Fréttatíminn

image description
01.11 2013

Sigursaga Jónínu og Jóhönnu

Jónína Leósdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir kynntust fyrir þremur áratugum. Ljósmynd/Hari
Jónína Leósdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir kynntust fyrir þremur áratugum. Ljósmynd/Hari
Jónína og Jóhanna gengu í hjónaband þann 27. júní 2010 þegar ný hjúskaparlög tóku gildi á Íslandi á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra.
Jónína og Jóhanna gengu í hjónaband þann 27. júní 2010 þegar ný hjúskaparlög tóku gildi á Íslandi á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra.
Ljósmynd/Hari
Ljósmynd/Hari

„Hugmyndin að bókinni kom frá Jóhönnu. Það kom mér mjög á óvart en ég var ótrúlega fljót að samþykkja að skrifa hana. Margar undirliggjandi ástæður voru fyrir því að hún vildi láta skrifa bók en þetta er jú sigursaga, saga um mótlæti sem við sigruðumst á – mótlæti sem bæði kom til af ytri ástæðum og líka sem maður skapaði sér sjálfur því stundum getur maður verið sinn versti óvinur. Hennar upplegg var að þetta gæti verið uppörvandi saga, ekki endilega bara fyrir samkynhneigð pör heldur til að hvetja fólk til að standa með sjálfu sér og berjast þar til það er komið á þann stað sem það vill vera á. Reyndar var þetta kannski svolítið mikið úthald og svolítið mikil þolinmæði,“ segir Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur, um sögu þeirra sem er nýkomin út, bókin: Við Jóhanna.

Jónína hafði stungið upp á að við hittumst á barnum á Hótel Nordica því þar væri enginn um miðjan dag nema útlendingar sem ekki myndu skilja orð af því sem við segðum. Á leiðinni varð mér hugsað til þess að ég var með rauðan trefil og mundi að ég hafði oft séð myndir af Jónínu í rauðu. Það var eins og hún læsi hugsanir mínar þegar við hittumst. „Við erum báðar með rauðan trefil,“ sagði hún brosandi um leið og við tókum af okkur treflana. Hún var líka með rauða tösku og rauðan varalit – líkt og eiginkonan ber gjarnan – peysan rauð og svört, og allt annað í stíl. „Þegar ég var að vinna á Fróða með Þórarni Jóni Magnússyni tók ég eftir að hann var alltaf í svörtu. Hann sagði að þannig væri svo þægilegt að velja saman föt og ég komst að því að það er mjög þægilegt að kaupa alltaf föt í svipuðum litum.“ Í ljós kemur að verið er að gera upp barinn á hótelinu og við endum því á Vox, einum flottasta veitingastað landsins, en pöntum okkur bara cappuccino – hún einfaldan, ég tvöfaldan.

Fór úr böndunum

Það eru tíðindi að saga Jóhönnu og Jónínu sé gerð opinber enda lögðu þær alla tíð mikið upp úr því að halda einkalífinu utan sviðsljóssins. Það var eins konar þegjandi samkomulag íslenskra fjölmiðla að fjalla lítið sem ekkert um kynhneigð einnar þrautseigustu stjórnmálakonu landsins. Þegar hún varð forsætisráðherra rötuðu þau tíðindi hins vegar í erlenda fjölmiðla enda var hún fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann. „Fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann svo vitað sé,“ bendir Jónína á. „Fyrir þá sem eru í þeirri stöðu, eins og Jóhanna, að fólk þekkir þá úti á götu er svo dýrmætt að eiga eitthvað sem aðrir hafa ekki aðgang að. Okkur fannst mikilvægt að halda okkar einkalífi fyrir okkur. Það var alltaf sagt til að þrýsta á okkur þegar fjölmiðlar reyndu að fá okkur í hjónaviðtöl að við værum svo mikilvægar fyrirmyndir. Við vildum hins vegar vera fyrirmyndir sem hlaupa ekki með allt í blöðin. Þetta brast síðan þegar hún varð forsætisráðherra. Þá ákváðu fjölmiðlar á Íslandi að fjalla um þetta, skiljanlega, fyrst fjallað var um kynhneigð hennar í Timbúktú. Allir helstu fjölmiðlar heims óskuðu eftir persónulegum viðtölum en þeim var öllum hafnað.“ Það er ekki orðum ofaukið að þær séu nú heimsfræg hjón og ég spyr hvort það sé ekki svolítið skrýtin tilhugsun. „Við sem vildum ekki gefa sameiginlega uppskriftir að jóladessert í blöðunum?“ spyr Jónína hlæjandi. „Þetta er auðvitað mjög skrýtið og fór alveg úr böndunum. Það er mjög óraunverulegt en líka fyndið að sjá hana á einhverjum listum með Ellen DeGeneres,” segir Jónína en einn listinn var spænskur þar sem lesbía ársins 2011 var valin. Jóhanna trónaði á toppnum en Ellen var í öðru sæti. „Auðvitað er ég ekkert að hugsa um þetta dagsdaglega. Stundum hrópar maður upp yfir sig og hlær að því sem er allra fjarlægast raunveruleikanum en síðan fer maður bara út í búð og kaupir í matinn.“

Ekki hrifin af orðinu „lesbía”

Veruleiki Jónínu hefur tekið miklu stakkaskiptum en hún viðurkennir að eitt sinn hafi hún hreinlega verið með fordóma í garð samkynhneigðra. „Orðið fordómar er í raun mjög lýsandi, og það er það líka á öðrum tungumálum, „prejudge.“ Þetta snýst um að dæma fyrirfram það sem maður þekkir ekki. Ég var alin upp á heimili þar sem ekki var talað um svona hluti, hvorki samkynhneigð né kynlíf yfir höfuð. Ég vissi ekkert í minn haus því ég hafði ekki kynnst þessu. Ég man eftir því að mamma notaði afskaplega teprulegt orð þegar hún var að tala um ákveðna konu. Hún varð vandræðaleg og flekkótt á hálsinum og eiginlega spýtti út úr sér orðinu: „Kvenhommi!“ Mér fannst samkynhneigð vera algjörlega ótengd mér. Þetta var bara eitthvað fólk úti í bæ.“ Í bókinni segir Jónína að þarna hafi líklega verið upphafið að andúð hennar á orðinu lesbía. Fyrst mamma hennar gat ekki einu sinni tekið sér það í munn hlaut það að vera alveg agalegt.

Jónína trúlofaði sig 18 ára og rétt um tvítugt giftist hún Jón Ormi Halldórssyni. Ári síðar, árið 1975, byrjaði hún í skóla Essex í Bretlandi. Skólinn var þekktur fyrir frjálslyndi og starfræktu nemendur þar sérstakt félag samkynhneigðra. „Starfsemi þess var auglýst rétt eins og íhaldsfélagsins og fótboltafélagsins. Mér fannst þetta framandi, hvorki spennandi né óspennandi, heldur bara skrýtið að það væru krakkar í kringum mig sem væru samkynhneigðir.“ Hún rifjar upp þegar hún ásamt eiginmanni sínum og fleiri nemendum voru á háskólabarnum en á sama gangi voru samkynhneigðu nemendurnir með ball. „Mér varð um og ó þegar ég gerði mér grein fyrir að það væri bara eitt klósett fyrir þá sem voru á barnum og þá sem voru á ballinu. Þegar leið á kvöldið þurfti ég að fara á salernið en mér fannst mjög óþægilegt að eiga að fara á klósett með konum sem voru að skemmta sér á „gay“-balli. Í raun leið mér eins og ég ætti að fara á sama klósett og strákarnir á barnum sem voru búnir að drekka nokkra stjóra bjóra. Það endaði með því að ég krosslagði fótleggina og hélt í mér þar til ég var komin heim. Svona vitlaus var ég.“

Eftir að Jónína kom heim frá Bretlandi var umræðan um samkynhneigð orðin meiri í samfélaginu og Samtökin 78 stofnuð um þetta leyti. Orðin „hommi“ og „lesbía“ þóttu svo mikil skammaryrði að þau mátti ekki segja í Ríkisútvarpinu, yfirlýstum hommum var meinaður aðgangur að skemmtistöðum og þeir jafnvel beittir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar.

Símtal frá fyrrverandi tengdamóður

Nokkru fyrir alþingiskosningarnar 1983 var Bandalag jafnaðarmanna stofnað og leitað til eiginmanns Jónínu, Jóns Orms, sem þá var aðstoðarmaður fráfarandi forsætisráðherra og menntaður stjórnmálafræðingur, um að taka sæti á lista. Hann hafði ákveðið að segja skilið við stjórnmálaþátttöku en Jónína samþykkti að taka sæti neðarlega á lista með fyrirheitum um að hún þyrfti ekki að gera neitt. Annað kom í ljós. Eftir kosningar barst flokknum beiðni frá Jóhönnu, sem þá var þingmaður Alþýðuflokksins, um að tilefna fulltrúa í Framkvæmdanefnd um launamál kvenna sem hún var að stofna. Jónína varð þessi fulltrúi Bandalags jafnaðarmanna, hún smitaðist af eldmóði Jóhönnu og gerði sér brátt grein fyrir að tilhlökkunin fyrir fundum nefndarinnar var ekki aðeins vegna áhuga á launamálum kvenna. Þarna var Jónína þrítug og Jóhanna 42 ára, báðar giftar með börn. Þrátt fyrir að ástin byrjaði brátt að blómstra var langt þangað til að þær byrjuðu að búa saman, hvað þá að þær gerðu sambandið opinbert. Báðar eru þær í góðu sambandi við sína fyrrverandi eiginmenn og þeirra fjölskyldur, og auðvitað börnin og barnabörnin.

Jónína var í viðtali í Kastljósi fyrir viku um bókina og fékk hún sterk viðbrögð. „Eftir þetta viðtal fann ég enn einu sinni hvað ég er ótrúlega heppin með fólkið í kring um mig. Eitt fyrsta símtalið sem ég fékk var frá fyrrverandi tengdamömmu minni, áttræðri konu úti í landi, sem hringdi til að segja mér hvað hún væri stolt af mér og að ég myndi aldrei hætta að vera tengd henni. Núverandi eiginkona fyrrverandi mannsins míns skrifaði líka á Facebook að viðtalið hefði snortið hana. Það er ekki sjálfgefið að kynnast fólki sem stendur svona með manni, þroskuðum hugsandi manneskjum.“ Þrátt fyrir að staða samkynhneigðra væri önnur en nú þegar þær Jóhanna urðu ástfangnar var það aldrei nein spurning hjá Jónínu um að hún yrði að skilja við eiginmann sinn. „Ég var kannski galvösk og hugsaði ekki fram í tímann en um leið og ég fann hvað var í gangi og um leið og ég fann að þetta var alvöru ást þá sleit ég mínu hjónabandi án þess að hafa neitt í hendi um framtíðina.“

Þurfti að prófa að búa ein

Eftir skilnaðinn við eiginmanninn bjó Jónína ein um árabil, ásamt einkasyni þeirra, og voru þær Jóhanna ýmist saman eða sundur í lengri tíma enda aðstæður til sambands þeirra ekki eins og best var á kosið. „Ég trúlofaði mig mjög ung þannig að þetta var í raun tímabil sem ég hafði sleppt úr lífinu. Þetta var því ekki bara neikvætt. Ég held að það þurfi allir að prófa að búa einir og vera sjálfstæðir áður en þeir verða helmingur af pari. Ég get ekki talað fyrir Jóhönnu, hún var auðvitað eldri en ég þegar hún gifti sig, en mig hreinlega vantaði þennan kafla í líf mitt.“
Yfirleitt er talað um að samkynhneigðir viti snemma á lífsleiðinni af kynhneigð sinni en því var ekki að heilsa hjá Jónínu og Jóhönnu. „Lífið er greinilega ekki svo einfalt. Ég las mér mikið til um þetta þegar ég fór að finna fyrir þessum tilfinningum og sérstaklega þegar við Jóhanna fórum að nálgast hvor aðra. Samkvæmt öllum fræðum virðast margir uppgötva þetta í kringum kynþroskaaldurinn en það er greinilega ekki nein regla. Ég gæti alveg trúað að þetta helltist yfir fólk eldra en við vorum. Þetta snýst jú um tilfinningar. Ég hef verið spurð að því vegna þess að ég var gift karlmanni, með hverjum ég væri ef ég væri ekki með Jóhönnu. Ég bara veit ekki svarið við þeirri spurningu og hef ekki áhuga á að velta því fyrir mér. Ég held að enginn sem er í hamingjusömu hjónabandi velti slíku fyrir sér. En það er greinilegt að þetta getur komið mjög óvænt. Ég þekki fleiri sem voru á fertugsaldri þegar þeir gerðu sér grein fyrir kynhneigð sinni. Við erum því ekki eina dæmið.“

Þrátt fyrir allt þá segir Jónína það vera forréttindi að hafa fengið að upplifa að lifa í þjóðfélagi eins og það er í dag þar sem samkynhneigðir búa við skýr lagaleg réttindi og samfélagslegan skilning. „Okkar samband byrjaði hægum skrefum árið 1985 og við áttum enn í erfiðleikum milli 1990 og 2000. Rétt undir aldamót virkaði mjög óraunverulegt að við ættum eftir að búa í samfélagi þar sem hálf þjóðin flykkist á Gay Pride og öll lagaleg réttindi til staðar, til að mynda hvað varðar ættleiðingar og glasafrjóvganir.“

Jónína og Jóhanna gengu í hjónaband þann 27. júní 2010 þegar ný hjúskaparlög tóku gildi á Íslandi á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra. „Við erum meðvitaðar um allt þetta frábæra fólk – bæði gagnkynhneigt og samkynhneigt, í Samtökunum 78, inni á þingi og í þrýstihópum í samfélaginu – sem hefur barist fyrir því að koma okkur á Íslandi á þann stað sem við erum í dag. Það er ein af mörgum ástæðum þess að við ákváðum að skrifa bókina, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og sýna þakklæti. Við tókum ekki þátt í þessari baráttu, við vorum að berjast annars staðar. Bókin er því þakklætisvottur til allra þeirra sem eru búnir að breyta þjóðfélaginu á ótrúlega skömmum tíma. Það hefur krafist hugrekkis að stíga fram fyrir skjöldu og berjast. Það var erfitt að vera formaður Samtakanna 78 fyrstu árin og Hörður Torfason hrökklaðist hreinlega úr landi. Við erum mörgum mjög þakklátar.“

Sorgleg viðhorf

Hún tekur þó fram að það geti alltaf komið bakslag og að það megi ekki taka mannréttindum samkynhneigðra sem sjálfsögðum. „Við sáum það til dæmis í umræðunni eftir síðasta Gay Pride. Það eru enn hópar sem horfa á þetta með annarlegum gleraugum.“ Ég átta mig á að hún er að tala um ummæli Gylfa Ægissonar sem hefur lagt fram kæru vegna Gleðigöngunnar og spyr hvort hún vilji tjá sig beint um hans framgöngu. „Mér finnst þetta bara dapurt. Fyrst fannst mér þetta fyndið og hló að þessu en þetta er ekki fyndið. Mér finnst þetta sorglegt og mér finnst þetta hættulegt. Það er ótrúlega grunnt á þessum viðhorfum. Það er eins og hann hafi rutt brautina og öðrum þá fundist í lagi að taka undir. Þessi umræða er samt jákvæð að því leyti að hún brýnir fyrir þeim sem héldu að sigur væri í höfn að það má ekki hætta baráttunni.“ Og þrátt fyrir almennt góða stöðu samkynhneigðra í dag rifjar hún upp að það er skuggalega stutt síðan veröldin var allt önnur. „Á fyrsta árinu eftir að við Jóhanna tókum saman lásum við sögu norskrar stjórnmálakonu sem var kjörin á þing árið 1977 og var ástfangin af ungri blaðakonu. Tveimur árum síðar kom hún út úr skápnum og frami hennar hrundi. Það er ekkert grín að hugsa til þess hvað hefði getað gerst á sínum tíma hjá okkur. Sem betur fer skiptir kynhneigð engu máli í dag, sama hvaða starfi fólk sinnir. Það hefur orðið bylting.“

Kaffið er löngu búið og varalitur á brún bollanna. Jónína dregur upp rauða varalitinn áður en við setjum á okkur rauða treflana. Hún segist vera örlítið stressuð fyrir myndatökunni, sem ég skil ekkert í enda hafa þær báðar oft setið fyrir á ljósmyndum. Hún útskýrir málið: „Þetta verður í fyrsta skipti sem við sitjum fyrir saman hjá fjölmiðli. Það hafa náðst myndir af okkur saman en það er ekkert sem hefur verið planað. Til dæmis á rósaafhendingunni,“ segir hún og vísar til þess þegar fjöldi fólks þakkaði Jóhönnu 35 ára starf í stjórnmálum fyrr á þessu ári. „Þetta er því eitthvað sem við höfum ekki gert áður.“ Ég sýni áhyggjunum örlítið meiri skilning og bíð spennt eftir myndunum.

Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is 

Til baka

Kaupstaður