Fréttir

Skoðanakönnun MMR: Ríkisstjórn Bjarna byrjar veikt

Ef marka má skoðanakönnun sem finna má inn á vef MMR án þess að fyrirtækið hafi sent út tilkynningu þar um, byrjar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar í miklum mínus. Könnuninni var lokið 10. janúar, þegar megindrættir stjórnarmyndunarinnar lágu fyrir en daginn áður en ríkisstjórnin tók við. Það er því ekki spurt um afstöðu fólks til stjórnarinnar sjálfrar, en allir stjórnarflokkarnir hafa samkvæmt könnuninni misst fylgi frá kosningum.

Að bera fyrir sig einhvern minnimáttar

Þegar komið hefur til tals að hækka eignarskatta á Íslandi er fljótlega dregin inn í umræðuna mynd af háaldraðri ekkju sem býr ein í stóru einbýlishúsi en hefur engar tekjur til að greiða skattinn. Þegar nefnt er að mögulegt sé að leggja hér á hátekjuskatt eins og tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar er sjómanni stillt fram, ungum fjölskylduföður og húsbyggjanda, sem sleppir frítúrum til að auka tekjur sínar. Þegar bent er á að hér sé fjármagnstekjuskattur fáránlega lágur er dregin upp mynd af öldruðum hjónum sem lifa af eignum sínum en eiga engan lífeyrissjóð. Um leið og einhver krefst þess að veiðileyfagjöld séu hækkuð vegna ógnargróða útgerðarinnar er bent á einn útgerðarmann austur á landi sem nær ekki endum saman. Þegar til stóð að hækka virðisaukaskatt á gistingu upp í efra þrep var teflt fram ímynduðum gistihúsaeigenda sem hefði selt allt gistirými sitt mörg ár fram í tímann.

Sýnir ógnvekjandi raunveruleika á Íslandi

„Við búum í litlu landi og það eru allskyns tabú í gangi og mér finnst spennandi að fjalla um eitthvað af þeim. Það er til allskonar fólk á Íslandi eins og allstaðar annarsstaðar í heiminum, það er ekkert öðruvísi hér en annarsstaðar. Fólk vill oft búa sér til einhvern íslenskan raunveruleika en hann er ekki til,“ segir Þórsteinn Sigurðsson, nemi í Ljósmyndaskólanum.

Veik stjórn með lítinn byr á leið í ólgusjó

Þótt engin ástæða sé til að efast fyrirfram um getu nýrrar ríkisstjórnar verður að segjast að hún leggur ekki af stað með mikinn byr í seglum. Engin ríkisstjórn í lýðveldissögunni hefur verið mynduð með jafn lítið kjörfylgi að baki sér. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja var aðeins 47 prósent. Meirihluti kjósenda kaus aðra flokka. Stuðningur við ríkisstjórnina er auk þess veikur meðal fylgismanna flokkanna. Það á við um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarta framtíð, kannski síður Viðreisn. Það er því ekki hægt að ætla að þessi 47 prósent kjósenda standi heils hugar að baki stjórninni. Og ólíklega vegur stuðningur kjósenda annarra flokka þetta upp.

Þorgerður um laxeldið: Þarf að móta stefnu áður en tjón verður á náttúrunni

„Mér finnst skipta miklu máli að við tökum tillit til umhverfisins. Við þurfum ávallt að hafa það í huga þegar við erum að koma að því að byggja upp nýja atvinnugrein. Við verðum að byggja mat okkar á rannsóknum á lífríkinu og umhverfinu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, aðspurð um hvaða skoðanir hún hafi á stórfelldri aukningu á laxeldi í fjörðum Íslands. „Við þurfum svo að skoða það hvað möguleikar eru fyrir hendi til að byggja upp öfluga atvinnugrein án þess að ógna þessu lífríki.“ Þorgerður Katrín mun taka við því verkefni fyrirrennara síns í ráðuneytinu, Gunnars Braga Sveinssonar, að hafa yfirumsjón með vinnu við stefnumörkun um stefnu Íslendinga í fiskeldi en sérstök nefnd mun sjá um þetta verkefni. „Við þurfum að móta hér stefnu til framtíðar um fiskeldi. Þetta er eitt af því sem ég myndi leita til annarra stjórnmálaflokka með,“ segir hún.

Systrasamlagið boðið velkomið í Garðabæ

Seltjarnarnesbær vill ekki gera langtímaleigusamning við eiganda skúrsins sem hefur hýst Systrasamlagið, litla heilsuveitingasölu við íþróttamannvirki Seltjarnarness. Skúrinn er aðeins nokkrir fermetrar en þar hafa Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur selt umhverfisvænar heilsuvörur og notið mikilla vinsælda í hverfinu.

Óljóst hvort Amir megi giftast íslenskum manni

„Við erum núna að keppa við tímann,“ segir kærasti Amir Shokrogozar, íransks hælisleitanda sem vísað verður úr landi innan skamms. Amir flúði heimalandið fyrir nokkrum árum síðan vegna kynhneigðar sinnar, en nú býr hann með íslenskum manni og hafa þeir átt í ástarsambandi í yfir ár. Nú vinna þeir í því að giftast, en vandinn er sá að Amir þarf að útvega vottorð í Íran um að hann sé ógiftur.

Skattaglufur skýra minna útsvar

Pétur segir að vandamálið sé vel þekkt meðal stjórnenda sveitarfélaga en sé einskonar heit kartafla, lítið talað um það. „Þetta er vandamál í öllum sveitarfélögum. Ég held að það átti sig allir á málinu þegar það er útskýrt. Þú ert með lítið einkahlutafélag með einum starfsmanni, til dæmis. Þetta félag getur átt hús, bíl og jafnvel rekið mötuneyti. Þá ertu kominn ansi langt með það sem við meðaljónar erum að eyða laununum okkar í. Þessir sömu aðilar þrýsta svo laununum sínum niður, greiða sér minni laun, en taka svo meiri arð út úr félaginu í staðinn. En af því borga þeir fjármagnstekjuskatt, sem er lægri, og sveitarfélög eiga enga hlutdeild í því,“ segir Pétur.

LÍN braut gegn starfsmanni

Umboðsmaður telur að LÍN hafi ekki verið heimilt að ráða sumarstarfsmann án auglýsingar til verkefnisins. Meðalhófsreglu hafi ekki verið fylgt við uppsögn fastráðna starfsmannsins, sem var rekinn vegna skipulagsbreytinga. Í nýlegu áliti umboðsmanns kemur fram að báðir starfsmenn hafi unnið við afgreiðslu og skjalahald hjá LÍN. Sumarstarfsmaðurinn hafði þó fyrst og fremst unnið við átaksverkefni við að skila inn gögnum úr skjalageymslum LÍN til Þjóðskjalasafns Íslands. Það verkefni hafi dregist og því var ákveðið að ráða sumarstarfsmanninn til áframhaldandi starfa í eitt ár.

Vefpressunni stefnt vegna skulda

Fjölmiðlar Hannes Alfreð Hannesson, framkvæmdastjóri Póstdreifingar, segir að Vefpressan skuldi félaginu háar upphæðir. Póstdreifing hefur dreift þremur vikublöðum Vefpressunar, Reykjavík, Garðabær og Hafnarfjörður. Félagið hefur stefnt Vefpressunni vegna skuldanna og verður málið tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjavíkur á föstudaginn í næstu viku.

AFS í vörn og stóðu ekki með skiptinemunum

AFS skiptinemasamtökin hafa verið gagnrýnd í fjölmiðlum að undanförnu, fyrir að tryggja ekki öryggi íslenskra ungmenna sem fara á þeirra vegum út í heim. Mæðginin Birna Bragadóttir og Sindri Ingólfsson voru afar ósátt við AFS eftir að Sindri fór til Kína á þeirra vegum. Hann hafði lengi dreymt um að fara í skiptinám til útlanda og ákvað sautján ára gamall að nota um það bil alla peninga sem hann hafði eignast frá fermingu í að fjármagna skiptinámsdvöl í Kína. Birna segist hafa þekkt skiptinemakerfið af góðu einu og að þau hafi treyst alþjóðlegu samtökunum AFS til að standa vel að náminu.

Föstudagurinn þrettándi rammkristinn og nýr af nálinni

Bæði föstudagur og talan þrettán hafa verið talin boða óheppni í kristni frá miðöldum. Líklegast er að föstudagur hafi verið talin boða óheppni vegna krossfestingar Jesú sem bar upp á þann dag. Í Kantaraborgarsögum Geoffrey Chaucer frá 14. öld er til að mynda varað við því að fólk ferðist á föstudegi. Talan þrettán boðar óheppni af svipuðum ástæðum og föstudagur innan kristni en hún er tengd við svikarann Júdas. Hann var þrettándi maðurinn sem sat við borðið þegar Jesús snæddi í síðasta skiptið.

Kirkjan fékk hundruð milljóna á röngum forsendum

Sindri stefndi ríkinu til að fá úr því skorið hvort það fyrirkomulag að ríkið noti tekjuskatt til að greiða sóknargjöld brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár um trúfrelsi. Honum barst nýverið vörn ríkisins í málinu þar sem því er alfarið mótmælt að sóknargjöld séu félagsgjöld heldur framlög frá ríkinu. Það þýðir að rök meðal annars Ólafar Nordal, fyrrverandi innanríkisráðherra, fyrir leiðréttingu á skerðingu fjárframlaga til kirkjunnar falla um sjálf sig. Ólöf sagði í viðtali við RÚV árið 2015 að ríkið væri að innheimta sóknargjöldin fyrir hönd kirkjunnar.

Útilokar ekki að hefnd hafi ráðið för

Gunnar Ingi segir í samtali við Fréttatímann að Svanhvít hafi farið yfir strikið með framferði sínu og að honum hafi verið hótað uppsögn án uppsagnarfrests fyrir að styðja verkfall ritara. „Þetta er kannski ekki óvænt. Mér þótti þessi gjörningur forstjórans eiginlega með ólíkindum, að hún skyldi fara offari með þessum hætti,“ segir Gunnari Ingi.

Skattaparadís varð gryfja skattaundanskota

Ísland gekk einna lengst allra landa í okkar heimshluta í að innleiða skattastefnu í anda nýfrjálshyggjunnar, lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn. Rökin fyrir stefnunni voru að þetta myndi örva efnahagslífið, auka tekjur ríkissjóðs til lengri tíma, draga úr skattaundanskotum og halda fyrirtækjum og fjármagni innan íslenska efnahagskerfisins. Ekkert af þessu gekk eftir.

Búnir að kubba stanslaust í um mánuð

„Við erum búnir að kubba stanslaust í um mánuð,“ segir Guttormur Þorfinnsson, smiður og Legó-áhugamaður, en hann opnaði ásamt félögum sínum lítið Lególand í Hafnarfirði um áramótin. Fréttatíminn greindi frá því fyrir áramót að til stæði að opna leikland fyrir börn í Hafnarfirði. Þá sagðist Guttormur hafa fengið áhugann á Legó fyrir um 24 árum, eða þegar hann eignaðist son sinn. Nú er hann komin yfir miðjan aldur, og áhuginn hefur ekkert dvínað.