Fréttatíminn

image description
05.04 2012

Konsúll á lystisnekkju í Hong Kong

Draumalíf. Það er ekki hægt að segja annað en að Hulda Þórey Garðarsdóttir og Steindór Sigurgeirsson hafi skapað sér og börnum sínum fjórum óhefðbundna umgjörð um sitt daglega amstur. Reyndar má frekar segja að þau hafi bolað hversdagslífinu burt og breytt því í stöðugt ævintýri. Þau Hulda, Steindór, Starri (15 ára), Freyja (14 ára), Saga (þriggja) og Vaka (eins ár) búa á 23 metra langri tvíbytnu í Pak Sha Wan flóa í austurhluta Hong Kong. Í bátnum hefur fjölskyldan búið í þrjú ár af þeim ellefu árum sem hún hefur dvalið þarna ytra. Þótt Steindór sé nú meira sem gestur hjá eigin fjölskyldu, enda alltaf með annan fótinn hér á klakanum, þar sem þau halda því einnig heimili. Hulda er nýjasti ræðismaður Íslands, ein af fáum konum sem gegna því hlutverki. Hún er konsúll Íslendinga í Hong Kong og Macau.

Uppalin á Kópaskeri og býr í Hong Kong. Hver hefði trúað því? „Ég fór meira og minna að heiman þrettán, fjórtán ára gömul í alls konar vistir. Fyrst í sveit, svo heimavist að Lundi í Öxarfirði og Laugaskóla og svo í Menntaskólann við Hamrahlíð. En ég var alltaf hjá mömmu og pabba með annan fótinn.“ Hún kaus hjúkrunarnám við Háskólanum á Akureyri, vann í tvö ár og sérmenntaði sig svo sem ljósmóðir. Við útskrift var hún flogin út.

„Steindór maðurinn minn sá möguleikann í því að vinna í Kína. Hann var á þessum tíma að vinna fyrir Sæplast og vildi vera nær þeim markaði sem hann sá möguleika á. Hann opnaði skrifstofuna sjálfur og byggði upp og stýrði í nokkur ár þar til Bjarki bróðir minn tók við taumunum.“

Og þannig er það. Hulda er umvafin fjölskyldu sinni í þessu ríflega sjö milljóna manna sjálfsstjórnarhéraði í Kína. Nú síðast flutti faðir hennar, Garðar Eggertsson, út á eftir þeim Steindóri. Yngri systir hennar, Rebekka Kristín, og bróðir, Bjarki, höfðu fyrr fylgt í fótspor þeirra. Samtals eru þau fjórtán af tæplega fimmtíu Íslendingum sem búa í borginni um þessar mundir. Yngsta systirin, Petra, býr svo í Danmörku og móðir hennar, Iðunn Antonsdóttir, er því ein bundin skerinu; ekki Kópaskeri þó, heldur Íslandi.

Ætlar að opna fæðingarheimili

Hulda segir draum um líf í Hong Kong hafa verið fjarri á uppvaxtarárunum. „Ég ætlaði að vera tamningamaður – temja hesta,“ segir hún hressilega. Sældarlífið snýst þó ekki um að sötra kokteil með sólina í andlitinu á snekkju í Asíu. Auk þess að vera fjögurra barna móðir og konsúll á hún og rekur fæðingarþjónustuna Annerley, ásamt mágkonu sinni, Kristrúnu Lind Birgisdóttur.

Kristrún fjárfesti nýlega í fyrirtæki Huldu. Hún er ekki aðeins hennar hægri hönd í fyrirtækinu heldur ætla þær að dreifa álaginu af störfum konsúls sín á milli og nýta starfsmenn fyrirtækis síns í þágu þeirra sem til þeirra leita þegar á þarf að halda. Þá verður Rebekka þeim innan handar þegar leita þarf að vinnu fyrir nýflutta Íslendinga.

Fyrir Huldu er þetta svo sem ekkert nýtt verklag sem þarf að hrinda í framkvæmd. Þau hjónin hafa hjálpað mörgum sem sest hafa að í Hong Kong og heimili þeirra oft verið sem gistiheimili. „Við Steindór höfum staðið í alls konar reddingum. Fólk hefur leitaði til okkar og eftir því sem ég hef verið hér lengur hefur tengslanetið vaxið.“ Hún segir að þegar skorað hafi verið á hana að sækjast eftir starfinu hafi hún meðal annars hugsað hvað sér hafi fundist tengslanet sitt vera vannýtt og því slegið til; enda kostirnir ekki þeir einu að fá að hitta fólk og aðstoða.

„Að vera konsúll er heiðursnafnbót og hjálpar mér í karlaveldinu hér. Ég vinn mikið frumkvöðlastarf í kringum fæðingar og er ásamt mágkonu minni að beita mér fyrir því að hér verði sett löggjöf um heimafæðingar og á fæðingarheimilum. Þegar það tekst ætlum við að setja upp fæðingarheimili. Allt þetta krefst þess að maður sanni sig og ég get sagt að svona nafnbót hjálpar heilmikið til,“ segir hún.

Ætla að breyta lögum í Hong Kong

„Við Kristrún erum komnar langa leið en það vantar þessa löggjöf og enginn veit hvar hún á að eiga heima innan lagarammans. Okkur var upphaflega sagt að það tæki sjö ár að ná þessari breytingu í gegn, en við stefnum á að gera þetta á rúmu hálfu ári. Við teljum að það sé raunhæft,“ segir Hulda og hlær. Hún hefur bæði miðlað af reynslu sinni og kennt í háskóla þarna ytra og þjálfað starfsfólk á ríkisspítölum svo konur geti upplifað ánægjulegri fæðingar. „Æfingaboltar til stuðnings, fæðingar á hnjánum og standandi voru óhugsandi hér áður,“ segir hún, en slíkt sé nú að ryðja sér til rúms innan spítalanna.

„Við þurfum stöðugt að minna konurnar á að biðja um það sem er í boði. Þetta er því smámsaman að breytast,“ segir hún og að áhuginn innan einkareknu spítalanna sé minni en á ríkisspítölum og erfiðar að breyta viðhorfum til fæðinga þar.

„Í einkageiranum hér, eins og all staðar annars staðar í heiminum, er mikið um inngrip í fæðingar, því það kostar meira, tekur styttri tíma og þjónar hagsmunum spítala og lækna. En á ríkisspítölunum er, eins og heima, hvatt til eðlilegra fæðinga. En það sem vantar upp á þar er umhverfið, þar er ekki notalegt.“

Fæðingarheimili þeirra eigi því eftir að koma mörgum vel og margt verði í boði sem sé ekki á ríkisspítölunum eða þeim einkareknu. „Laugar, nálarstungur, nuddþjónusta og nærþjónusta fyrir alla – sem þýðir að feður og systkin get þá í fyrsta sinn tekið þátt í fæðingunum og fyrstu stundum barnsins.“ 

Öldurnar vagga henni í svefn

Það er komið kvöld þegar Hulda ræðir við Fréttatímann. Hún er sest um borð og horfir yfir flóann. „Við höfum það ósköp gott. Hér er lífið afslappað, notalegt og rólegt. Við búum á þessum báti sem er ágætis heimili. Við vitum aldrei í hvaða átt við snúum þegar við vöknum á morgnanna. Við erum frjáls og ekki bundin rútínu annarra. Það hefur alltaf komið sér vel fyrir okkur. Við erum svolítið ó-vanaföst,“ segir hún.

„Við keyptum þennan bát og byggðum og innréttuðum eins og okkar þóknaðist. Þetta var eins og að búa í Reykjavík og eiga sumarbústað upp í Mosfellsbæ. Við vorum hér allar helgar. Við vorum stöðugt að flytja á milli mat og sængurföt. Þetta er dýr og flottur bátur og okkur fannst synd að nota hann ekki meira. Þegar við svo eignuðumst þriðja barnið okkar var ég hér í fæðingarorlofinu. Smám saman sá Steindór að hann fengi mig ekki aftur heim. Hann fór því að koma hingað oftar, eitt leiddi af öðru og hér búum við í dag. Hér höfum við það í rauninni rýmra en í húsinu sem við bjuggum í,“ segir hún. En með tvö lítil börn. Óttast hún ekkert að þau álpist útbyrðis.

„Nei, við erum svo mörg fullorðin hér um borð. Pabbi er talsvert hjá okkur og svo höfum við þrjá starfsmenn heimafyrir sem hjálpa okkur í gegnum daginn.“

En öll þessi börn. Verða þau fleiri? „Ekki með núverandi eiginmanni,“ segir Hulda og rétt er hægt að ímynda sér glottið á andlitinu í gegnum símann. „Hann reyndar sagði það líka fyrir um sjö árum síðan og frá þeim tíma hefur börnunum fjölgað um helming. En nei, ég geri ráð fyrir að við höldum utan um þennan hóp.“

Fjölskyldan stuðningsnetið

Það þarf ekki langt samtal við Huldu til að sjá að þar fer kona með bein í nefinu, mikinn metnað og verkefnin mörg. Bæði eru þau Hulda og Steindór á fleygiferð í Hong Kong, en hann einnig nokkra mánuði á ári á Íslandi þar sem hann rekur fiskvinnslu meðal annars í Hafnarfirði og Grundarfirði.

„Við erum bæði í krefjandi vinnum sem við höfum brennandi áhuga á. Það gerir það að verkum að við erum alltaf glöð og vitum ekki hvort það er mánudagur eða föstudagur. Okkur líður ekki eins og það sé kvöð að vinna og höfum gaman að lífinu með börnum okkar. Þannig styðjum við hvort annað; þótt hann sé hundleiður á einhverjum fæðingarsögum og ég nenni ekkert að tala um einhverja fiska, þá tekst þetta og gengur upp með góða skapinu,“ segir hún.

„Ég hef nú alltaf sagt að ég er ekkert án fjölskyldu minnar. Hingað til hefur það nú alltaf verið fyrir tilstuðlan mannsins míns, systkina, foreldra og núna barna sem ég get gert það sem ég er að gera. Það er engin launung að það er þessi hópur í kringum mann sem gerir mér kleyft að vera ræðismaður. Ég hef einnig stundum sagt að ég hafi komið því þannig fyrir að einhver haldi jakkanum opnum svo að ég þurfi aðeins að smeygja mér í ermarnar. Ég er bara svona venjuleg manneskja en þetta er það sem Hong Kong býður upp á,“ svarar hún hógvær spurð um kraftinn í öll verkefnin.

Getur farið hvert sem er

En eins og lífið kemur sífellt á óvart og þótt fjölskyldan sé að mestu flutt út er útlit fyrir að aðdráttarafl Íslands aukist á næstunni. Sonurinn Starri er á leið í Menntaskólann á Akureyri, þar sem hann sest í fyrsta sinn á íslenskan skólabekk og dóttirin Freyja stefnir þangað einnig.

„Þau fara á hraðbraut og koma ári á undan. Það verður krefjandi fyrir þau að stunda nám á íslensku. Þau hafa aldrei nokkurntíma gengið í íslenskan skóla og aldrei þurft að skrifa íslenskan stíl.“

Hulda sér því fyrir sér að eyða meiri tíma á Íslandi í náinni framtíð, en þar sem hennar fyrirtæki er í Hong Kong þá verður lífinu líklegast skipt á milli beggja staða næstu árin. „Steindór dvelur reyndar miklu meira á Íslandi en ég. Fyrirtækjarekstur okkar er einfaldlega þannig að við þurfum að þvælast á milli næstu misserin,” segir hún.

En hver veit nema lífið taki óvænta stefnu eins og það gerði þegar hún flutti út? „Já, hver veit,“ svarar Hulda og grípur til dagdrauma. „Báturinn er í það minnsta alltaf til reiðu. Hann er útbúinn í heimssiglingu. Við gætum því tekið upp akkerin og farið – já, bara farið hvert sem við viljum.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
gag@frettatiminn.is


 

Til baka

Kaupstaður