Deila

Dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðið á Jóni Gunnari

Dómur fallinn í morðmálinu í Akalla í Svíþjóð.

Maðurinn sem myrti Íslendinginn Jón Gunnar Kristjánsson á tjaldsvæði í Akalla í Stokkhólmi í júlí síðastliðið sumar var dæmdur í 18 ára fangelsi. Dómur var kveðinn upp í Stokkhólmi á fimmtudaginn í síðustu viku. Maðurinn, Björn Kollberg (sem sést á myndinni við fréttina), stakk Jón Gunnar ítrekað og sló hann svo í höfuðið með rörtöng samkvæmt því sem kemur fram í dómnum. Kollberg á að baki langan sakaferil í Svíþjóð og er 41 færsla um hann á sakaskrá hans.

Samkvæmt dómnum í málinu kom Björn á tjaldsvæðið og vakti Jón Gunnar þar sem hann lá sofandi í tjaldi en þeir höfðu átt í illdeilum um nokkurt skeið. Samkvæmt frásögn sjónarvotta á tjaldstæðinu byrjuðu þeir að rífast og endaði rifrildið með handalögmálum. Björn tók svo upp hníf og þá sagði Jón Gunnar, samkvæmt frásögn vitnis: „Ekki hnífinn Björn, ekki hnífinn Björn.“ Björn mun svo hafa slegið Jón Gunnar með rörtönginni eftir að hafa stungið hann.
Málið hefur vakið nokkra athygli á Íslandi enda var Jón Gunnar íslenskur. Hann flutti til Svíþjóðar árið 1983, þá tveggja ára gamall, og hefur búið þar síðan.
Ekki hefur komið fram í fjölmiðlum hvort dómnum í málinu verður áfrýjað til hæstaréttar í Svíþjóð.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.