sem er henni í blóð borið. „Keppnisskapið úr sundinu hjálpar alveg helling en það getur líka verið svolítið öfgafult og núna æfi ég alveg einu sinni til tvisvar á dag þótt ég sé ekki að fara að keppa aftur fyrr en í nóvember. Maður er grimmur í þessu og ég er strax farin að vinna í því sem ég veit að ég þarf að laga og bæta,“ segir Íris Edda sem hefur fullan hug á að keppa á mótum í útlöndum ef vel gengur hér heima.

Fitness hefur verið í brennidepli síðustu daga og töluvert deilt um alvarlegar líkamlegar afleiðingar þessarar krefjandi greinar og Íris Edda hefur skilning á umræðunni. „Þetta er náttúrlega ofboðslega umdeilt. Umræðan hefur verið hörð upp á síðkastið og mikil gagnrýni í gangi. Auðvitað verður að segjast eins og er að það er gengið rosalega á líkamann í þessu og sérstaklega í niðurskurðinum sem byrjar allt að tíu til tólf vikum fyrir mót. Þetta jaðrar við að vera ekki heilbrigt. Það má bara segja það hreint út. Þetta er manía og hálfgerð geðveiki,“ segir Íris Edda.

„Það er gengið rosalega á líkamann og burði hans. Fituprósentur og allt þetta. Blæðingar hætta jafnvel og tíðarhringurinn fer alveg í klessu. Ég hef ekki ennþá farið á blæðingar frá því ég byrjaði á niðurskurðinum í janúar. Þetta er samt bara líkamsrækt eins og hvað annað en getur farið út í öfgar eins og allt annað. Rosalega stutt í öfgar í öllu og þær eru alltaf að aukast. Mér finnst þurfa að huga betur að fitness sem keppnisgrein hvað varðar notkun ólöglegra lyfja og annað slíkt. Það þarf að fylgjast betur með þessu.“


toti@frettatiminn.is

Til baka

Kaupstaður