Deila

Frábær Freyju djass í hádeginu

Í hádeginu á þriðjudögum hljóma ljúfir djasstónar um Listasafn Íslands. Tónleikaröðin nefnist Freyju djass og er hugarsmíð tónlistarkonunnar Sunnu Gunnlaugsdóttur, sem vill skapa aukið rými fyrir konur innan djassheimsins.

„Ég á tvær stelpur sem eru í tónlistarnámi. Þegar ég fór á æfingu hjá þeim taldi ég rúmar þrjátíu stelpur og ellefu stráka að spila á slagverk og blásturshljóðfæri og fór að hugsa, hvað verður um þessar stelpur?“ Svo spyr Sunna, en að mati hennar hverfa stúlkur nefnilega frá rytmískri tónlist og fara því yfirleitt ekki inn í heim djassins.

„Ef stelpur finna sig ekki í klassíkinni þá finnst mér bara eins og þessar stelpur hætti. Þær klára jafnvel tónlistarskóla og ákveða bara að gera eitthvað annað. Þeim finnst þá líklega erfitt að komast inn í senuna, eða sjá ekki fyrir sér líf sem djassleikarar.“

Freyju djass er því tilraun Sunnu til þess að skapa fyrirmyndir fyrir stúlkur innan djassheimsins, en líka til þess að skapa ákveðinn vettvang fyrir tónlistarkonur til þess að auka tengslanet sitt. Freyju djassinn notast við kynjakvóta, þannig að ein kona spilar að minnsta kosti á hverjum tónleikum. „Þetta er algjörlega alþjóðlegt vandamál og í gegnum tíðina, frá upphafi djassins, hefur þetta verið rosalega karllægur bransi. Þegar djass verður til í New Orleans þá verður hann til inni á hóruhúsum og þótti bara ekki konum sæmandi.“

Auglýsing

Dagskráin er stútfull af flottu tónlistarfólki en síðasta þriðjudag lék hinn landskunni Tómas R. Einarsson ljúfa tóna með kúbversku ívafi ásamt þeim Sigrúnu Kristbjörgu og Eyþóri Gunnarssyni. Næsta þriðjudag kemur svo hin heimsfræga Myra Melford frá Chicago að spila. „Myra er mjög ævintýrakennd og sérstaklega lýrísk, þannig hún er mjög skemmtilegur tónlistarmaður,“ segir Sunna sem hvetur fólk til að kíkja á tónleika í hádegishléi frá vinnu eða skóla.

Myndir/Hari

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.