Fréttir

Silfurhærðir femínistar snúa aftur og blása líf í Baráttuna

Bandarískar kvenréttindarkonur biðla til kvenna um allan heim að safnast saman 8. mars og mótmæla. Angela Davis og Gloria Steinem, sem voru háværar á sjöunda áratugunum, boða 4. bylgju femínisma. Tilefnið er að yfirgefa „Lean-in“ femínisma, 3. bylgjuna, og taka upp kvenréttindabaráttu sem höfðar til 99% kvenna.

Segir rasista hafa brotið rúður á heimili sínu með hamri

Þannig braut óprúttinn aðili þrjár rúður á heimili Gunnars, með hamri, í síðustu viku. Þá voru einnig framin skemmdarverk á heimili Gunnars fyrir áramót, en hann segir það hafa gerst skömmu eftir að útvarpskonan Arnþrúður Karlsdóttir birti heimilisfang hans á spjallsíðu Íslensku Þjóðfylkingarinnar á Facebook.

Hægrisinnaðasti ráðherrann

Það kom mörgum á óvart þegar Sigríður Á. Andersen var gerð að dómsmálaráðherra en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, virtist í talsverðum vandræðum við að koma saman ríkisstjórn þar sem ekki hallaði að verulegu leyti á konur.  Sigríður Á. Andersen er 45 ára, búin að starfa í flokknum alla sína tíð, bæði í ungliðastarfi flokksins og ötull boðberi frjálshyggjunnar sem einn stofnenda þjóðmálafélagsins Andríkis og ritstjórnarmeðlimur Vefþjóðviljans. Þá hefur hún verið þingmaður frá árinu 2015 en hún var varaþingmaður frá árinu 2007 og kom inn á þing þegar Pétur Blöndal féll frá. Fyrir síðustu kosningar skipaði hún fjórða sæti í Reykjavík suður.

Ölfus lánar Hreiðari Má og félögum 33 milljónir

„Í fyrsta lagi er sveitarfélagið ekki banki,“ bókaði Ármann Einarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu Ölfusi, en bókunin er tilkomin vegna óvanalega hagstæðs láns sveitarfélagsins til kaupa á Rásarhúsinu svokallaða í Þorlákshöfn. Bæjarstjórn samþykkti söluna á fimmtudaginn.

Fékk heilablæðingu eftir tilefnislausa líkamsárás

„Ég ætla ekki að lýsa þeirri angist, þeim ótta og því varnarleysi sem við fjölskyldan upplifðum við sjúkrabeð sonar meðan við biðum milli vonar og ótta um hverjar afleiðingar þessa hroðalega verknaðar yrðu,“ segir Runólfur Ágústsson, íbúi í miðbænum, en sonur hans, kærasta hans og vinur þeirra urðu fyrir alvarlegri líkamsárás um helgina, aðfaranótt sunnudags. Kvöldið áður höfðu Runólfur og Áslaug Guðrúnardóttir, sambýliskona hans, haft matarboð fyrir börnin sín en þau eldri fóru út á lífið seinna um kvöldið. „Þegar þau komu út af skemmtistað ákváðu þau að fá sér bita á leiðinni heim. „Það var röng ákvörðun,“ segir Runólfur en hópur fólks sem þau þekktu ekki og höfðu aldrei áður séð réðst á þau í Hafnarstræti og misþyrmdi þeim. „Karen og vinurinn sluppu með mar og skrámur en Eyvindur var ekki svo heppinn. Hann fékk heilablæðingu.“

Sjómannasambandið hafnar lélegri kjörsókn

Í yfirlýsingu á vef Sjómannasambands Íslands segir að 53% kosningaþátttaka sé ekki léleg en á kjörskrá voru 2.214 sjómenn og greiddu 1.189 þeirra atkvæði. Á það er bent að þátttaka í atkvæðagreiðslunni um verkfallið var samanlagt 54,2%.

Safna fyrir skóla fyrir fötluð börn

„Þetta er blandaður hópur af fagfólki og foreldrum barna með sérþarfir,“ útskýrir Atli Magnússon, sérfræðingur hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríksins. Hann, ásamt Steinunni Hafsteinsdóttur og Maríu Sigurjónsdóttur og hópi foreldra fatlaðra barna, vinnur að því að safna fé fyrir stofnun skóla fyrir fötluð börn sem hefur verið nefndur Arnarskóli. Atli lærði úti í Bandaríkjunum og starfaði þá hjá bandarískum skóla sem heitir New England Center for Children, þangað sem fyrirmyndin er meðal annars sótt.

Kjararáð gerir út af við SALEK

„Þetta samstarf er í sjálfu sér orðið ónýtt, þessi kjararáðsúrskurður hefur eyðilagt þetta samstarf,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, en forsendunefnd sambandsins og Samtaka atvinnulífsins kom saman á þriðjudaginn og fór yfir forsendur samninga. Gylfi segir að niðurstaðan væri að það væri staðfestur forsendubrestur, þá helst vegna kjarasamninga sem gerðir voru eftir febrúarlok 2016 og kjararáðsúrskurðanna tveggja sem hafa verið afar umdeildir.

Lífeyrissjóðirnir lánuðu og töpuðu tugum milljóna á Fákaseli

Fjárfestasjóður, sem er í meirihlutaeigu sjö lífeyrissjóða, lánaði tugi milljóna króna inn í hestafyrirtækið Fákasel í Ölfusi sem þarf að hætta rekstri vegna taps. Tap Fákasels á árunum 2014 og 2015 nam rúmlega 300 milljónum króna. 60 milljóna kröfu fjárfestasjóðsins, Icelandic Tourism Fund sem stýrt er af Landsbréfum, var breytt í hlutafé í fyrra. Fjárfestasjóðurinn er auk þess í eigu ríkisbankans Landsbankans og Icelandair Group sem er einnig að hluta til í eigu lífeyrissjóða. Sjóðurinn hafði þá fjármagnað Fákasel með lánum og námu lánveitingarnar hærri upphæð en þessum 60 milljónum. Þannig var taprekstur Fákasels að stóru leyti fjármagnaður með almannafé. Fákasel var opnað árið 2014 og var markmiðið að vera með daglegar hestasýningar fyrir ferðamenn allt árið um kring. Fyrirtækið var staðsett á jörðinni Ingólfshvoli. Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri Icelandic Tourism Fund I, segir aðspurður reksturinn hafi einfaldlega ekki gengið upp. „Sú afþreying sem var í boði virtist ekki höfða til nægjanlega stórs hóps ferðamanna og þetta náði aldrei flugi hjá okkur: Við náðum aldrei þeirri aðsókn og þeim tekjum sem stefnt var að í upphafi.“

Fjársterkir aðilar koma inn í fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga

„Það liggur ekki fyrir hvað ég mun eiga stóran hlut þarna. Það eru að verða breytingarnar á hluthafahópnum í Pressunni, margir búnir að skrifa sig fyrir hlutafé þarna og nýir öflugir hluthafar að koma þarna inn. Við verðum þátttakendur í þessu upp að ákveðnu marki,“ segir Hreinn Loftsson, lögmaður og fyrrverandi aðaleigandi tímaritaútgáfunnar Birtíngs. Hreinn segir að það sé ekki í sínum verkahring að segja hvaða nýju hluthafar þetta eru.

Lögreglurannsóknin á plastbarkamálinu dregst á langinn

Rannsókn sænsku lögreglunnar á plastbarkamálinu hefur dregist á langinn vegna þess hversu flókið og umfangsmikið málið er. Lögreglan hefur þurft að yfirheyra vitni og lækna frá mörgum löndum, meðal annars Íslandi, sem flækir rannsóknina á plastbarkaaðgerðum ítalska skurðlæknisins Paulos Macchiarinis. Hann er grunaður um tvö manndráp af gáleysi og grófa líkamsárás.

Tugum tonna af eldislaxi fargað á Bíldudal: „Ekkert óeðlilegt“

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax fargaði í vikunni tugum tonna af eldislaxi sem drepist hafði af ýmsum ástæðum í eldiskvíum fyrirtækisins. Dauða laxinum er safnað saman í kör og hann fluttur í gámum til urðunar í Sorpurðun Vesturlands í Borgarnesi. Í vikunni var búið að fylla einn gám á Bíldudal með dauðum laxi, samtals um 80 tonn samkvæmt einum heimildarmanni, sem þurfti að urða. Sjá má hluta af dauða laxinum á meðfylgjandi myndum.