Fréttatíminn

image description
09.03 2012

Lestarteinar til Keflavíkur í aðalskipulag sveitarfélaga

Páll Hjaltason
Páll Hjaltason

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á Suðurnesjum hafa lýst yfir sameiginlegum vilja þess efnis að tryggja landrými fyrir lestarteina, og lestarstöðvar eftir atvikum, á leiðinni milli miðborgar Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt viljayfirlýsingu sveitarfélaganna verður ráðist í sameiginlega vinnu fulltrúa þeirra við verkefnið og festa það í sessi í aðal- og svæðisskipulagsáætlunum sveitarfélaganna. Í yfirlýsingunni segir að hópurinn skuli kortleggja þær leiðir er hugsanlega koma til greina og hvaða kosti og galla má finna við hverja þeirra. Áætluð verklok við þá úttekt eiga að vera í lok þessa árs 2012. Þátttakendur eru Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Vogar og Reykjanesbær.
Páll Hjaltason, arkitekt og formaður Skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að viljayfirlýsingin sé stór áfangi í skipulagi samgangna á suðvesturhorninu til framtíðar. „Það er mjög mikilvægt að þessi hugsun sé til staðar hjá öllum þessum sveitarfélögum. Þróunin hefur verið sú að uppbygging lestarsamgangna er alltaf að verða hagkvæmari. Mikilvægast er að með þessu mun lega teina og plássið fyrir þá vera ákveðið. Þegar þetta liggur fyrir má hugsa sér að fyrsta skrefið væri að láta strætó aka þessa braut. Það myndi stytta verulega ferðatímann ef hann þyrfti ekki að stoppa á leiðinni.“
Í næstu viku verður kynnt nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík. Mun það gilda til 2030 en þar er boðuð sú afgerandi stefnubreyting að hætt verði byggingu nýrra úthverfa. -jk
 

Til baka

Kaupstaður