Deila

Fjölmiðlar í almannaþjónustu eða sérhagsmuna

Frá því ég byrjaði í blaðamennsku hef ég unnið á ritstjórnum blaða sem hafa verið í eigu allskyns fyrirbrigða. Ég vann á blöðum í eigu bæði Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, blöðum í eigu eins manns eða starfsfólks, vina og vandamanna, blöðum í eigu nokkurra fjársterkra aðila og fyrrum fjársterkra manna sem fóru á hausinn. Einu sinni tók ég þátt í því að koma víðtækum fjölmiðlarekstri 365 á almennan hlutabréfamarkað.

Stundum hafa blöðin skipt um eigendur. Ég var á NT þegar Framsóknarflokkurinn tók yfir reksturinn og breytti blaðinu aftur í Tímann. Ég var ritstjóri á Pressunni þegar Friðrik Friðriksson keypti blaðið af útgáfufélagi Alþýðuflokksins. Ég var á Eintaki þegar Prentsmiðjan Oddi hlutaðist til um að blaðið sameinaðist Pressunni og úr varð Morgunpósturinn. Ég var á Fréttablaðinu þegar þeir DV-feðgar, Sveinn og Eyjólfur, komust í þrot með sinn rekstur. Með góðri hjálp fékk ég nýja fjárfesta til að endurreisa blaðið.

Svona hefur fjölmiðlaheimurinn verið þann tíma sem ég hef þekkt hann, í rúm þrjátíu ár. Blaðaútgáfa hefur alltaf róstursöm. Rekstur allra blaða, nema kannski Morgunblaðsins um tíma, var svo veikburða að blöðin gáfust upp eða fóru í gegnum uppstokkun í hverri niðursveiflu í efahagslífinu. Og þær niðursveiflur voru örar og reglulegar.

Auglýsing

 

Blómatími stóru fjölmiðlanna á Vesturlöndum byggði á einokun eða fákeppni í dreifingu efnis og auglýsinga. Sú staða skilaði þeim fjölmiðlum sem flutu ofan á fjárhagslegum styrk sem gerði þeim fært að axla samfélagslega ábyrgð og halda úti víðtækri almannaþjónustu. Þannig var staðan á blómatíma vestrænna fjölmiðla, sem jafnframt var blómatími Vesturlanda.

Vegna smæðar íslenska markaðarins, einangrunar, veiks gjaldmiðils, hafta og hversu seint kaupmáttur almennings kveikti upp í almannamarkaðnum varð þessi þróun veikari hérlendis og kom seinna. Fyrir utan Ríkisútvarpið var það bara Morgunblaðið sem byggðist upp með sama hætti og öflugustu fjölmiðlar í okkar heimshluta. Mögulega líka Dagblaðið-Vísir.

Þegar brestir komu í fjárhagslegar stoðir fjölmiðla um síðustu aldamót hófst leit að nýjum leiðum til að halda uppi fjölmiðlun í almannaþágu. Ég tók þátt í að byggja upp Fréttablaðið. Þá töldum við að Fréttalaðið væri einskonar björgunarhringur fjölmiðlunar sem var að sökkva. Með því að sleppa áskrift og auka útbreiðsluna töldum við að hægt væri að verja stöðu dagblaðanna á auglýsingamarkaði, viðhalda styrk blaðanna og þeirri almannaþjónustu sem þau höfðu veitt.

 

Eftir Hrun hafa efnahagslegar forsendur fyrir fjölmiðlum enn veikst. Auglýsinga- og áskriftarsala stendur ekki lengur undir þeirri þjónustu sem miðlarnir gátu áður veitt. Þjónustan hefur því verið skorin niður og blaðamönnum fækkað. Ritstjórnir eru í dag veikari og reynsluminni en áður.

En niðurskurður hefur ekki dugað til. Fjölmiðlarnir hafa sótt sér nýtt hlutafé og annan stuðning til aðila sem ekki líta á fjölmiðla sem arðbær viðskipti heldur vilja fjárfesta í miðlum til verja hagsmuni sína. Fjárhagsstoðir þessara miðla eru ekki lengur almennar eða á markaði heldur tengdar sérhagsmunum og lokuðum herbergjum.

Ef nýtt hlutafé og fjárstuðningur sérhagsmunaaðila til fjölmiðla er talinn saman frá Hruni nemur hann vel á fjórða þúsund milljóna króna. Allir gömlu einkamiðlarnir eru nú reknir af eða í samvinnu við harða sérhagsmuni.

Ef taldir eru saman þeir miðlar sem orðið hafa til eftir Hrun og ekki byggja á sérhagsmunum eru þeir fáir og veikir. Auk Fréttatímans eru það Kjarninn, Stundin og Kvennablaðið. Samanlagt nýtt hlutafé í þessum miðlum er undir 150 milljónum króna, einn tuttugasti af því sem varið hefur verið í sérhagsmunamiðlana.

Frá Hruni hefur íslenskt fjölmiðlaumhverfi breyst frá því að sinna almannaþjónustu yfir í sérhagsmunagæslu. Auðvitað sinna sérhagsmunamiðlarnir almannaþjónustu að hluta og oft að miklu leyti. En þegar þetta tvennt skarast ráða sérhagsmunirnir.

 

Þegar viðskiptamódel fjölmiðlanna er brostið og markaðurinn stendur ekki lengur undir öllum kostnaðinum við að halda úti þjónustu kemur tvennt til greina fyrir miðlana. Að leita fjárstuðnings hjá sérhagsmunaaðilum eða leita eftir stuðningi hjá almenningi.

Markaðurinn stendur undir prentun og dreifingu Fréttatímans í um 80 þúsund eintökum. En markaðurinn stendur ekki undir öflugri óháðri ritstjórn. Þann mikla slagkraft sem felst í mikilli dreifingu má nýta til að byggja upp öflugan miðil í almannaþágu gegn sífellt aflmeiri sérhagsmunum.

Til þess þurfum við aðstoð frá almenningi. Ekki hverjum og einum, aðeins nógu mörgum sem telja að frjáls og óháð blaðamennska sé grundvöllur lýðræðis og forsenda þess að almannahagur móti uppbyggingu samfélagsins.

Gunnar Smári

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.