Fréttatíminn

image description
27.04 2012

Grýla í strætó

Farþegar með strætisvögnum í Reykjavík hafa ugglaust tekið eftir að silkimjúk kvenmannsrödd tilkynnir þeim hvaða stoppistöð sé næst á ferð þeirra um bæinn. Færri vita þó hvaða kona á röddina sem hljómar í eyrum farþeganna. Fréttatíminn fór á stúfana og komst að því að röddin tilheyrir Herdísi Hallvarðsdóttur sem er hvað frægust fyrir að vera meðlimur í hinni ódauðlegu sveit Grýlunum.
„Ég og Gísli maðurinn minn [Helgason] rekum saman fyrirtækið Hljóðbók og höfum verið að gefa út alls kyns efni á hljóðbókum. Við fengum þetta verkefni sem var liður í tæknivæðingu Strætó og röddin mín var notuð,“ segir Herdís í samtali við Fréttatímann. Hún segir að þetta hafi verið mikil vinna enda vagnarnir margir og stoppistöðvarnar sömuleiðis. Aðspurð hvort einhverjar sérstakar stoppistöðvar hafi reynt erfiðar segist Herdís ekki muna til þess. „Ég er ekki með listann fyrir framan mig en það hafa eflaust verið einhverjir tungubrjótar.“
Og Herdís segist nota strætó meira og meira. „Við erum með einn bíl og reiðhjól en ég fer meira og meira með strætó. Það venst að heyra sína eigin rödd þar sem maður situr í vagninum en mér finnst þetta alltaf svolítið fyndið. Hún hjálpaði mér nú reyndar fyrir stuttu þegar ég var á leið upp í Árbæ. Ég vissi hvað stoppistöðin hét en ekki alveg hvar hún var. Ég ætlaði að fara að leita hjálpar þegar röddin mín sagði mér að næsta stoppistöð væri sú sem ég átti að fara út,“ segir Herdís og bætir við að henni finnist þessi þjónusta mjög góð og er sannfærð um að hún hjálpi mörgum.
Aðspurð um reynsluna af því að lesa inn segist hún lesa inn tímarit og kynningarefni fyrir Hljóðbók. Herdís var eins áður sagði í Grýlunum með Ragnhildi Gísladóttir. Hún lék á bassa í sveitinni sem var gerð ódauðleg í myndinni Með allt á hreinu. Aðspurð hvort Grýluárin hafi hjálpað til við lesturinn segist hún mest hafa grætt á námskeiði í framsögn hjá stórleikaranum Gunnari Eyjólfssyni. „Það má þó segja að Grýlutíminn tengist þessu óbeint. Ef ég hefði ekki verið í Grýlunum þá hefði ég ekki lært á bassa. Ef ég hefði ekki lært á bassa þá hefði ég ekki gengið til liðs við hljómsveit Gísla Helgasonar. Ef ég hefði ekki gengið í hljómsveitina þá hefði ég ekki kynnst Gísla Helgasyni. Ef ég hefði ekki kynnst Gísla Helgasyn þá ynni ég sjálfsagt ekki hjá Hljóðbók. Ef ég ynni ekki hjá Hljóðbók hefði ég ekki lesið inn allar stoppistöðvarnar fyrir strætó og væri væntanlega ekki að tala við þig,“ segir Herdís hlæjandi.
Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is

Til baka

Kaupstaður