Fréttatíminn

image description
09.05 2013

Tímaskekkja að Vínbúðir séu lokaðar á sunnudögum

Íslendingar geta ekki keypt sér rauðvín með sunnudagssteikinni því óheimilt er að hafa Vínbúðir opnar á helgidögum þjóðkirkjunnar.
Íslendingar geta ekki keypt sér rauðvín með sunnudagssteikinni því óheimilt er að hafa Vínbúðir opnar á helgidögum þjóðkirkjunnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir.

Vínbúðirnar eru lokaðar á sunnudögum af því þeir eru helgidagar þjóðkirkjunnar. Aðstoðarforstjóri ÁTVR segir þetta vissulega hluta af gömlu hugarfari en ekki standi til að breyta opnunartímanum. Formaður Heimdallar vonast til þess að ný ríkisstjórn geri landsmönnum kleift að kaupa hvítvín með humrinum og rauðvín með sunnudagssteikinni.

Ef fólk vill fá sér rauðvín með steikinni ætti það að standa öllum til boða. Það á ekki að skipta máli hvort það sé á sunnudegi eða mánudegi. Þetta er tímaskekkja,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar.

Undanfarin ár hefur þjónusta við viðskiptavini Vínbúðanna á höfuðborgarsvæðinu sífellt verið aukin. Fyrir nokkrum árum voru Vínbúðirnar opnar á skrifstofutíma á virkum dögum og á milli 10-12 á laugardögum. Í dag getur fólk gengið að veigunum til klukkan 20 í völdum verslunum mánudaga til föstudaga og frá 11-18 á laugardögum. Hins vegar vekur athygli að ekki hefur þótt koma til greina að Vínbúðirnar væru opnar á sunnudögum.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að tekið sé fyrir opnun á sunnudögum í lögum. „Áfengisútsölustaðir skulu vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst,“ segir í reglugerð um smásölu og veitingar áfengis.

Sigrún Ósk segir að ÁTVR hafi ekki farið fram á að fá að hafa opið á sunnudögum og hafi í raun ekki tekið formlega afstöðu til þess. „Ég held að almennt séð séum við sátt við þetta fyrirkomulag,“ segir hún.

Er þetta ekki tímaskekkja, að tengja áfengissölu við kirkjusókn?
„Eflaust er þetta hluti af gömlu hugarfari enda er þetta búið að vera lengi í lögum. Auðvitað er það eitt af markmiðum með einkasölu að stýra aðgenginu. En ég held að fólk sé almennt sátt við þetta. Það koma af og til fyrirspurnir um af hverju ekki sé opið á sunnudögum en við verðum ekki vör við mikinn þrýsting,“ segir Sigrún Ósk.

Áslaug Arna segir að í sínum huga sé ekki aðalatriði að kirkjan og trú fólk skuli vera tengd opnunartíma Vínbúða. Verra sé að fólk njóti ekki frelsis. „Það er ekki alvarlegra að fólk fái sér að drekka á sunnudögum en aðra daga. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir því að fá léttvín og bjór í búðir. Við viljum að fólk geti nálgast þessar vörur alla daga eins og í nágrannalöndunum.“

Heldurðu að búast megi við breytingum á þessu fyrirkomulagi á næstunni?
„Ég vona að eftir einhvern tíma þegar ríkisstjórnin hefur tekið við völdum að hægt verði að koma þessu í eðlilegt horf. Ég trúi því að sjálfstæðismenn sjái til þess að við getum keypt hvítvín með humrinum og rauðvín með steikinni þegar okkur hentar. Nú er þetta í stefnu flokksins og ég vona að þingmenn fylgi þessu eftir.“

Höskuldur Daði Magnússon
hdm@frettatiminn.is

Til baka

Kaupstaður