Fréttatíminn

image description
02.05 2013

Skoða tökustaði á Íslandi fyrir Star Wars

Vélmennin R2D2 og C-3PO. Svona gætu þeir tekið sig út á Jökulsárlóni. Samsett mynd/Hari
Vélmennin R2D2 og C-3PO. Svona gætu þeir tekið sig út á Jökulsárlóni. Samsett mynd/Hari

„Þeir eru ekki á landinu, það er allt sem ég segi,“ segir Árni Björn Helgason, framkvæmdastjóri erlendrar framleiðslu hjá Sagafilm.

Undanfarið hefur teymi á vegum Sagafilm kannað jarðveginn fyrir hugsanlegur tökur á nýrri Star Wars mynd á Íslandi. Hafa þessar þreifingar farið afar leynt en þær fóru fram á Suðurlandi. Ekki liggur fyrir hvaða tökustaðir voru skoðaðir og engar upplýsingar fást um þetta hjá Sagafilm. Verkefnið er þó svo skammt á veg komið að ólíklegt verður að telja að leikstjórinn, J.J. Abrams, eða aðrir stórlaxar hafi enn komið til landsins. Þó er vitað að Abrams hefur áhuga á að taka upp á Íslandi. Hann stefndi að því að taka upp fyrstu Star Trek-myndina hér fyrir nokkrum árum en það datt upp fyrir. Í fyrra kom tökumaður á hans vegum hingað og tók bakgrunnsmyndir fyrir Star Trek 2 sem væntanleg er í kvikmyndahús síðar í þessum mánuði. Ekki er vitað hvort þær rata á hvíta tjaldið.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Árna Birni en hann greindi nýlega frá því í viðtali við Fréttatímann að hann hafi kannað tökustaði með leikstjóranum Christopher Nolan hér um páskana. Árni Björn verst allra fregna af hugsanlegum Star Wars-tökum hér. „Ég veit ekki hver var að segja þér þetta. Ég var að „skáta“ fyrir rússneska mynd um daginn.“

Umrædd Star Wars-mynd er sú fyrsta í nýjum þríleik. Í fyrra festi Disney kaup á Lucasfilm og hreppti þar með réttinn að gerð Star Wars-mynda. Áætlað er að fyrsta myndin verði frumsýnd árið 2015. Tvö ár eiga svo að líða þar til sú næsta verður frumsýnd og önnur tvö þar til þríleikurinn klárast. Á milli á svo að frumsýna sjálfstæðar myndir. Gangi þetta eftir fá Star Wars-aðdáendur eina mynd á ári í fimm ár.

Þríleikurinn er beint framhald af fyrsta þríleiknum, gömlu góðu Star Wars-myndunum. Talið er líklegt að Harrison Ford, Mark Hamill og Carrie Fisher snúi aftur í hlutverk sín.

Höskuldur Daði Magnússon
hdm@frettatiminn.is

Til baka

Kaupstaður