Fréttatíminn

image description
27.04 2012

Sigraðist á krabbameini með breyttum lífsstíl

„Ég er laus við óttann. Ég hræðist ekki meir að deyja úr krabbameini en að lenda fyrir bíl. Ég óttast ekki að deyja úr krabbameini frekar en gigtarsjúklingur óttast að deyja úr gigt. Fyrir mér er þetta ekki svona alvarlegt, þótt auðvitað hafi margir dáið úr krabbameini. Það hafa líka margir dáið úr hjartveikissjúkdómum. Ég er ekkert hrædd við að fá hjartaáfall heldur. Ég er óttalaus,“ segir hin 64 ára Hólmfríður Árnadóttir sem greindist með brjóstakrabbamein í janúar í fyrra og valdi að sleppa bæði geisla- og lyfjameðferð eftir að hafa verið skorin í brjóst og meinið fjarlægt.

Hólmfríður situr með kaffibollann milli handa sér á Kaffi Krús á Selfossi, þar sem hún vinnur hálfa vikuna á Skólaskrifstofu Suðurlands. Hinum helmingnum ver hún í talþjálfun barna. Það er ekki kaffi í bollanum hennar heldur te. Hún hefur tekið allt mataræðið í gegn.

„Ég veit ekki hvort ég sé ákveðin manneskja. Mér finnst það ekki sjálfri. En sjálfsagt fer ég mínar leiðir í því sem ég ætla mér,“ segir hún. Hólmfríður hefur búið á Sólheimum í Grímsnesi frá haustinu 2007. Þar býr hún við hliðina á hinum landsþekkta Reyni Pétri Steinunnarsyni og konu hans Hannýju Maríu Haraldsdóttur. Hólmfríður hefur engin sérstök tengsl við staðinn fyrir utan þau að hún heillaðist af honum eftir að hafa eytt þar degi fyrir nokkrum árum.

„Mér fannst gaman að búa í hjarta Reykjavíkur. Flott. En svo var sá kafli búinn. Ég þurfti að fara burt. Það getur vel verið að kaflinn á Sólheimum verði einhvern tímann búinn. En nú líður mér óskaplega vel þar. Hugmyndafræði Antrópósófista, sem stuðst er við á Sólheimum segir að við lifum í sjö ára tímabilum. Það getur því verið að eftir sjö ár kasti ég teningunum að nýju og hugsi; nú langar mig til Los Angeles,“ segir Hólmfríður léttlynd.

Valdi að vera sjálf við stýrið

„Ég fór á móti straumnum þegar ég flutti upp á Sólheima. Margir héldu þá að ég væri léttgeggjuð og sjálfsagt er ég það, en það er allt í lagi. Hverjum hefði dottið í hug að selja húsið sitt og byggja á stað sem hann hafði svo gott sem aldrei komið á. Ég hafði einu sinni komið þangað áður. Ég talaði bara um þessa ákvörðun við þá sem ég vissi að myndu skilja mig og styðja. Þannig hef ég ef til vill gert í gegnum tíðina. Ég hef ekki talað við fólk sem ég veit að dregur úr mér ef ég hef ætlað mér eitthvað.“

Það geislar af henni þar sem hún situr í horni kaffihússins; töff klipping, nýtísku gleraugu og frábær fatastíll. Um hálsinn ber hún viðarkross sem dóttir hennar smíðaði og gaf. Og dóttir hennar hefur fylgt í fótspor hennar og flutt með börn sín tvö í Grímsnesið. Það er ekki að sjá að þessi kona hafi verið skorin vegna brjóstakrabbameins fyrir ári og verið marga mánuði frá vinnu.

„Ég hef mikið spáð í þessar óhefðbundnu aðferðir í öllu mögulegu. Þegar ég greindist í janúar í fyrra þá ákvað ég að taka ábyrgð á þessu krabbameini af fullri alvöru. Ég veit ekki hvort það var meðvituð ákvörðun en ég upplifði það mjög sterkt að ég ætlaði ekki að setja mig í hendur á læknunum og verða áhorfandi. Ég ætlaði að vera við stjórnvölinn,“ segir Hólmfríður.


Valdi óhefðbundasta af þeim hefðbundu

„Ég var algjörlega ákveðin í því strax að ég ætlaði að fá óhefðbundinn lækni. Mér var sagt að þeir ynnu nú yfirleitt ekki þarna á Landspítalanum en mér var bent á þann sem var óhefðbundnastur – yndislegur og góður maður, Helgi Sigurðsson. Hann hlustaði á mig og skildi mig og skildi hvað ég var að fara og studdi mig í því. Það var mjög flott. Ég fékk ekki á tilfinninguna að það væri verið að þröngva mér ákveðna leið.“

Meðal þess sem Hólmfríður vildi var að bíða með það að fara í skurðaðgerð til að láta fjarlægja meinið. „Oft er konum skellt í það að skera eins og skot. Ég vildi það ekki. Ég horfði á þetta krabbamein út frá því að það væri fyrst og fremst þarna vegna ójafnvægis í líkamanum; að meinið væri eitrun sem hefði safnast upp í langan tíma og að það þyrfti að koma jafnvægi á hann. Það kemur ekkert jafnvægi á líkamann með því að skera burt,“ segir hún sannfærð.

„Þannig að ég vildi fá tíma og læknirinn sagði að það væri sjálfsagt að ég fengi þann tíma sem ég vildi. Við ákváðum að það yrðu að minnsta kosti þrír mánuðir þar til við færum að tala um skurð. Svo ég fór til Indlands – eins og ég hafði skipulagt – í febrúar í fyrra, tveimur vikum eftir að ég greindist. Ég hélt því til streitu og fór. Á Indlandi kemur maður inn í heilaga orku. Þar fór ég í jóga í tvær klukkustundir á hverjum einasta degi og í heilun á hverjum degi. Ég notaði tímann í að koma jafnvægi á líkamann. Ég ákvað að ég þyrfti að hreinsa hann algjörlega; út frá mataræðinu og koma jafnvægi á sýrustigið. Það var langt yfir eðlilegum mörkum. Og ég þurfti að hreinsa huga og sál, því allt er þetta ein samhangandi heild.“

Hólmfríður hafði dregið að fara til læknis í nokkra mánuði áður en hún greindist. „Ég var búin að finna fyrir ójafnvægi, þreytu, orkuleysi og ýmsu sem var mér ekki eðlislægt. Ég taldi mig vita af þessu meini,“ segir hún. „Svo loksins fór ég og því kom niðurstaðan mér ekki á óvart. Viku seinna fór ég í ómun sem staðfesti að þetta var alvöru. Og auðvitað bregður manni og fær sjokk en ég upplifði þetta á svolítið sérkennilegan hátt. Ég upplifði þetta sem verkefni sem ég bæri ábyrgð á. Ekki ósvipað eins og ef maður væri með veikt barn í fanginu: Nú ert það þú sem berð ábyrgð á þessu veika barni. Það þarf hvorki að vera erfitt eða leiðinlegt. Það þarf bara að taka af alvöru á málinu og af ábyrgð.“

Tók mánuði í að útiloka ótta

Hún fann til ótta. „Þess vegna þurfti ég að loka á hann. Og ég lagði mjög mikla vinnu – margra mánaða – í það að eyða óttanum. Það er óskaplega auðvelt að toga mann inn í ótta og dramatík. Óttinn getur hreinlega drepið fólk. Hann er bráðdrepandi. Ég skynjaði það mjög sterkt að ég þyrfti að eyða honum. Ég fann rosalegan ótta gagnvart heilbrigðiskerfinu og því að það ætlaði að keyra mig einhverja ákveðna leið. Það eru alltaf ákveðnir einstaklingar sem draga þig inn í óttann og dramatíkina og næra bæði sjálfa sig og mann sjálfan á óttanum. Ég þurfti að útiloka ákveðið fólk. Ég þurfti að útiloka ákveðnar aðstæður,“ segir Hólmfríður þegar hún fer yfir fyrstu mánuði baráttunnar við brjóstakrabbameinið.

„Ég vildi til dæmis ekki hitta lækninn inni á spítalanum, því þar fannst ég að ég væri komin inn í eitthvert óttaumhverfi,“ segir Hólmfríður sem náði að bægja óttanum frá. Það tók ekki styttri tíma að vinna á streitunni.

„Já, ég fór í veikindafrí strax og ég greindist. Ég byrjaði í veikindafríinu á Indlandi og var svo í fríi fram í ágúst. Ég þurfti að glíma við streitu og þurfti að losa mig út úr henni og streitumynstrinu sem ég var í. Og þegar ég kom aftur til vinnu þarna um haustið fann ég fyrir streitunni og tók aukalega tveggja mánaða veikindaleyfi. Þannig að ég byrjaði ekki að vinna aftur fyrr en nú í nóvember,“ segir hún.

„Ég notaði blómadropa, fékk nýja og nýja blöndu eftir því hvað ég var að fást við. Svo á ég óskaplega góðar vinkonur sem hafa verið með mér í þessum óhefðbundnu pælingum í mörg herrans ár. Þær skildu mig og studdu án þess að taka af mér völdin. Þær fóru með mér í að breyta mataræðinu. Ég notaði mikinn tíma í það,“ segir Hólmfríður sem þó hafði tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl.

Með sýrðan líkama

„Ég skokkaði, gekk og var mikið í útivist og hélt því áfram að fullu. Ég hef alltaf verið mikil útivistarmanneskja. Ég hafði stundað heilbrigt líferni og kannski óvenju heilbrigt, því ég hef verið mikil áhugamanneskja um matarræði og lærði um "living food" fyrir nokkrum árum. En smám saman rennur maður út úr því en þarna fór ég aftur inn á þá braut,“ segir hún og leggst á allar árar til að halda pH-gildi líkamans í jafnvægi.

„Líkami minn mældist mjög hár í sýru og ég fann það vel á því hvað ég þoldi orðið illa ákveðinn mat. Ég þoldi til dæmis alls ekki að drekka rauðvín. Eftir hálft glas var ég orðin veik. Það fannst mér leiðinlegt,“ segir Hólmfríður sposk. „Ég gat alls ekki drukkið hvítvín eða kaffi. Við erum alltaf að borða mat sem er súr en ég fékk lista yfir hvert pH-gildi matarins er og fór að vinna eftir því. Uppistaðan er fyrst og fremst grænmeti og baunir. Til dæmis eru fiskur, kjöt, brauð, bjór, hvítvín, rauðvín og kaffi eru á hinum ásnum; með allt of hátt sýrustig,“ segir hún.

Heilun, dropar og nálastungur

„Ég sótti í læknamiðlun. Ég var hjá hjúkrunarfræðingi, Gyðu Pálsdóttur, sem hefur lært miðlun, nálastungur og blómadropaþerapíu og notar það saman. Það var ótrúlega skemmtileg og merkileg lífsreynsla. Í hvert skipti sem ég kom í nálastungurnar voru þar „mættir“ þrír læknar; alltaf sömu læknarnir, einn blóðmeinafræðingur og tveir læknar. Þeir stýrðu að mjög miklu leyti þeim ráðum sem ég fylgdi. Það sem mér fannst svo merkilegt er að þessi ráð sem ég fékk þar voru þau sömu og ég hafði lesið um í þessum óhefðbundnu fræðum og það sem Hallgrímur [Magnússon læknir á Heilsugæslunni í Hveragerði] hafði gefið mér. Það sem hann var að segja mér stemmdi við það sem „hinir dauðu læknar“ sögðu. Það fannst mér merkilegt og gaf mér heildarsýn,“ segir Hólmfríður.

„Svo stundaði ég jóga grimmt eftir að ég kom frá Indlandi, til að koma jafnvægi á allar orkustöðvarnar. Ekki bara brautirnar í líkamanum heldur líka á orkustöðvarnar sem að stjórna ákveðnum líffærum. Allt þarf þetta að vera í jafnvægi. Þetta er það sem ég gerði og það sem ég mun halda áfram að gera. Ég þarf að hafa fyrir því að halda líkamanum í jafnvægi svo ég þurfi ekki að takast aftur á við þetta krabbamein.“

En hvað tekur það langan tíma? „Þetta getur tekið nokkur ár. Ég veit það ekki,“ svarar hún.

Hugurinn sýkir líkamann

En hvað kom þér úr jafnvægi og varð til þess að þú fékkst krabbamein? „Ég hallast að þeirri kenningu, sem er sprottin úr þessum óhefðbundna heimi, að allir sjúkdómar eigi upphaf sitt í tilfinningum. Þar byrja sjúkdómarnir. Ég held að krabbamein og fleiri sjúkdómar séu afleiðing áratuga ójafnvægis. Það myndast einhverskonar skekkja, sem verður svo meiri og meiri. Að lokum getur myndast krabbameinsæxli eða einhverjir aðrir sjúkdómar. Orkubrautirnar stíflast, eins og kínversk lækningafræði kennir, og krabbamein myndast, eða einhver önnur veikindi,“ segir hún.

„Þess vegna ákvað ég að nýta mér nálarstungur og fór í þær einu sinni í viku í allan fyrravetur. Ég fór aðeins áður en ég fór til Indlands og eftir að ég kom heim. Þá voru meðal annars stíflaðar brautir opnaðar að nýju. Ég trúi því að á nákvæmlega sama hátt og þetta krabbamein er langan, langan tíma að þróast þá tekur það líka langan tíma að ganga til baka. Og ég trúi ekki á þær lækningar, sem skera, gefa lyf, geisla, bæla þetta allt saman niður og svo er það búið. Ég trúi því ekki.“


Stóð með Önnu Pálínu systur sinni

Hólmfríður er Hafnfirðingur og ól þar sinn aldur, þar til hún lauk námi í Kennaraháskólanum. Hún var næstyngst af sex systkina hópi, en fimmtán árum yngri var Anna Pálína. „Hún greindist með brjóstakrabbamein þegar hún var 36 ára og dó úr því 42 ára. Elsta systir mín fékk líka krabbamein og fór í fleygskurð fyrir nokkrum árum; fjórum, fimm árum. Þær völdu lyf og geisla,“ segir hún.

„Ég var búin að fylgjast með Önnu Pálínu og verið í miklum pælingum með henni. Auðvitað hafði það áhrif en ég veit ekki hvort það hafði bein áhrif á að ég hafnaði lyfjunum og geislameðferðinni,“ segir hún spurð um ástæður þess að hún valdi þessa óhefðbundnu leið að bata.

„Börnin mín stóðu algjörlega með mér og fannst sjálfsagt að ég færi þessa leið. Þau reyndu ekki að hafa áhrif á mig og treystu því fullkomlega að ég væri á réttri leið. Rétt leið er bara mín leið. Það er ekki þar með sagt að hún sé fyrir einhvern annan. Hver fer þá leið sem hann trúir á. Svo eru alltaf einhverjir sem fyllast ótta og ætla að stjórna lífi manns. Ég passaði mig mjög á því fólki.“

Læknar hefðu viljað taka allt brjóstið

Þegar ljóst var að meinið var illkynja ráðlögðu læknarnir Hólmfríði að fara í lyfjameðferð og geisla á eftir skurðaðgerðinni. „Þeir sögðu mér: Þetta er sú leið sem er í boði hér. En það er ekki þannig í öllum löndum. Bæði í Þýskalandi og Englandi getur fólk valið óhefðbundnar leiðir og þá fær fólk stuðning í því. En það er ekki í boði hér og það er miður,“ segir Hólmfríður og lýsir því að lækni hennar hafi að vonum ekki verið sáttur við að hún vildi ekki ljúka þeirri meðferð sem í boði var, en hann hafi virt skoðun hennar.

„Ég fór bara í fleygskurð en hann sagði að ef ég ætlaði að sleppa geislum og lyfjum hefði ég þurft að láta taka allt brjóstið. Ég væri ekki búin í meðferðinni fyrr en ég væri búin að fara í geisla og á lyf. Og mér hugnaðist það ekki. Ég kynnti mér það mjög vel og talaði við hómópata, Hallgrím og margskonar nálastungufólk og spurði það, las greinar og allt mögulegt og tók þá yfirvegaða ákvörðun að fara ekki í geisla. Mér hugnaðist ekki aðferðin. Ég vildi frekar sjá fyrir mér að ég væri að byggja upp og hreinsa.“


En af hverju að taka þá bara fleygskurð? „Það gerðist einhvern veginn óvart. Þeir höfðu gert ráð fyrir því að það yrði fleygskurður, lyf og geislar, en ég hafði ekki meðtekið það þannig. Ég fór því í fleygskurðinn, þakkaði fyrir og sagði þeim að nú ætlaði ég ekki að gera meir,“ segir hún. „Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að manni sé stýrt. Ég held að þetta hafi einmitt verið það rétta.“

Hver verður að fylgja sínu hjarta
En breytir krabbamein lífinu? „Já, auðvitað breytir það. Ætli það breyti ekki álíka og þegar fólk eignast barn. Þá ertu allt í einu komin með allt annað verkefni í hendurnar og það fer öll þín orka og hugsun í litla barnið til að byrja með. Það gjörbreytir lífi þínu. Þú færð annað viðhorf til alls. Ég tel að þetta sé ekki ósvipað. Og það sem þú lendir í breytir viðhorfi þínu. Þroski er til góðs. Auðvitað breytir þetta lífi manns. En ekki á neikvæðan hátt.“

En ráðleggur þú fólki að fara þessa leið? „Nei, ég ráðlegg öllum að fara eftir hjartanu. Ég trúi algjörlega á þessa leið, en það er ekki þar með sagt að hún virki fyrir alla. Ég hafði fólk í kringum mig, vinkonur og vini sem gátu stutt mig en það er ekkert innan heilbrigðiskerfisins sem styður þessa óhefðbundnu leið. Það er ekkert auðvelt fyrir fólk sem stendur eitt og með allt fjölskyldubatteríið inni í ótta og dramatík að ætla að ganga á móti straumnum. Þú þarf að hafa stuðning í því sem þú ert að gera, sama hvað það er. Þetta var rétt leið fyrir mig og svo velur hver fyrir sig. Mér finnst skipta máli að taka ábyrgð.“

En fyrir finnur þú fyrir þreytu? „Nei. Krabbameinið er farið, en hvort það kemur aftur? Það veit ég ekki. En það fór. Það var skorið í burtu og svo er það vinnan hjá mér að passa að það komi ekki aftur. Ég er enn að vinna að því og verð allt mitt líf.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
gag@frettatiminn.is


 

Til baka

Kaupstaður