Deila

Evrópumeistarar í lyfjanotkun

Ungir Íslendingar taka inn meira af lyfseðilsskyldum lyfjum en ungt fólk í öðrum Evrópulöndum. Og miklum mun meira af öðrum lyfjum. Það á við um alla Íslendinga óháð aldri. Í Íslandi taka svo til allir inn slík lyf, um og yfir 80 prósent af öllum aldurshópum á meðan innan við þriðjungur neytir slíka lyfja að meðaltali í Evrópusambandinu.

Svo til allar á lyfjum: Í samanburði við þjóðir Evrópusambandsins sést að Íslendingar eru svo til allir á einhverjum lyfjum frá ungum aldri og til efri ára á meðan lyfjanotkun annars staðar er mun minni og eykst með aldrinum. – Garfið sýnir hlutfall kvenna sem tekur inn ólyfseðilskyld lyf eftir aldurshópum.
Svo til allar á lyfjum: Í samanburði við þjóðir Evrópusambandsins sést að Íslendingar eru svo til allir á einhverjum lyfjum frá ungum aldri og til efri ára á meðan lyfjanotkun annars staðar er mun minni og eykst með aldrinum. – Garfið sýnir hlutfall kvenna sem tekur inn ólyfseðilskyld lyf eftir aldurshópum.

Íslenskir ungkarlar, fram að 35 ára aldri, eiga Evrópumet í lyfjanotkun, bæði á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum lyfjum og fæðubótarefnum ýmisskonar. Eldri karlar eru líkari öðrum Evrópubúum hvað varðar lyfseðilsskyldu lyfin en neyta miklum mun frekar annarra lyfja en karlar af öðrum þjóðum.

Á meðan um 29 prósent karla í Evrópusambandinu taka inn ólyfseðilsskyld lyf eða fæðubótarefni þá er hlutfallið 80 prósent hjá íslenskum körlum. Sambærilegt hlutfall meðal kvenna er 40 prósent í Evrópusambandinu en 89 prósent á Íslandi.

Auglýsing

Íslenskar konur eru í efsta sæti yfir notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum eða nálægt toppnum fram að ellilífeyrisaldri. Meira en helmingur yngstu kvennanna, á aldrinum 15 til 24 ára, nota lyfseðilsskyld lyf á meðan hlutfallið er 27 prósent í Evrópusambandinu, meira en helmingi lægra. 86 prósent íslenskra kvenna á þessum aldri taka inn önnur lyf á meðan hlutfallið er 37 prósent í Evrópusambandinu.

Eina þjóðin sem kemst með tærnar þar sem Íslendingar eru með hælanna í neyslu á öðrum lyfjum en lyfseðilsskyldum eru Finnar. Neysla þeirra er þó langt í frá eins mikil og Íslendinga. Sé miðað við það sem almennt gengur og gerist neyta Íslendingar tvöfalt meira af þessum lyfjum en aðrar þjóðir, og rúmlega það.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.