Fréttatíminn

image description
20.04 2012

Óttuðust að kveikt yrði í Alþingi eftir viðtal við Grétar Mar

Þingmenn forsætisefndar undir forystu ríkisstjórnar Geirs H. Haarde óttuðust að kveikt yrði í Alþingi eftir viðtal við Grétar Mar Jónsson, þá þingmann Frjálslyndra, í DV. Í því sagði hann frá undirgöngum frá Alþingishúsinu yfir í Kristjáns- og Blöndahlshús. Nefndin fundaði á þriðja mótmæladegi búsáhaldabyltingarinnar og gagnrýndu nefndarmenn framgöngu þingmannsins og einnig Álfheiðar Ingadóttur, frá Vinstri grænum. Þetta er staðfest í fundargerð sem Fréttatíminn fékk aðgang að.
Sturla Böðvarsson, sem þá var forseti Alþingis, sagði viðtalið við Grétar vera alvarlegt mál þar „sem þessar upplýsingar gætu orðið til þess að óspektarmenn beindu spjótum sínum að þessum timburhúsum sem gætu auðveldlega orðið eldi að bráð.“
Kjartan Ólafsson, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokk, sagðist hafa orðið vitni að því að Álfheiður Ingadóttir „hefði verið í sambandi við fólk utan hússins og virst vera að veita þeim upplýsingar um viðbúnað lögreglu. [Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, núverandi forseti Alþingis,] sagði að margir hefðu nefnt svipað í sín eyru.“
Sturla sagði þá á fundinum að hann hefði átt fund með Álfheiði og Steingrími J. Sigfússyni um málið og „hefði hún neitað ásökunum.“
Geir Jón Þórisson vitnaði í fundargerðina í viðtali í fríblaðinu Reykjavík. Ummæli hans í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni, Sprengisandi, vöktu hörð viðbrögð. Hann sagði þingmenn hafa stýrt mótmælunum og gert eldfimt ástand enn verra. Í kjölfarið sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra óforsvaranlegt að setja fram órökstuddar fullyrðingar af þessu tagi.

Til baka

Kaupstaður