Deila

Frægur fyrir verstu mynd í heimi

Greg Sestero er bandarískur leikari, módel og rithöfundur. Hann er best þekktur fyrir leik í myndinni The Room frá árinu 2003 sem vinur hans, Tommy Wiseau, gerði. The Room er yfirleitt kölluð versta kvikmynd allra tíma en er samt orðin stórmerkilegt menningarfyrirbæri. Nú heimsækir Sestero Ísland í tengslum við sýningu myndarinnar í Bíó Paradís.

Kvikmyndir eiga sér líftíma, eins og flest önnur listaverk. The Room, eftir Tommy Wiseau, stendur vel undir því að vera kölluð versta mynd allra tíma. Samtölin eru einkennilega vond og illa leikin, dramatíkin yfirdrifin, allar tímasetningar í rugli og leikmyndin skelfileg, svo eitthvað sé nefnt.

Engan grunaði að The Room myndi eiga sér framhaldslíf. Greg Sestero, sem leikur persónu Marks í myndinni, segir að hann hafi áttað sig á vinsældunum árið 2009. „Þá rakst ég á grein í Entertainment Weekly sem fjallaði um það krakkar í bandarískum háskólum væru að pæla í myndinni og að í kringum hana hefði myndast einhvers konar „költ.“ Ég var auðvitað steinhissa en áttaði mig líka á því að ég hefði sögu að segja,“ segir Sestero. Hann gaf út bók um reynslu sína af því að leika í myndinni árið 2013. Bókin heitir The Disaster Artist og nú er mynd sem byggð er á henni í eftirvinnslu. The Room hefur líka undið upp á sig með tölvuleik, heimildarmynd, leikriti og sjónvarpsefni fyrir netið.

Greg Sestero hefur byggt feril sinn að nokkru leyti á þátttöku sinni í þessari mynd. „Mig langaði að skrifa bók um gerð myndarinnar af því að það var bara svo margt um leikstjórann og þessa sögu sem ég vissi að aðdáendur vissu ekki,“ segir Sestero. „Á sínum tíma ákvað ég að vera með í myndinni og gerði mér ekki miklar væntingar um hana. Ég var bara að hjálpa sérvitra vini mínum, Tommy, að gera mynd og ef ég á að segja alveg eins og er þá bjóst ég við því að enginn myndi sjá hana.“

Auglýsing

Líflegt bíó

Sýningar á The Room eru mikið sjónarspil og mikið stuð. Áhorfendur kunna að spila sitt hlutverk á meðan myndin er í gangi. Þeir kalla frasa úr myndinni upp á réttum stöðum, kasta plastskeiðum að hvíta tjaldinu þegar það á við og jafnvel amerískum fótbolta á milli sín þegar persónurnar eru að gera það sama. Í einni senunni í myndinni, sem er algjörlega úr öllu samhengi við söguþráðinni, kasta karlkyns persónurnar boltanum á milli sín í smóking-jökkum og ekkert sem sagt er skiptir neinu máli um framvindu sögunnar.

The Room, sem hefur verið kölluð Citizen Kane vondu myndanna lifir góðu lífi þrátt fyrir að vera með afbrigðum vond mynd. Aðdáendur myndarinnar halda henni á lífi og skemmta sér konunglega aftur og aftur.
The Room, sem hefur verið kölluð Citizen Kane vondu myndanna lifir góðu lífi þrátt fyrir að vera með afbrigðum vond mynd. Aðdáendur myndarinnar halda henni á lífi og skemmta sér konunglega aftur og aftur.

„Áhorfendur eru það besta við The Room. Þeir hafa breytt myndinni í bíóupplifun á heimsvísu,“ segir Sestero. „Þetta með að kasta amerískum fótbolta var eitthvað sem ég og Tommy tengdum við. Hann sá þetta sem einhvers konar tákn um vináttu. Af hverju boltanum er oft kastað af mjög stuttu færi veit ég ekki, en það eykur bara við það hvað The Room er dularfull.“

Í Bíó Paradís mun Greg Sestero fjalla um The Room og reynslu sína af því að hafa orðið frægur fyrir að leika í verstu mynd allra tíma. Hann les úr bók sinni um gerð The Room, segir frá kvikmyndun hennar og fjallar um það hvernig var að taka þátt í verstu mynd í heimi. Kvöldstundirnar með Sestero hefjast í kvöld (föstudag) og á morgun klukkan 20 og auðvitað er The Room sýnd í framhaldinu.

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.